MP í þungum þönkum. Mynd: Maria Emilivova fyrir Skák.is

Tvö íslensk taflfélög, Íslandsmeistarar Víkingaklúbbsins og Taflfélag Reykjavíkur, tóku þátt í Evrópukeppni taflfélaga sem lauk í Porto Carras í Grikklandi á fimmtudaginn. Víkingaklúbburinn, sem stillti upp sterkri sveit á Íslandsmóti skákfélaga, lét sér nægja að senda hálfgert b-lið til keppni að þessu sinni með þá Björn Þorfinnsson og Davíð Kjartansson í fremstu víglínu og síðan fjóra mun stigalægri skákmenn. Árangurinn var eftir væntingum; liðinu var fyrir fram raðað í 47. sæti af 61 þátttökuliði og endaði í 44. sæti með 6 stig og 20½ vinning.

Taflfélag Reykjavíkur þurfti ekki að gera miklar breytingar á sínu liði frá Íslandsmótinu. Í borðaröð tefldi TR fram Guðmundi Kjartanssyni, Braga Þorfinnssyni, Úkraínumanninum Oleksandr Sulypa, Margeiri Péturssyni, Arnari Gunnarssyni og Omar Salama. Sveitin varð í 25. sæti en var fyrir fram raðað í það nítjánda.

Svo fór að lokum að Pétursborgarliðið Mednyi Vsadnik vann sigur með 12 stig og 30½ vinning en þar í sveit var þó fyrstaborðsmaðurinn Peter Svidler alveg úti á túni og tapaði fyrstu fjórum skákum sínum.

Keppnin hefur undanfarin ár dregið til sín marga af sterkustu skákmönnum heims og nú mætti heimsmeistarinn Magnús Carlsen til leiks fyrir norsku sveitina Vålerenga Sjakklubb, kvartaði að vísu undan hita í skáksal og mætti til leiks í stuttbuxum, sem gengur gegn reglum FIDE um klæðaburð. Enginn hreyfði þó andmælum. Taflmennskan var furðu litlaus og hann tók hálfpartinn „Petrosjan í stöðunni,“ vann eina skák og gerði sex jafntefli. 9. nóvember hefst í London einvígi hans um heimsmeistaratitilinn við Bandaríkjamanninn Fabiano Caruana. Samkvæmt „lifandi stigum“ er munurinn á þeim vart marktækur, Magnús er með 2.835 Elo-stig og Caruana með 2.832.

Af íslensku skákmönnunum í báðum sveitunum náði Margeir Pétursson bestum árangri, hlaut 4½ vinning af sjö mögulegum. Hann var að venju seigur í vörn og fléttaði skemmtilega í eftirfarandi stöðu:

EM taflfélaga 20178; 2. umferð:

– Sjá stöðumynd –

Margeir – Ilja Mutschnik

Svartur er skiptamun yfir og f7-peðið virðist vera að falla. En nú kom …

31. Dh6+! Kxf7

Vitaskuld ekki 31. … Kxh6 32. f8(D)+ og hrókurinn fellur eftir 33. Df7+ eða 33. Dg8+.

32. g5! Bxe4 33. Bxe4!?

Þessi leikur kemur úr reynslubankanum og gefur í reynd betri praktíska vinningsmöguleika ef andstæðingurinn er í tímahraki! Hinn möguleikinn, 33. Bh5+, kom vissulega til greina en eftir 33. … Kg8 34. gxf6 Dc7 35. f7+ Dxf7 36. Bxf7 Kxf7 ættu varnir svarts að halda.

33. … De1?

33. … fxg5 heldur jafntefli en nú vinnur hvítur.

34. g6+! Ke7 35. Dh7+ Kd8 36. g7 He8 37. g8(D) Hxg8 38. Dxg8+ Ke7 39. Dg7+

– og svartur lagði niður vopnin.

Fífldjarfasti peðsleikur Evrópumótsins kom svo fyrir í skák Guðmundar Kjartanssonar í lokaumferðinni:

EM 2018; 7. umferð:

Guðmundur – Romain Eduard

16. g4??!

Er þessi leikur, sem stríðir gegn ýmsum lögmálum skáklistarinnar, birtist á skjánum tættu „vélarnar“ hann í sig. Svartur skuggi lagðist yfir stöðu hvíts á „Chessbomb“ en þar ræður „Stockfish“ ríkjum. Það hlálega var að nokkru síðar var Guðmundur kominn með unnið tafl, missti það að vísu niður í tapað tafl aftur, en að lokum endaði skákin með jafntefli. Mögnuð viðureign.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 20. október 2018.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -