Fjölmargir íslenskir skákmenn höfðu náð góðum úrslitum í fyrstu þremur umferðum Reykjavíkurskákmótsins sem hófst í Hörpu á mánudaginn. Má þar nefna sigur hins 15 ára gamla Stephans Briem í 1. umferð yfir bandaríska stórmeistaranum Andrew Tang og sigur Braga Þorfinnssonar á Indverjanum Abhijeet Gupta, sem vann Reykjavíkurskákmótið 2016. Eftir þriðju umferð voru fimm skákmenn með fullt hús vinninga og þekktastir þeirra Armenarnir Movsesian og Hovhannisjan, 26 skákmenn voru með 2½ vinning, þ.ám. Hannes Hlífar Stefánsson, Bragi Þorfinnsson, Sigurbjörn Björnsson, Tinna Kristín Finnbogadóttir og Pétur Pálmi Harðarson.

Röðunarkerfið í fyrstu fimm umferðunum virkar þannig að þeir sem liggja á svipuðu stigabili tefla saman. Mótshaldarinn vill með þessum hætti koma til móts við það sjónarmið að erfitt sé að sækja titiláfanga þegar mikill stigamunur er á keppendum.

Um nánari úrslit er hægt að benda á skak.is og góða heimasíðu mótsins.

Sigurbjörn Björnsson hefur teflt nokkrar af skemmtilegustu skákum mótsins. Hann átti unnið tafl gegn Brasilíumanninum Fier í 2. umferð, samdi of snemma en sýndi klærnar í 3. umferð, sem fram fór samdægurs, en þá tefldi hann við Djukic frá Svartfjallalandi. Sá valdi hið hvassa drekaafbrigði Sikileyjarvarnar – kínversku leiðina, en kom ekki að tómum kofunum því að Sigurbjörn Björnsson hafði teflt þetta áður á Gestamóti Goðans í Stúkunni á Kópavogsvelli fyrir nokkrum árum. Skákir þess móts voru ekki birtar opinberlega en það liggur fyrir að Sigurbjörn lagði út í þá baráttu með „nýja“ vitneskju um helstu galla „Kínverska drekans“. Hann tekur óhikað slaginn í vinsælum byrjunum og heldur vonandi áfram á sömu braut:

Sigurbjörn Björnsson – Nikola Djukic

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 g6 6. Be3 Bg7 7. f3 0-0 8. Bc4 Rc6 9. Dd2 Bd7 10. 0-0-0 Hb8

Upphafsleikur „Kínverska drekans“. Algengara er 10…. Hc8.

11. Bb3 Ra5 12. h4 b5 13. h5 Rc4 14. De1!?

Ekkert er nýtt undir sólinni, svipuð hugmynd sást í skák Fischers við Gligoric fyrir 60 árum! Hvítur heldur í b3-biskupinn, sem á svo sannarlega eftir að koma við sögu.

14…. Rxe3 15. Dxe3 b4

Hann má vara sig á 15…. a5 vegna 16. h6! Bh8 17. e5 dxe5 18. Rc6 o.s.frv.

16. Rce2 Da5?!

Krítíski leikurinn er 16…. e5 sem hvítur verður að svara með 17. Rf5 gxf5 18. h6 með miklum flækjum.

17. g4 Dc5 18. Kb1 Hfc8 19. hxg6 hxg6 20. Rf4 Dg5?

Ekki góður reitur fyrir drottninguna. Hann varð að leika 20…. e6.

21. Rf5! gxf5 22. gxf5 Rg4

Reynir að loka g-línunni en árásin kemur úr annarri átt.

23. Bxf7+! Kxf7 24. Db3+ Kf8 25. Rg6+ Dxg6 26. fxg6 Re5 27. De3 Be8 28. Hh7 Bxg6

Reynir að berjast með þrjá létta fyrir drottningu en Sigurbjörn gefur engin grið.

 

29. Hxg7! Kxg7 30. f4 Rc4 31. Dd4+ e5 32. Dxa7+ Kf8 33. Hh1 Bf7 34. Hh7 Rd2+ 35. Kc1

– og svartur gafst upp.

Fjórða umferð hófst í gær kl. 17. en þá tefldi Bragi Þorfinnsson við Norðmanninn Johan-Sebastian Christiansen, Hannes Hlífar við Frakkann Alashtar Aasef, Jóhann Hjartarson við Vigni Vatnar Stefánsson og Sigurbjörn Björnsson við Vladimir Potkin. Helstu úrslit lágu ekki fyrir þegar blaðið fór í prentun. GAMMA er stærsti styrktaraðili Reykjavíkurskákmótsins.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 11, apríl 2019.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -