Caruana og Carlsen við upphaf áttundu skákarinnar.

Ég er sennilega einn margra Íslendinga sem fagna sigri Magnúsar Carlsen í einvíginu við Fabiano Caruana sem lauk í London á miðvikudaginn. Þegar öllu er á botninn hvolft eru Norðmenn frændur okkar og við teljum okkur eiga dálitið í Magnúsi eftir að hann kom hingað 13 ára gamall og tefldi við Karpov og Kasarov á NASA við Austurvöll á Reykjavik rapid-mótinu 2004. Hann er verðugur heimsmeistari og góð fyrirmynd ungra manna, sem sést best á því að hann undirbjó sig oft með því að leika knattspyrnu meðan á einvíginu stóð og skartaði glóðarauga þegar hann mætti til að tefla einn daginn. Knattspyrna og skák eiga margt sameiginlegt og ég er t.d. ekki frá því að varnaraðferð íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sæki margt til „broddgaltar-stöðutýpu“ sem kemur upp úr Enska leiknum, Sikileyjarvörn og skyldum byrjunum.

Heimsmeistaraeinvígið í skák er stórviðburður á alþjóða mælikvarða, en talið er að 1,5 milljarðar manns hafi fylgst með einvígi Magnúsar við Karjakin fyrir tveim árum og þá aðallega í gegnum netmiðla en tölur um áhorf nú liggja ekki fyrir. 100% jafnteflisprósenta í kappskákunum er auðvitað einsdæmi í sögu heimsmeistaraeinvígja og er ákveðið áhyggjuefni og margir vilja fleiri skákir, heimsmeistaraeinvígin á árunum 1951-72 gerðu ráð fyrir 24 skákum. Anand orðaði það svo að þegar hann tefldi við Boris Gelfand um titilinn fyrir sex árum hefði hann verið alltof meðvitaður um hvað minnstu mistök í svo stuttu einvígi gætu reynst dýrkeypt og þess vegna hefði taflmennska hans verið allt of varfærnisleg.

Einvígið í London hefði að öllum líkindum þróast á annan veg ef Magnús hefði getað klárað dæmið í fyrstu einvígisskákinni en þar átti hann rakinn vinning oftar en einu sinni. Þegar líða tók á baráttuna virtist Caruana heldur líklegri til að ná forystunni og hann átti unnið tafl í sjöttu skákinni. En vinningsleiðin sem „vélarnar“ bentu á er fjarstæðukennd:

6. skák:

Magnús Carlsen – Fabiano Caruana

Vinningsleiðin er 68….Bh4! 69. Bd5 Re2 70. Bf3 Rg1! og nú getur hvítur lokað „hring“ riddarans með 71. Bg4 en samt vinnur svartur með 71….Kg8! 72. h6 Bg5 því að hvítur er í sérkennilegri leikþröng. En eins og Kasparov „tísti“ réttilega hefði Caruana örugglega verið skipað að fara í málmleitartækið sem var til taks hefði hann dottið niður á þessa vinningsleið.

Sennilega sýnir þetta dæmi vel hversu erfitt er að leggja Magnús Carlsen að velli.

Við verðlaunaafhendinguna í London afhenti nýr forseti FIDE, Arkadí Dvorkovitsj, heimsmeistaranum verðlaun. Það er ekki ósennilegt að gerðar verði breytingar á fyrirkomulagi heimsmeistarakeppninnar á næstunni og þegar eru komnar vangaveltur um það úr ýmsum áttum. En mikilvægasta breytingin ætti að vera sú að gera aðildarþjóðum FIDE kleift að taka þátt í þessari keppni á svipaðan hátt og áður var með svæðamótum, millisvæðamótum og áskorendakeppni. Garrí Kasparov var því miður helsti talsmaður þessi að Elo-stigin ætti að nota sem einhvers konar aðgöngumiða að undakeppni um titilinn enda varð lendingin sú að þessum mótum var síðan holað niður í einhverjum af fyrrverandi lýðveldum Sovétríkjanna, til dæmis í Khanty-Mansiysk í Síberíu.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 1. desember 2018

Skákþættir Morgunblaðsins.

 

- Auglýsing -