Hópurinn sem fór til Hasselbacken.

Tólf iðkendur úr Skákdeild Breiðabliks tóku þátt í Hasselbacken skákmótinu í Stokkhólmi dagana 2.-4.nóvember.

Áður hafa komið fréttir af mótinu svo í þessari grein ætla ég að fjalla um tilurð ferðarinnar og hvernig taflfélög og skákmenn á Íslandi geta lyft sér upp og kryddað skáktilveruna með því að fara á mót eins og þetta.

Upphafið var hugmynd frá Kjartani Briem sem hann kom með sl. vor. Hann hafði farið ásamt fjölskyldu sinni á Hasselbacken mótið árið áður og líkað vel. Við athugun kom það í ljós að ferð á þetta mót var alls ekkert dýr, sérstaklega ef flugmiðar yrðu keyptir með góðum fyrirvara. Samtals kostnaður (flugfar, gisting og þátttökugjald) á iðkanda yrði 35-40 þús.kr. Um svipað leiti fékk Skákdeildin viðurkenningu og styrk frá Rótarýklúbb Kópavogs fyrir uppbyggilegt ungmennastarf með því að gefa börnum í Kópavogi tækifæri til að kynnast- og þroskast í skáklistinni.  Það var því ljóst að deildin hefði alveg bolmagn til að styrkja iðkendur sína til fararinnar.  Áhugi hjá iðkendum var mikill og að lokum höfðu 12 iðkendur ákveðið að fara.

Kostnaðurinn endaði í 432 þús. kr. eða rúmar 36 þús. kr. per iðkanda. Styrkir voru veittir frá Skáksambandi Íslands, Skákstyrktarsjóði Kópavogs og Samráðsvettvangi íþróttafélaganna í Kópavogi. Og þegar upp var staðið dekkuðu þessir styrktaraðilar allan kostnað við ferðina.

Svona ferð hefur mikil og góð áhrif á iðkendur. Þeir hafa eitthvað til að stefna að og gera því æfingar markvissari. Það er mjög skemmtilegt að fara svona ferð saman og félagsskapurinn styrkist.

Ég hvet önnur félög til að skoða möguleikann á að skella sér á svona helgarmót í Svíþjóð. Þetta á bæði við um yngri iðkendur og líka þá sem eldri og reyndari eru. Allir eiga að geta fengið verkefni við hæfi. Fjölnir hefur verið að fara til Vesteras í lok september og ef flugför eru pöntuð tímanlega þá eru þetta ódýr skákferðalög.

Eftirfarandi listi er yfir mót í sænsku mótaröðinni 2018-19:

Cellavision Chess Cup, Lund 3.-5.ágúst

Västerås Open 28.-30.september
Hasselbacken Chess Open, Stockholm 2.-4.nóvember
Malmö Open 14.-16.desember
Elite Hotels Open, Växjö 8.-10.febrúar
Påskturneringen, Norrköping 19.-22.apríl
Kvibergspelen, Göteborg 10.-12.mai
Deltalift Open, Tylösand 30.mai – 1.júní

Að lokum þakkar Skákdeild Breiðabliks öllum styrktaraðilum kærlega fyrir stuðninginn!

Halldór  Grétar Einarsson.

- Auglýsing -