Sigurreifur Magnús Carlsen hefur unnið öll þau mót sem hann hefur tekið þátt í á þessu ári. — Ljósmynd/Heimasíða Altib

Eftir að frami Magnúsar Carlsen á skáksviðinu varð jafn mikill og raun ber vitni olli það löndum hans talsverðum áhyggjum hve illa honum gekk að vinna mót þegar hann tefldi í Noregi. En á því varð breyting á Norska mótinu 2016 og aftur 2017.

Á dögunum lauk 2019-útgáfunni af „Norska mótinu“ en það var haldið í Stafangri. Það var hugbúnaðarfyrirtækið Altibox sem var aðalkostandi þess. Fyrirkomulagið hjá þeim norsku hefur alltaf verið fremur óvenjulegt og í ár var tekið upp glænýtt kerfi. Tíu af fremstu skákmönnum heims tefldu allir við alla hefðbundnar kappskákir en þó með heldur minni tíma en venja er, 2 klst. á 40 leiki án aukatíma og þegar 40 leikja markinu var náð varð að klára skákina á þeim litla tíma sem eftir var – en þó með 10 sekúndna viðbót eftir hvern leik. Ég veit ekki til þess að þessi tímamörk hafi verið notuð áður, en stærsta breytingin var sú, að ef skák lauk með jafntefli voru hrein úrslit fengin með því að tefld var svokölluð Armageddon-skák. Stjórnanda svarta liðsaflans dugði jafntefli til að teljast sigurvegari en sá sem hafði hvítt í kappskákinni fékk sama lit aftur og 10 mínútur á klukkuna – svartur fékk aðeins 7 mínútur. Fyrirkomulagið hentaði Magnúsi vel; hann var sigurvegari í sex Armageddon-skákum og vann því mótið með allnokkrum yfirburðum. Gefin voru 2 stig fyrir sigur í kappskák, jafntefli í kappskákunum gaf vissulega hálfan vinning, en einn punktur bættist við eftir Armageddon-skákina. Lokaniðurstaðan varð þessi:

1. Magnús Carlsen 13½ (af 18) 2.-3. Aronjan og Yu Yangyi 10½ v. 4.-5. Caruana og So 10 v. 6. Ding Liren 8½ v. 7.-8. Anand og Vachier Lagrave 8 v. 9.-10. Mamedyarov og Grischuk 5½ v.

Kínverjinn Yu Yangyi er öflugur skákmaður og viðureign hans við Magnús hlaut að verða athyglisverð:

Altibox – Norska skákmótið 2019; 8. umferð:

Magnús Carlsen – Yu Yangyi

Slavnesk vörn

1. d4 d5 2. c4 c6 3. Rf3 Rf6 4. Rc3 dxc4 5. e4 b5 6. Be2

Kasparov tefldi svona fyrir u.þ.b. 40 árum og réðst strax til atlögu með 6. e5 Rd5 7. a4 en svartur á að geta varist.

6. … b4 7. e5 bxc3 8. exf6 exf6?!

Svartur gat hæglega leikið 8. … cxb2 sem gefur betri möguleika. Nú fær hvítur þægilega stöðu.

9. bxc3 Bd6 10. O-O O-O 11. Rd2 He8 12. He1 Rd7 13. Rxc4 Bc7 14. Bf3 Ba6 15. Re3 Rb6 16. Ba3!

Vitaskuld ekki 16. Bxc6?? Dd6! og vinnur.

16. … Rc4 17. Dd3!?

Skemmtilega leikið þó að 17. Bxc6 hafi einnig komið til greina.

17. … Hxe3 18. Hxe3 Rxe3 19. Dxa6 Rc2 20. Hd1 Rxa3 21. Dxa3 Dd6 22. Dxd6 Bxd6 23. c4!

Lærdómsríkt augnablik. Hvítur gat hirt c6-peðið en eftir 23. Bxc6 Hc8 24. d5 er ekki nægjanleg teygja í peðastöðunni.

23. … Hc8 24. c5 Be7 25. Kf1 f5 26. Ke2 g5 27. h3 Kg7 28. Kd3 Kg6 29. Hb1 h5 30. Hb7 Bf6 31. Hd7 g4 32. Bd1 Kg5 33. Ba4 f4 34. f3 He8 35. fxg4 hxg4 36. hxg4 He6

37. Bd1!

Eitt það erfiðasta í skák er að leika vel staðsettum manni aftur upp í borð. En með þessu valdar biskupinn g4-peðið og getur hreiðrað um sig á f3.

37. … He3+ 38. Kc4 a5 39. Bf3 Ha3 40. Bxc6 Hxa2 41. Be4 a4 42. c6 Ha1 43. c7 a3 44. Kb3

– og svartur gafst upp. Ein leið er 44. … Hc1 45. Hd5+ og 46. Hc5 og c-peðið verður að drottningu.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 22. júní 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -