Skákfélagið Huginn heldur naumri forystu eftir sjöttu umferð Íslandsmóts skákfélaga en einni hluti keppninnar hófst á fimmtudagskvöldið og þá vann Huginn óvænt nauman sigur, 4 ½ : 3 ½, á skákdeild KR. Á sama tíma tapaði Fjölnir, 3 ½ : 4 ½, fyrir Víkingaklúbbnum og þessi þrjú lið berjast því um sigurinn í mótinu.

Sjöunda umferð fór fram í gærkvöldi en þá tefldu saman Víkingklúbburinn og Huginn og Fjölnismenn glímdu við a-sveit Taflfélags Reykjavíkur, en staða efstu liða fyrir þessar viðureignir var:

1. Huginn 35 v. 2. Skákdeild Fjölnis 34 ½ v. 3. Víkingaklúbburinn 33 v. 4. TR a-sveit 30 ½ v. 5. Breiðablik, Bolungarvík og Reykjanes 26 ½ v. 6. Taflfélag Garðabæjar 26 v. 7. Skákfélag Akureyrar 17 ½ v. 8. TR b-sveit 15 v. 9. Huginn b- sveit 13 v. 10. Skákdeild KR 9 v.

Keppni í öðrum deildum hófst einnig í gærkvöldi.

Hjörvar sigraði á skákhátíð MótX með fullu húsi

Í síðustu viku fór fram lokaumferð hinnar frábæru Skákhátíðar MótX í Stúkunni á Kópavogsvelli. Jón Þorvaldsson hefur undanfarin ár haft veg og vanda af þessu móti og fengið til keppni nær alla bestu skákmenn þjóðarinnar. Viggó Hilmarsson, einn eigenda MótX, á heldur ekki lítinn þátt í því að vel hefur tekist til með mótshaldið.

Hjörvar Steinn Grétarsson vann allar skákir sínar, sex talsins, en tók eina ½ vinnings yfirsetu og hlaut því 6 ½ vinning af sjö mögulegum. Hægt er að sanna að Hjörvar hafi verið farsæll í a.m.k. fjórum skákum sínum en til að sigra verða menn að nýta færin.

Bragi Þorfinnsson varð í 2. sæti með 5 ½ vinning og í 3.-5. komu Guðmundur Kjartansson, Jón L. Árnason og Jóhann Hjartarson með 4 ½ vinning.

Í b-flokki urðu efstir Gauti Páll Jónsson og Páll Andrason með 5 ½ vinning en Gauti Páll telst sigurvegari vegna betri stigatölu.

Í síðustu umferð mætti Hjörvar Guðmundi sem gat náð honum með sigri. „Vélarnar“ benda á að tvisvar hafi Guðmundur getað fengið upp vinningsstöðu en leiðirnar eru ekki einfaldar:

Skákhátíð MótX; 7. umferð:

Guðmundur Kjartansson – Hjörvar Steinn Grétarsson

Katalónsk byrjun

1. Rf3 Rf6 2. c4 e6 3. g3 a6

Athyglisverð leið sem Kortsnoj beitti oft með góðum árangri.

4. Bg2 b5 5. b3 Bb7 6. O-O c5 7. Rc3 Db6 8. e3 d5 9. cxd5 exd5 10. Bb2 Be7 11. Rh4 O-O 12. Rf5 He8 13. Rxe7 Hxe7 14. b4! cxb4 15. Re2 Rbd7 16. Hc1 Hee8 17. Rd4 g6 18. f4 Re4 19. Dg4 Rdc5

20. De2?!

Láttu leikinn ganga upp! Guðmundur hefur áreiðanlega velt því fyrir sér að leika 20. f5! sem vinnur, t.d. 20. … Rxd2 21. Rc6! t.d. 21. … Rce4 22. fxg6 Dxe3+ 23. Kh1 hxg6 24. Hxf7! Kxf7 25. Dd7+ og mátar. Annar möguleiki er 20. … Rd3 21. fxg6 Dxg6 22. Rf5! og svartur ræður ekki við sókn svarts því að 22. … Dxg4 er svarað með 23. Rh6+ og 24. Hxf7 mát.

20. … Hac8 21. f5 Hc7?

Nauðsynlegt var 21. … Rd7.

22. fxg6 hxg6 23. Bxe4?

Og hér gat hvítur unnið með 23. Rf5! með hugmyndinni 23. … gxf5 24. Dh5! o.s.frv. Nú snýst taflið við.

23. … Rxe4 24. Hxc7 Dxc7 25. Hf4 Bc8 26. Hh4 f6 27. a3 bxa3 28. Bxa3 Da5 29. Bb2 b4 30. d3 Rg5 31. Rc6 Dc5 32. Bxf6 Hxe3 33. Hh8 Kf7 34. Df2

Hvítur hefur misst öll tök á stöðunni og nú gerir Hjörvar út um taflið með einfaldri fléttu.

34. … Rh3+! 35. Hxh3 He1+ 36. Kg2 Bxh3+

– og hvítur gafst upp.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 16. febrúar 2019.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -