Teflt til sigurs Íslenska liðið f.v. Vignir Vatnar Stefánsson, Stephan Briem, Alexander Oliver Mai og Batel Goitom unnu Tailendinga 2½ : 1½. — Morgunblaðið/Heimasíða

Íslenska liðið sem tók þátt í Ólympíumóti 16 ára og yngri í Corum í Tyrklandi fékkst við eitt mest krefjandi verkefni sem hægt er að hugsa sér í þessum aldursflokki. Eins og getið var um í síðasta pistli var íslenska liðið hið eina frá Norðurlöndunum og V-Evrópuþjóðirnar sátu heima ef undan er skilin portúgalska sveitin. Alls voru þátttökuþjóðirnar 48 talsins og niðurstaðan varð sú að Aserbaídsjan sigraði með 16 stig, Úsbekistan varð í 2. sæti með 15 stig og Hvít-Rússar fengu bronsið með 14 stig.

Þó að íslenska liðið hafi fallið niður í 31. sæti með tapi í lokaumferðinni var árangurinn vel ásættanlegur þegar horft er til þess að fjórir liðsmenn bættu ætlaðan árangur sinn. Bestum árangri náði Vignir Vatnar Stefánsson, sem hlaut 6 vinninga af 9 mögulegum og var traustur á 1. borði. Næstur kom Stephan Briem með 5½ vinning af 9 á 2. borði. Batel Goitom skilaði góðum árangri, en í hverri sveit var a.m.k. ein stúlka. Hún vann tvo mun stigahærri andstæðinga og hækkaði um samtals 54 Elo-stig. Benedikt Briem hækkaði einnig lítillega en Alexander OIiver Mai var seinheppinn en mér sýndist litlu muna að hann næði að landa mun fleiri vinningum. Í 7. umferð unnu Íslendingar góðan 3½ : ½ sigur á öflugri stúlknasveit Tyrklands. Þá var þessi skák tefld:

Filipa Piparas – Batel Goitom

Kóngsindversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 g6 3. Rc3 Bg7 4. e4 d6 5. Be2 O-O 6. Be3 e5 7. d5 Ra6 8. g4 Rc5 9. f3 h5 10. g5 Rh7 11. h4 f6 12. gxf6 Bxf6 13. Bf2 a5 14. Kd2?!

Skrítinn leikur. Hægt var að koma kónginum í skjól með því að leika 14. Dd2 og hrókera síðan langt.

14. … c6 15. Kc2 a4 16. De1 Bg7 17. Rh3 Bd7 18. Dg1 Df6 19. Hd1 Hfd8 20. Be3 a3 21. b3 Ra6 22. Rg5 Rb4 23. Kb1 Hdc8 24. Rxh7

Hvíta staðan er betri því að leiðir til gegnumbrots á drottningarvæng eru ekki greiðar. Hér var 24. c5! mun sterkara og svarta staðan er erfið.

24. … Kxh7 25. Bg5 Df8 26. De3 c5 27. Hdg1 Bf6 28. Hg3 De7 29. Hhg1 Hg8 30. Df2 Haf8 31. Dg2 Df7!

Svartur hefur náð að verja g6-veikleikann og á betri möguleika því að eftir uppskipti á g5 situr hvítur eftir með hinn lélega biskup á e2.

32. Dh1 Bxg5 33. Hxg5 Df4 34. Hd1 De3 35. De1 Df4 36. Df2? Bg4! 37. Rb5

Reynir að ná mótspili en það er of seint.

37. … Dxe4+! 38. fxe4 Hxf2 39. Bxg4 Hb2+ 40. Kc1

– og gafst upp um leið því að næsti leikur svarts er 40. … Rxa2 mát.

Rússar Evrópumeistarar

Rússar unnu langþráðan sigur í Evrópukeppni landsliða sem lauk í Batumi í Georgíu um síðustu helgi. Þeir unnu Pólverja í síðustu unferð en Úkraínumenn sem voru jafnir Rússum urðu að gera sér jafntefli að góðu gegn Króötum, hlutu 14 stig og silfrið. Englendingar hrepptu bronsið.

Íslenska liðið vann Kósóvó 3:1 í síðustu umferð og hafnaði 21. sæti af 40 liðum. Frammistaðan er lakari en oftast áður og einungis Guðmundur Kjartansson náði að bæta ætlaðan árangur sinn. Liðsstjórinn Ingvar Þ. Jóhannesson fór þá leið að gefa efnilegum skákmanni, Degi Ragnarssyni, tækifæri til að spreyta sig. Var það góð ákvörðun. Á umræðuvettvangi skákmanna hefur verið gagnrýnt að Hjörvar Steinn Grétarsson var ekki valinn þó að hann hafi gefið kost á sér í liðið. Þrír aðrir skákmenn með yfir 2.500 Elo-stig sátu líka heima að þessu sinni.

Skákþættir Helga Ólafssonar í Morgunblaðinu birtast viku síðar á Skák.is. Þessi skákþáttur birtist 9. nóvember

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -