Það skýrist í dag hverjir verða Íslandsmeistarar í þremur flokkum. Baráttan um sjálfa “Íslandsmeistaratitilinn” vekur óneitanlega mesta athygli en hart er einnig barist um Íslandsmeistaratitil kvenna, sem tvær geta unnið, og Unglingameistaratitil í flokki 22 ára og yngri. Þar hafa fimm skákmenn möguleika á sigri.

Íslandsmeistaratitilinn sjálfur

Íslandsmótið hefur farið fram síðan 1913. Þar berjast tveir skákmenn um titilinn. Helgi Áss Grétarsson er í kjörstöðu til að verða Íslandsmeistari í fyrsta sinn. Hann hefur 8 vinninga – vinningi meira en Þröstur Þórhallsson sem varð Íslandsmeistari árið 2012. Aðrir hafa ekki möguleika.

Möguleikar Helga er miklu meiri. Honum dugar jafntefli eða sigur á Héðni Steingrímssyni til að tryggja sér titilinn. Ef hann tapar þá þugar það einnig að Þröstur vinni ekki Sigurbjörn Björnsson.

Fari það svo að Helgi Áss tapi og Þröstur vinni tefla þeir hraðskákeinvígi um titilinn kl. 19.

Íslandsmeistaratilinn kvenna

Þar stendur einnig baráttan á milli tveggja. Lenka Ptácníková (2230) er efst 5½ vinning.  Guðlaug Þorsteinsdóttir (1983) hefur 5 vinninga.

Lenka teflir við Gauta Pál Jónsson (2045) en Guðlaug við Stefán Bergsson (2186).

Lenka stendur óneitanlegur betur að vígi. Sigur dugar henni alltaf. Jafntefli gæti dugað og tryggir úrslitaeinvígi hið minnsta. Tap gæti hins vegar þýtt að Guðlaug gæti orðið Íslandsmeistari án einvígis vinni hún Stefán. Tapi báðar verður Lenka Íslandsmeistari.

Unglingameistaratitilinn (u22)

Fimm ungir skákmenn hafa möguleika á að hreppa þann titill. Þar er ekki teflt til þrautar verði menn jafnir heldur mun stigaútreikingur gilda.

Vignir Vatnar Stefánsson (2284) er efstur með 6 vinninga. Hans býður hins vegar það erfiða verkefni að tefla við Hannes Hlífar Stefánsson (2541).

Gauti Páll, Aron Þór Mai (2033) og Benedikt Briem (1624) hafa 5½ vinning. Þeir mæta hins vegar allir töluvert stigahærri andstæðingum.

Gauti teflir við Lenku, Aron við Justin Sarkar (2297) og Benedikt mætir Baldri Kristinssyni (2219). Sigur hjá þeim gæti dugað til þess að verða efstir einir en jafntefli gæti þýtt að unglingameistaratitilinn ráðist á stigaútreikningum ef Vignir tapar.

Alexander Oliver Mai (1958) hefur veika von en hann hefur 5 vinninga. Hann þarf sigur á Jóhanni Ragnarssyni (2002) og treysta á hagstæð úrslit hjá hinum.

Skák.is mun hafa púlsinn á baráttunni í dag og birta um leið fréttir og hlutir skýrast í baráttunni um Íslandsmeistaratitlana þrjá.

Allar skákirnar nema tvær verða sýndar beint á vefsíðu mótsins.

- Auglýsing -