Caruana líklegasti áskorandi Magnúsar Carlsen

0
611

Allt útlit er fyrir æsispennandi lokasprett áskorendamótsins í skák sem nú stendur yfir í Berlín, en Bandaríkjamaðurinn Fabiano Caruana heldur hálfs vinnings forystu á Aserann Shakhriyar Mamedyarov þegar fjórar umferðir eru eftir. Átta skákmenn unnu sér rétt til þátttöku í áskorendamótinu og tefla þeir tvöfalda umferð. Fyrsta sætið skiptir öllu máli, því að sigurvegarinn vinnur réttinn til að skora á heimsmeistarann Magnús Carlsen í einvígi um heimsmeistaratitilinn sem mun hefjast í London 9. nóvember næstkomandi. Staðan eftir jafnteflisskák efstu manna á fimmtudaginn er þessi:

1. Caruana 6½ v. (af 10) 2. Mamedyarov 6 v. 3. Grischuk 5½ v. 4.-5. Karjakin og Ding 5 v. 6. Kramnik 4½ v. 7. So 4 v. 8. Aronjan 3½ v.

Þar sem Elo-stigamunur á keppendum er sáralítill og varla marktækur virtust allir keppendur eiga sigurmöguleika við upphaf móts. Armenar, sem eignuðust heimsmeistara árið 1963 þegar Tigran Petrosjan vann Mikhael Botvinnik 12½:9½ í Moskvu, hafa lengi alið þá von í brjósti að Aronjan myndi feta í fótspor níunda heimsmeistarans. Aronjan hefur hins vegar ekki náð sér á strik; hann situr einn í neðsta sæti og á enga möguleika á sigri.

Vladimir Kramnik fékk 2½ vinning úr fyrstu þrem skákunum en hreppti þá mikinn mótbyr, tapaði fjórum skákum en vann þó aftur í 10. umferð. Kínverjinn Ding hefur gert jafntefli í öllum tíu skákum sínum. Sergei Karjakin vann síðasta áskorendamót en er ekki líklegur til að ná þeim frábæra endaspretti sem honum er nauðsynlegur og einungis Alexander Grischuk virðist geta blandað sér í baráttu Caruana og Mamedyarovs um sigurinn.

Hvað samsetningu keppendalista mótsins varðar er það að segja að manni finnst að Vachier-Lagrave og Nakamura ættu að vera þarna. Það er eins og Rússarnir nái alltaf að fjölmenna eftir einhverju regluverki sem virðist henta þeim vel. Þó hafa þeir fyrir löngu glatað forystuhlutverki sínu í skákheiminum. Fjölmargar skemmtilegar skákir hafa séð dagsins ljós en stórbrotinn sigur Kramniks yfir Aronjan ber af öðrum:

Áskorendamótið í Berlín 2018; 2. umferð:

Levon Aronjan – Vladimir Kramnik

Spænskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 Rf6 4. d3 Bc5 5. Bxc6 dxc6 6. 0-0 De7 7. h3 Hg8!

G6N12K92P„Þetta er bara eins og Benóný sé að tefla,“ sagði Jón L. Árnason um þennan frumlega hróksleik. Svartur er þess albúinn að ráðast fram með g-peðið eins og Benóný gerði oft í spænska leiknum.

8. Kh1 Rh5 9. c3 g5 10. Rxe5 g4!

 

 

 

G6N12K92LAnnar bráðsnjall leikur sem byggist á hugmyndinni 12. hxg4 Dh4+ 13. Kg1 Rg3! og mátar á h1.

11. d4 Bd6 12. g3 Bxe5 13. dxe5 Dxe5 14. Dd4 De7 15. h4 c5 16. Dc4 Be6 17. Db5 c6 18. Da4 f5!

Herjar á hvítu reitina, 19. exf5 má svara með 19…. Rxg3+! t.d. 20. fxg3 Bd5+ 21. Kg1 De2 og mátar.

19. Bg5 Hxg5!

Vitaskuld kýs hann hraðann og frumkvæðið.

20. hxg5 f4! 21. Dd1 Hd8 22. Dc1 fxg3 23. Ra3 Hd3 24. Hd1

Reynir að spyrna við fótum en slagkrafturinn í næsta leik Kramniks er mikill.

G5N12K92C24…. Bd5! 25. f3 gxf3 26. exd5 De2!

Leyfir leppun drottningarinnar. Hugmyndin skýrist strax í næsta leik.

27. He1 g2+!

Glæsilegur lokahnykkur. Nú er 28. Kh2 (28. Kg1 strandar á 28…. f2+) svarað með 28…. g1(D)+! 29. Kxg1 f2+ og vinnur. Aronjan gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 24. mars 2018

- Auglýsing -