Íslandsmeistarar Anna Jóhanna Guðmundsdóttir, frá styrktaraðilanum GA smíðajárni, afhenti Hannesi Hlífari og Lenku Ptacnikovu verðlaunin. — Morgunblaðið/Sigurður Arnarson

Hannes Hlífar Stefánsson er skákmeistari Íslands 2019 eftir spennandi lokaumferð opna Íslandsmótsins sem fram fór við góðar aðstæður í menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Er síðasta umferð rann upp var Hannes hálfum vinningi á eftir Héðni Steingrímssyni og jafn Guðmundi Kjartanssyni og Jóni Viktori Gunnarssyni. Hannes vann Jón Viktor í lokaumferðinni en á sama tíma tapaði Héðinn fyrir Tiger Hillarp Persson og Guðmundur fyrir Ivan Sokolov. Erlendu skákmennirnir réðu því miklu um úrslit mótsins en afrek Hannesar er magnað. Hann varð Íslandsmeistari í þrettánda sinn.

Eftir mótið stendur samt eftir spurningin hvort verið sé að gjaldfella Íslandsmeistaratitilinn með þessu keppnisfyrirkomulagi. Hannes tefldi ekki við Héðin og einungis við þrjá íslenska skákmenn með yfir 2.300 Elo-stig og hlaut 1½ vinning úr þeim skákum. Héðinn tefldi við tvo íslenska skákmenn með meira en 2.300 Elo-stig. Til samanburðar má geta þess að Guðmundur Gíslason, sem varð í 7. sæti, hlaut 3½ vinning úr fimm skákum gegn stórmeisturum; vann Héðin, Helga Ás og Þröst Þórhallsson.

Efstu menn urðu: 1. Ivan Sokolov 7½ v. (af 9) 2.-3. Hannes Hlífar Stefánsson og Tiger Hillarp Persson 7 v. 4.-6. Bragi Þorfinnsson, Héðinn Steingrímsson og Justin Sarkar 6½ v. 7.-9. Guðmundur Gíslason, Guðmundur Kjartansson og Jón Viktor Gunnarsson 6 v.

Lenka Ptacnikova hlaut flesta vinninga kvenna en hún fékk 5 vinninga og er því Íslandsmeistari kvenna 2019.

Opna Íslandsmótið var hápunkturinn á afmælisári Skákfélags Akureyrar og eiga formaður félagsins, Áskell Örn Kárason, og félagar hans í SA heiður skilinn fyrir þétta dagskrá allt afmælisárið.

Hannes Hlífar tefldi við Jón Viktor í lokaumferðinni og voru þeir þá jafnir að vinningum:

Opna Íslandsmótið; 9. umferð:

Hannes Hlífar Stefánsson – Jón Viktor Gunnarsson

Móttekið drottningarbragð

1. d4 d5 2. c4 dxc4 3. Rf3 Rf6 4. e3 e6 5. Bxc4 c5 6. 0-0 Rc6 7. a3 cxd4 8. exd4 Be7 9. Rc3 0-0 10. He1 Rd5 11. Dd3 Rxc3

Traustari leið er 11…. Bf6 ásamt Rce7.

12. bxc3 b6 13. h4!

Byggist á hugmyndinni 13…. Bxh4?? 14. De4! og vinnur mann.

13…. Bb7 14. Rg5 Bxg5 15. Bxg5 Dd6 16. Ba2 Kh8 17. Had1 Hae8?

Leikið án áætlunar en það er erfitt að finna mótspil.

18. h5 h6 19. Bh4 Ra5 20. c4 f5 21. Bg3 Dd8 22. d5 exd5 23. cxd5 Dd7 24. He6!

Svartur þolir ekki uppskipti á e6 og kóngsstaðan er í molum.

24…. Df7 25. Bd6 Hg8 26. De2 Bc8 27. He7 Ba6

Afleikur í tímaþröng en staðan var töpuð.

28. Dxa6 Hxe7 29. Bxe7 Dxe7 30. d6 Dd7 31. Bxg8 Kxg8 32. De2 Rb7 33. Dc4+

– og svartur gafst upp.

Breytingar á Íslandsmóti skákfélaga

Stjórn SÍ ákvað að halda aðalfund sinn samhliða Íslandsmótinu, sem þýddi að mun færri sóttu fundinn en venjulega. Ein niðurstaðan var samþykkt ellefu fulltrúa á lagabreytingu varðandi Íslandsmót skákfélaga í þá veru að tímabilið 2020-21 yrði tekin upp sex liða úrvalsdeild. Upphaflega hugmyndin var sú að útiloka b-lið frá keppninni, en á fundinum voru auðvitað samþykktar breytingartillögur þess efnis að b-lið yrðu leyfð, og að keppendur í hverju liði væru sex talsins, sem mun þýða að 36 skákmenn sitja að tafli í efstu deild í stað 80 áður. Allt þetta klastur er ekki líklegt til að bæta Íslandsmót skákfélaga.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 8. júní 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -