Íslenska landsliðið í skák varð að sætta sig við naumt tap gegn sterkri sveit Serba í 2. umferð á EM landsliða.

Dagur Ragnarsson var fyrstur að klára sína skák en hann tefldi langa teoríu í franskri vörn en lenti samt í erfiðri vörn þar sem andstæðingurinn hafði bestu leiðina á hreinu. Dagur tefldi vörnina mjög vel og var sterkur á taugum og tók jafntefli í fraumraun sinni með íslenska landsliðinu, vel gert hjá honum!

Bragi Þorfinnsson stýrði hvítu mönnunum gegn Milan Zajic og missti þráðinn í miðtaflinu og skiptamunsfórn Braga gaf ekki góða raun og Serbinn hafði sigur þrátt fyrir langa baráttu.

Hannes fékk mjög góða stöðu í sinni skák en Indjic varðist gríðarlega vel og tók svo yfir frumkvæðið og Hannes þurfti að verjast í langan tíma. Líklegast var jafnteflið í augsýn alveg undir lokin en þess í stað lenti Hannes í leikþröng í endataflinu og Serbarnir tryggðu sér sigurinn.

Mikill og glæsilegur sigur Guðmundar Kjartanssonar með svörtu mönnunum gaf því lítið í aðra hönd en Guðmundur lagði serbneska stórmeistarinn Nikola Sedlak að velli í afar spennandi skák þar sem Guðmundur sá lengra í endataflinu.

Anstæðingur þriðju umferðar liggur fyrir en í henni mætum við sveit Belga.

- Auglýsing -