Klapp á kollinn Pólverjar unnu Bandaríkjamenn í níundu umferð og komust einir í efsta sætið. Nýja stjarnan Duda t.v. fær klapp frá liðstjóranum Bartosz Socko eftir að hafa gert jafntefli við Caruana í 118 leikjum. — Morgunblaðið/Chess.com

Kínverjar slógu tvær flugur í ein höggi í lokaumferð Ólympíuskákmótsins sem lauk í Batumi í Georgíu í gær. Sigurinn í opna flokknum, þ.e. karlaflokknum, kom nokkuð á óvart því að lengi virtust Bandaríkjamenn ætla að endurtaka afrekið frá því í Bakú fyrir tveim árum. Þeir stilltu upp sömu sveit og þá með Caruana, So, Nakamura, Shankland og Robson innanborðs, héldu forystu svo til allt mótið eða þar til þeir töpuðu óvænt fyrir Pólverjum í níundu umferð. Náðu þó forystunni aftur en í lokaumferðinni mættu þeir Kínverjum og jafntefli á öllum borðum varð niðurstaðan. Báðar þjóðirnar voru þá með 18 stig eins og Rússar sem unnu í síðustu umferð, en Kínverjarnir voru með bestu stigatöluna og hrepptu gullið, Bandaríkjamenn fengu silfur og Rússar brons.

Kínverska liðið var skipað Liren Ding, Yangyi Yu, Yi Wei, Xiangzi Bu og Li Chao. Allir þessir skákmenn hafa teflt á Íslandi við ýmis tækifæri. Að smásmugulegur stigaútreikningur ráði úrslitum á hverju Ólympíumótinu á fætur öðru afhjúpar auðvitað hvílíkur galli er á keppnisfyrirkomulaginu og mætti t.d. útkljá þessi mót með aukakeppni milli efstu þjóða með atskákarfyrirkomulagi. Rússar tefldu hvorki við Bandaríkjamenn né Kínverja.

Í kvennaflokknum unnu kínversku stúlkurnar einnig á stigum en Úkraína kom í næsta sæti. Báðar þjóðirnar hlutu 18 stig. Georgía hlaut bronsið og í framhjáhlaupi má geta þess að heimamenn fengu einnig mikið hrós fyrir frábærlega vel skipulagt Ólympíumót.

Íslenska sveitin hefði með sigri yfir Svartfjallalandi í síðustu umferð getað náð þokkalegu sæti en slagkraftinn vantaði í hagstæðari stöðum hjá Hannesi Hlífari og Guðmundi Kjartanssyni, sem átti rakinn vinning á einum stað. Tap 1½ : 2½ og 12 stig eins og í Bakú en þó slakari frammistaða, 68. sæti af 184 þátttökuþjóðum. Íslenska kvennasveitin varð í 63. sæti af 150 þátttökuþjóðum.

Úttekt á frammistöðu liðanna bíður betri tíma en Jóhann Hjartarson tefldi einna best en hafði sjö sinnum svart í tíu skákum. Eftir sigurinn í skák gegn Kosovo í 10. umferð var hann kallaður í ítarlega rannsókn í sérstökum skanna, því að leikir hans voru þeir sömu og ofurtölvur eftirlitsaðila mótsins höfðu valið. Afar strangt eftirlit var á mótstað, símar vitanlega bannaðir, einng pennar og gömul fermingarúr:

OL Batumi 2018; 10. umferð:

Jóhann Hjartarson – Murtez Ondozi

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 e6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 a6 5. Bd3 Rf6 6. O-O Dc7 7. De2 d6 8. f4 Rbd7 9. c4 Be7 10. Rc3 O-O 11. Kh1 b6 12. Bd2 Bb7

Jóhann, sem hafði undirbúið sig vel fyrir þessa skák, taldi þennan leik ónákvæman því að biskupinn missir vald á e6-peðinu.

13. f5 e5 14. Rb3 Rc5 15. Rxc5 dxc5 16. Rd5 Rxd5 17. cxd5 Dd6 18. a4! Hfc8 19. Bc4 Hc7 20. Ha3!

Sækir á kónginum með beinum hætti.

20. … Kf8 21. Dh5 h6

22. f6!

Gegnumbrot sem mylur niður varnir svarts.

22. …Bxf6 23. Bxh6! Ke8

23. .. gxh6 dugar skammt vegna 24. Dxh6+ og 25. Haf3.

24. Haf3 g6 25. Dh3 Bd8 26. Bg7 f5 27. Dh8+ Kd7 28. Bxe5

Nú er eftirleikurinn auðveldur.

28. … Be7 29. Dg7 Hg8 30. Dxg8 Dxe5 31. exf5 gxf5 32. Hxf5 De4 33. H5f4 De5 34. Dg4+ Kd8 35. He4 Dh8 36. De6 Hd7 37. Dxb6+ Kc8 38. Bxa6 Bxa6 39. Dxa6 Db8 40. Hxe7!

– og loks gafst svartur upp, 40. … Kxe7 er svarað með 41. Dd6+ Hc7 42. Hf8+.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 6. október 2018.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -