Glaðir keppendur ásamt þjálfara sínum í mótslok. Lenku vantar á myndina.

Alþjóðlega mótinu í Prag lauk í gær. Sjö fulltrúar kvennalandsliðsins tóku þátt og stóðu sig vel. Guðlaug Þorsteinsdóttir (1958) og Hrund Hauksdóttir (1835) unnu í lokaumferðinni. Sá síðarnefnda í ótefldri skák. Lenka Ptácníková (2076), Jóhanna Björg Jóhansdóttir (1929) og Sigríður Björg Helgadóttir (1659) gerðu jafntefli. Aðrar skákir töpuðust.

Lenka að tafli í lokaumferðinni.

Lenka hlaut 5 vinninga, Guðlaug og Jóhanna Björg hlutu 4½ vinninga, Lisseth og Hrund fengu 4 vinninga, Tinna Kristín 3½ vinning, Sigríður Björg 3 vinninga.

Mikil einbeiting hjá Jóhönnu í lokaumferðinni.

Fjórar af sjö hækka á stigum: Guðlaug (+36) Lenka og Sigríður Björg (+23) og Jóhanna (+4). Þrjár lækka: Liss (-15), Tinna (-21) Hrund (-31).

Sigríður Björg stóð sig vel á mótinu.

Helgi Ólafsson var þjálfari hópsins í Tékklandi en mótið var hluti af undirbúningi stelpnana fyrir ólympíuskákmótið sem fram fer í Moskvu í ágúst. Áskell Örn Kárason er landsliðsþjálfari kvenna og verður liðsstjóri liðsins í Moskvu. Flestar stelpnana taka þátt í Skákhátíð MótX og/eða Skákþingi Reykjavíkur. Næst á dagskrá er Íslandsmót kvenna sem fram fer 27. febrúar – 3. mars nk. í Garðabæ. Fjöldi stelpna tekur þátt í stelpunámskeiðum. Það er líf yfir kvennaskákinni á Íslandi!

Liss tefldi undir íslenska flagginu í fyrsta skipti!

Adam (1241) og Jósef Omarssynir (1097), synir Lenku og Omars Salama tóku þátt í b-flokki.

Jósef að tafli. Mamma fylgist með.

Adam stóð sig frábærlega og hlaut 5½ vinning í 9 skákum eftir afar flottan endasprett. Hann hækkar um 176 skákstig! Jósef stóð sig líka afar vel, fékk 3 vinninga, og hækkar um 84 skákstig. Afar flott frammistaða hjá þeim bræðrum sem eru greinilega á mikilli siglingu.

Sjá nánar á Chess-Results.

- Auglýsing -