GMF12LS9THvítur leikur og vinnur.

Georg Maier – Magnús Carlsen

Staðan kom upp í fimmtu umferð efsta flokks skákhátíðarinnar GRENKE chess sem stendur yfir þessa dagana í Karlsruhe og Baden Baden í Þýskalandi. Það merkilega við þessa stöðu er að hvítur á þrjá leiki sem allir leiða til vinnings. Ég er nánast handviss um að þeir sem eitthvað kunna fyrir sér myndu finna rétta leikinn án mikillar yfirlegu. Heimamaðurinn Maier hafði teflt vel en virtist aldrei afhuga jafntefli gegn heimsmeistaranum sem hafði greinilega teygt sig of langt þegar hér var komið sögu. Vinningsleikirnir þrír eru:

A) 39. Hh5.

Svartur á enga haldgóða vörn gegn hótuninni 40. Hxh7+, t.d. 39…. De7 40. Hxh7+ Kxh7 40. Hh1+ Kg8 41. 41.Be6+ Hff7 42. Hh6! með hótuninni 43. Dh5. Engin vörn finnst.

B) 39. Hh1.

Vinnur einnig t.d. 39…. De7 40. Hxh7+ Kxh7 41. Hh5+ Kg6 42. Hh6+! Kf7 43. Dh5+ og mátar.

C) 39. Hf5

– og svartur er varnarlaus, t.d. 39…. Db8 40. Hxf8+ Dxf8 41. Hb1 og vinnur. Hvítur átti nægan tíma fram að 40. leik til að finna einn þessara leikja. Kannski var hann hræddur við að vinna. Hann valdi:

39. Ha1?

og eftir…

39…. De7 40. Dxg7+ Dxg7 41. Hxg7 Kxg7 42. Hxa4 Bc6 43. Hb4… sömdu keppendur um jafntefli.

Magnús tefldi strax í fyrstu umferð við hinn nýbakaða áskoranda Fabiano Caruana. Eins og oft áður virtist hann hafa í fullu tré við Bandaríkjamanninn en upp kom flókið hróksendatafl þar sem peð svarts voru komin lengra, kóngsstaðan betri og vinningshorfur þarafleiðandi góðar:

GMF12LS9PGrenke classic; 1. umferð:

Fabiano Caruana – Magnús Carlsen

Svartur á leik og staðan er unnin en vinningsleikurinn á fátt líkt með mynstrum sem skákmenn hafa oft í kollinum í hróksendatöflum. 54…. Hh7! hefur þann tilgang að hamla för hvítu peðanna. Aðalbrigðið er svona: 55. Kxd3 Hd7+! 56. Ke4 a5 57. g5 a4 58. g6 Hd8! 59. Hc7 a3 60. g7 a2 og svartur vinnur. En Magnús valdi að leika:

54…. a5?

og eftir…

55. h6! He2+ 56. Kxd3 Hh2 57. g5

varð hann að sætta sig við skiptan hlut…

57…. Hh3+ 58. Kd2 Hh2+ 59. Kd3

– Jafntefli.

Eftir þessi vonbrigði hefur lítið gengið hjá Norðmanninum þótt hann sé að venju með í baráttunni um sigurinn. Staðan þegar fjórar umferðir eru eftir: 1.-3. Caruana, Vachier-Lagrave og Vitiugov 3½ v. (af 5). 4.-5. Carlsen og Aronjan 3 v. 6.-7. Anand og Bluebaum 2 v. 8.-10. Hou Yifan, Maier og Naiditsch 1½ v.

Um það leyti sem aðalmótið hófst lauk keppni í opna A-flokknum en þar var mikið mannval á ferðinni og eitt sterkasta opna mót ársins. Úrslitin hafa vakið mikla athygli því að 13 ára Þjóðverji, Vincent Keymer, bar glæsilegan sigur úr býtum, hlaut átta vinninga af níu mögulegum og stal gjörsamlega senunni. Hann er talinn mesta efni sem Þjóðverjar hafa eignast um áratuga skeið. Fjórir efstu urðu:

1. Keymer 8 v. (af 9). 2.-4. Korobov, Shirov og Gordievskí 7½ v. Aðstoðarmaður Keymers og þjálfari á mótsstað var ungverski stórmeistarinn Peter Leko.

Vignir Vatnar Stefánsson, nýorðinn 15 ára, tók þátt í þessu móti og stóð sig ágætlega, hlaut 5½ vinning af níu mögulegum og hafnaði vel fyrir ofan mitt mót en keppendur voru hvorki fleiri né færri en 787 talsins. Faðir hans, Stefán ´Már Pétursson, tefldi í opna B-flokknum og hlaut fimm vinninga af níu mögulegum.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 7. apríl 2018

- Auglýsing -