Íslandsmótið Skákmótið fer fram í hátíðarsal Vals að Hlíðarenda. — Morgunblaðið/Valli

Þröstur Þórhallsson, Hannes Hlífar Stefánsson og Helgi Áss Grétarsson voru allir með 5 vinninga af sex mögulegum eftir sjöttu umferð Opna Íslandsmótsins sem stendur yfir þessa dagana í Valsheimilinu á Hlíðarenda. Að þessir þrír berjist um Íslandsmeistaratitilinn kemur ekki á óvart en forysta þeirra er naum; Jóhann Ingvason, Lenka Ptacnikova og Vignir Vatnar Stefánsson eru öll með 4½ vinning. Svo koma sex skákmenn með fjóra vinninga, en keppendur eru 51 talsins.

Mótið er helgað minningu Hermanns Gunnarssonar og vel við hæfi að það fari fram við góðar aðstæður í hátíðarsal Vals að Hlíðarenda. Þar hefur verið komið upp vegg með blaðaúrklippum og öðru efni frá nokkrum þeirra frábæru skákviðburða sem Hermann starfaði við.

Talsvert hefur verið um óvænt úrslit. Þannig vann Jóhann Ingvason Braga Þorfinnsson í 5. umferð og Birkir Ísak Jóhannsson vann Jón Viktor Gunnarsson strax í fyrstu umferð. Heimasíða mótsins er http://icelandicopenchess.com.

Telja má fullvíst að möguleikar Héðins Steingrímssonar til að verða Íslandsmeistari í fjórða sinn séu úr sögunni eftir tap hans fyrir Vigni Vatnari Stefánssyni í 6. umferð. Þessi ósigur stigahæsta keppendans opnar á þann möguleika að nýtt met verði slegið hvað varðar yngsta Íslandsmeistara sögunnar. Héðinn var 15 ára þegar hann vann frækinn sigur á Íslandsmótinu á Höfn í Hornafirði haustið 1990. Vignir sem varð 15 ára í febrúar myndi með sigri bæta met Héðins um nokkra mánuði. Afrek Héðins er merkilegt því að hann varð Íslandsmeistari í fyrstu tilraun en til samanburðar má geta þess Hannes Hlífar, sem tefldi fyrst á þinginu árið 1986, varð fyrst Íslandsmeistari í 12 tilraun árið 1998 og hefur orðið Íslandsmeistari oftar en nokkur annar eða 12 sinnum. Þröstur Þórhallsson tefldi meira og minna sleitulaust í landsliðsflokki frá árinu 1985 eða þar til hann varð Íslandsmeistari árið 2012.

Helgi Áss Grétarsson tefldi fyrst kornungur í landsliðsflokki árið 1991, hefur nokkrum sinnum verið nálægt sigri en á eftir að bæta hinum eftirsóknarverða titli í safnið rétt eins og Bragi Þorfinnsson.

Í skák Héðins og Vignir sem hér fer á eftir tefldi Vignir Leningrad-afbrigði hollensku varnarinnar ónákvæmt virtist sigur blasa við Héðni en ónákvæmni í 25 leik var dýrkeypt:

Héðinn Steingrímsson – Vignir Vatnar Stefánsson

Hollensk vörn

1. d4 f5 2. g3 Rf6 3. Bg2 g6 4. Rf3 Bg7 5. c4 0-0 6. 0-0 d6 7. Rc3 c6 8. b3 Ra6 9. Hb1 He8 10. d5 e5 11. dxe6 Bxe6 12. Rg5 Rc5 13. Dc2 h6?

Ónákvæmni sem Héðinn notfærir sér þegar í stað.

14. b4! hxg5

Skárra var 14…. Rcd7.

15. bxc5 Bxc4 16. Hxb7 d5 17. Bxg5 Dc8 18. Hfb1 Rd7 19. Dd2?! Hb8? 20. Hxb8 Rxb8

21. Rxd5! Bxd5 22. Bxd5 cxd5 23. Dxd5+ Kh7 24. Hb7 Hf8 25. Be7??


Eftir vel útfærða byrjun – ef frá er talinn 19. leikurinn – gat Héðinn unnið með 25. Bf4!, t.d. 25…. Dc6 26. Db3 Ra6 27. Be5 Hg8 28. Df7 Rxc5 29. Hb4! o.frv.

25…. Rc6! 26. Hd7 Hf7 27. Hd6 Hxe7 28. Hxc6 Db7 29. Dd6 Db1+ 30. Kg2 De4+ 31. f3?

Tapleikurinn. Eftir 31. Kg1 er ekki víst að svartur eigi meira en jafntefli.

31…. Dxe2+ 32. Kh3 Df1+ 33. Kh4 Dc4+ 34. f4 Df7 35. Ha6 He2 36. Kh3 g5! 37. g4 He3+ 38. Kg2 Db7+!

– og hvítur gafst upp.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 7. júní 2018.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -