Nafnarnir Benedikt Þórisson og Benedikt Briem mættust í sjöttu umferð og lauk skákinni með sigri þess síðarnefnda. — Morgunblaðið/Ingvar Þ. Jóhannesson

Vignir Vatnar Stefánsson missti af tækifæri til að blanda sér í baráttuna um sigurinn í aldursflokki 16 ára og yngri á EM ungmenna sem lýkur í Bratislava í Slóvakíu í dag. Hann byggði upp góða stöðu í viðureign sinni við Úkraínumannin Malovanyi en missti þráðinn í flóknu miðtafli og mátti játa sig sigraðan. Fyrir viðureignina fundust litlar upplýsingar um þennan ágæta fulltrúa Úkraínu en A-Evrópuþjóðirnar leggja talsvert upp úr því að halda frá öðrum keppendum upplýsingum um sína menn en geta jafnframt gengið að því visu að geta skoðað skákir helstu andstæðinga frá V-Evrópuþjóðunum, sem eru skráðar í helstu gagnabanka t.d. Chessbase.

Vignir Vatnar var með 4½ vinning af 6 mögulegum þegar skákin fór fram, aðeins ½ vinningi á eftir efstu mönnum. Líklegt er að verðandi sigurvegari hljóti a.m.k. 7 vinninga úr umferðunum níu en Vignir getur náð góðu sæti með sigri í tveim síðustu skákum sínum. Hann hefur undanfarin ár staðið fyrir bestu frammistöðu íslenskra keppenda á Evrópumótunum.

Alls eiga Íslendingar 14 fulltrúa í Bratislava en teflt er í sex aldursflokkum pilta og stúlkna. Átta hafa náð að bæta ætlaðan árangur sinn og sumir veruelga.

Hilmir Freyr Heimisson, sem er 18 ára, byrjaði illa er hann tapaði tveim fyrstu skákum sínum með unnið tafl, vann síðan þrjár næstu en getur ekki barist um verðlaunasæti eftir tap í 7. umferð. Stephan Briem hefur einnig átt góða spretti en í 12 umferð fékk hann þessa stöðu upp gegn einum stigahæsta keppendanum:

EM ungmenna 2019

Stephan Briem – Horvath (Austurríki)

Austurríkismaður hafði alla þræði í getur unnið 33. Be6 ásamt – Bd5. En hann sá enn þá „fallegri vinningsleið“

33. Dxe3?? 34. fxe3 d2

Stephan lék 35. Kf2 og eftir 35. d1(D) 36. Dc3 De2+ gafst hann upp. Hann var í tímapressu og peðsleikurinn 35. b5!sem hótar 36. Db4+ vinnur. Eftir 35. d1(D)+ 36. Dxd1 Bxd1 37. b6! getur svartur gefist upp því að hvíta b-peðið rennur upp í borð.

Ekki lagði Stephan árar í bát þrátt fyrir þetta því hann vann næstu tvær skákir af miklu harðfylgi.

Yngri bróðir hans Benedikt Briem hefur unnið þrjár skákir í röð eftir skrykkjótta byrjun og er með 4 vinninga af sjö mögulegum í flokki pilta 14 ára og yngri.

Stúlkurnar Batel Goitom og Guðrún Fanney Briem hafa sýnt góða takta. Sú fyrrnefnda hefur verið þaulsetnust allra við borðið og skákir hennar hafa nokkrum sinnum staðið í meira en 5 klukkustundir.

Mótið sem dregur til sín mörg af bestu ungmennu Evrópu og er geysilega mikilvæg reynsla fyrir íslensku krakkana. Auk þeirra sem nefnd hafa verið tefla í Bratislava bræðurnir Benedikt og Bjartur Þórissynir, Jósep og Adam Omarssynir, Tómas Möller, Arnar Milutin Heiðarsson, Birkir Jóhannsson og Gunnar Erik Guðmundsson.

Það er víðar en í Bratislava sem Íslendingar sitja að tafli. Í Riga eru þeir Helgi Áss Grétarsson, Guðmundur Kjartansson, Stefán Bergsson og Gauti Páll Jónsson meðal þátttakenda á móti sem tækniháskólinn í borginni stendur fyrir. Þeim gengur ekki alveg nógu vel að kljást við stigahæstu andstæðingana en Helgi Áss og Guðmundur eru þó báðir með 4 vinninga af sex mögulegum en Stefán og Gauti Páll með 2½ vinning. Tefldar verða níu umferðir á sjö dögum.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 10. ágúst 2019.

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -