Gunnar Björnsson, forseti SÍ, t.h., við setningu EM-landsliða í Batumi. — Morgunblaðið/Heimasíða EM

slenska sveitin sem teflir í opnum flokki EM landsliða í Batumi í Georgíu tapaði stórt fyrir Frökkum í fyrstu umferð á fimmtudaginn, ½:3½. Sveitin er skipuð Hannesi Hlífari Steánssyni, Guðmundi Kjartanssyni, Braga Þorfinnssyni, Helga Áss Grétarssyni og Degi Ragnarssyni sem er nýliði en hann hvíldi í þesssari umferð. Liðsstjóri er Ingvar Þ. Jóhannesson.

Bragi Þorfinnsson gerði jafntefli en hinir töpuðu. Íslenska sveitin reiknast í 33. sæti af 40 liðum. Franska sveitin er að meðaltali 94 elo-stigum hærri en sú íslenska en taflmennska okkar manna var frekar slök þó ekki ástæða sé til að draga of miklar ályktanir af slæmu tapi í upphafi. Það hefur gerst áður á þessum vettvangi og samt hefur góður árangur náðst. Andstæðingar okkar í 2. umferð í gær voru Serbar.

Evrópumótið er að venju vel skipað en samt vantar þarna nokkra góða menn. Norðmenn, sem eru án Magnúsar Carlsen, töpuðu ½:3½ fyrir Armenum. Armenar virðast alltaf vera sterkastir þegar þeir koma saman sem lið og 2. borðs maður þeirra, Sargissian, á þar magnaðan feril.

Rússar eru með besta liðið á pappírunum en þeir máttu sætta sig við jafntefli gegn Dönum, 2:2. Sune Berg Hansen og Jesper Thybo, sem tefldu báðir á Íslandsmóti skákfélaga á dögunum, unnu sínar skákir. Skák Dana á 4. borði var hins vegar fljót að klárast. Einn efnilegasti skákmaður þeirra reyndi að sneiða hjá hinu þekkta bragði Franks Marshall en án árangurs:

EM landsliða 2019; 1. umferð:

Jonas Bjerre – Daniil Dubov

Spænskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 a6 4. Ba4 Rf6 5. 0-0 Be7 6. He1 b5 7. Bb3 0-0 8. a4 d5?! 9. exd5

8. a4 var beint gegn d5-leiknum og því kannski rökréttara að leika 9. axb5. Svartur leikur þá væntanlega 9…. dxe4 10. dxc6 exf3 11. Dxf3 og nú 11…. e4 eða 11…. Bc5.

9…. Ra5! 10. Rxe5?!

Var ekki öruggara að draga biskupinn til a2?

10…. Rxb3 11. cxb3 Bb7 12. Rc6 Bxc6 13. dxc6 Bc5 14. d3

Gott var einnig 14. d4 en þetta er í lagi.

– Sjá stöðumynd –

14…. Bxf2+!?

Svartur tekur sáralitla áhættu með þessari fórn ef marka útreikninga „vélanna“. Hann gat einnig leikið 14…. Dd4.

15. Kxf2 Dd4+ 16. Be3?

Eftir 16. Kf3 gæti skákin endað í jafntefli eftir 16…. Hae8 17. Rc3 Dg4+ 18. Kf2 Dd4+ 19. Kf3 (19. Kf1 strandar á 19…. Rg4 og svartur vinnur) Dg4+ o.s.frv.

16…. Rg4+ 17. Kf3 Rxe3 18. Hxe3 Hae8 19. He2

Kannski batt hann vonir sínar við þennan leik.

19…. Df6+ 20. Kg3 g5!

Afgerandi.

21. Hf2 Dd6+ 22. Kh3 Dh6+ 23. Kg4 Dh4+

– og hvítur gafst upp.

Wang Hue og Caruana efstir á Mön

Wang Hue frá Kína og Bandaríkjamaðurinn Fabiano Caruana urðu efstir á opna mótinu á Mön sem lauk í vikunni. Þeir hlutu báðir átta vinninga af 11 mögulegum en Wang Hue var úrskurðaður sigurvegari á stigum og fær auk þess keppnisrétt í áskorendamótinu 2020. Frammistaða hans kom nokkuð á óvart en sigur hans í næstsíðustu umferð yfir Viswanathan Anand í aðeins 28 leikjum með svörtu lyfti honum í þetta sæti. Hann vann svo Englendinginn David Howell í síðustu umferð. Magnús Carlsen varð í 3.-8. sæti með 7½ vinning. Hann gat náð efstu mönnum með sigri í síðustu umferð en komst ekkert áfram gegn Levon Aronjan og varð að sætta sig við jafntefli. Hann hefur nú teflt 101 skák án þess að tapa.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 26. október 2019

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -