Um 250 skákmenn eru þegar skráðir til leiks á 34. Reykjavíkurskákmótinu sem hefst í Hörpu 8. apríl nk. Eins og undanfarin ár er GAMMA helsti styrktaraðili mótsins og keppendalistinn er góð blanda af skákmönnum á öllum aldri. Margir koma á mótið ár eftir ár, t.d. indverska skákdrottningin Tania Sadchev en stigahæsti keppandinn skráður er Gawain Jones. Hannes Hlífar Stefánsson er eini íslenski stórmeistarinn sem hefur skráð sig til leiks en fastlega má búast við að því fleiri bætist við enda líta margir á það sem skyldu virkustu stórmeistara okkar að þeir taki þátt í þessum stærsta skákviðburði Íslendinga.Reykjavíkurskákmótið er opið öllum en til samanburðar má geta þess að stóru opnu mótin á Mön, á Gíbraltar og Aeroflot-mótið í Moskvu, svo dæmi séu tekin, eru öll haldin með flokkaskiptingu. Á Mön komast menn í efsta flokk ef þeir hafa 2100 elo-stig og meira en stífari reglur gilda um Aeroflot-mótið þar sem keppnisréttur í A-flokki hefur stundum verið miðaður við 2550 elo.

Skiptar skoðanir hafa verið um þetta atriði en rökin með flokkaskiptingu varða sókn efnilegra skákmanna að alþjóðlegum titiláföngum; við mikinn stigamun lækka meðalstigin hratt og möguleikarnir á áfanga feykjast með golunni og gegnumtrekknum út á Faxaflóa.

En það er gaman að fylgjast með kynslóðunum tefla í glæsilegum salarkynnum Hörpunnar og mörg óvænt úrslit hafa þar litið dagsins ljós. Einu frægasta dæminu var slegið upp í vefútgáfu breska blaðsins The Guardian:

Reykjavíkurskákmótið 2017; 1. umferð:

Martin Wecker – Ármann Pétursson

Slavnesk vörn

Fyrstu níu leikir féllu þannig:

1. Rf3 d5 2. c4 c6 3. e3 Rf6 4. Rc3 Bg4 5. Db3 b6 6. Re5 d4 7. Re2 dxe3 8. dxe3 e6 9. h3 Bh5

Um þessa leiki er það helst að segja að þeir eru sumir dálítið skrítnir en staðan á borðinu telst þó í ákveðnu jafnvægi. Á Þjóðverjanum Wecker og okkar manni Ármanni var meira en 900 elo-stiga, 2134 elo gegn 1227 elo og þegar Ármann hörfaði spakur með biskupinn til h5 svaraði sá þýski á dálítið yfirlætislegan hátt með…

10. Rf4

Kannski vanmat hann andstæðing sinn en það er höfuðsynd. Ármann er fyrst og fremst áhugamaður í skák en tónlistin alltaf í 1. sæti og 14 ára lék hann einleik á selló með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann sat svipbrigðalaus við borðið góða stund. Á sama tíma spruttu kaldar svitaperlur fram á enni Martin Wecker sem hafði uppgötvað mistök sín. Mínúturnar tifuðu áfram en svo hófst svarti biskupinn á loft …

10. … Bb4+!

 

 

 

 

 

 

Við þessu er ekkert að gera. Hvítur er óverjandi mát.

11. Dxb4 Dd1 mát.

Jón Kristinn Skákmeistari Norðlendinga

Það gekk ekki þrautalaust að koma á Skákþingi Norðlendinga og voru veðurguðirnir í stóru hlutverki. Föstudagurinn 22. mars var felldur niður sem keppnisdagur og fyrirkomulagi mótsins breytt þannig að tefldar voru átta umferðir eftir svissneska kerfinu og tímamörk 25 10.Vignir Vatnar Stefánsson sigraði, hlaut 7 ½ vinning, í 2. sæti varð Birkir Örn Bárðarson með 7 vinninga og þriðji varð Jón Kristinn Þorgeirsson með 6 ½ v. Hann hlaut nafnbótina Skákmeistari Norðlendinga.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 30. mars 2019.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -