Góður árangur Margeir Pétursson náði árangri sem reiknast upp á 2570 Elo-stig, þeim besta meðal 1. borðsmanna. — Mynd/Heimasíða

Heimsmeistaramót öldungasveita í Prag, sem lauk snögglega á fimmtudaginn tveim umferðum á undan áætlun, er dæmi um viðburð sem hefði átt að blása af áður en hann hófst. Þetta liggur í augum uppi ef horft er á aldurssamsetningu mótsins en keppt var í tveim flokkum, 50 ára og eldri og 65 ára og eldri og stór hluti keppenda er sérlega viðkvæmur anspænis þeirri heilsuvá sem gengur nú yfir heimsbyggðina. En það er eins og FIDE hafi ákveðið að spila rússneska rúllettu með líf og limi keppenda, sem voru í kringum 400 talsins. Eftir sjöttu umferð af níu barst loks tilskipan tékkneskra yfirvalda um að keppninni skyldi hætt vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Það var þó ákveðið að sjöunda umferð færi fram og að staðan eftir hana skyldi standa sem lokaúrslit. Samt geta úrslit vart talist marktæk þegar keppnisskilmálar breytast skyndilega og nokkrar sveitir drógu sig út úr keppni.

Íslenska liðið sem tefldi í Prag og var í borðaröð skipað Margeiri Péturssyni, Þresti Þórhallssyni, Björgvini Jónssyni, Guðmundi Gíslasyni og Ágústi Sindra Karlssyni hafði með góðri frammistöðu unnið sig upp í að tefla á efsta borði í sjöundu umferð. Samið var jafntefli á öllum borðum og var lengsta skákin sex leikir! Það var greinilega lítil stemning fyrir því að taka slaginn við bandarísku sveitina sem dugði jafntefli til að hreppa gullið og féllust menn á gamaldags „pakkasamning“. Íslenskur sigur hefði þýtt efsta sætið á mótinu en lokaniðurstaðan var samt góð, 4. sæti af 55 sveitum. Fyrirfram var sveitinni raðað í 6. sæti.

Margeir Pétursson náði góðum árangri á fyrsta borði, hlaut 4½ vinning af sex mögulegum. Þröstur Þórhallsson fékk silfurverðlaun fyrir frammistöðu sína á 2. borði, hlaut 5 vinninga af 7. Björgvin hlaut 4½ vinning af sex, Guðmundur Gíslason byrjaði illa en vann mikilvægan sigur í 5. umferð og hlaut 3 vinninga af sex og Ágúst Sindri hlaut 1½ vinning úr þremur skákum.

Á eftir bandarísku sigursveitinni kom þýski Lasker-skákklúbburinn og í þriðja sæti Tékkland.

Mótshaldið allt einkenndist af þrúgandi aðstæðum sem keppendur þurftu að búa við. En öll él birtir upp um síðir. Öldungamótin eru kjörinn vettvangur fyrir skákmenn á „viskualdrinum“ og þegar veiran skæða lætur í minni pokann munu vinsældir þessa skemmtilega móts aukast aftur. Að lokum kemur hér ein hressileg viðureign úr 1. umferð:

HM öldunga 50+ Prag 2020:

Þröstur Þórhallsson – Oldrich Kastner (Austurríki)

Frönsk vörn

1. e4 e6 2. d4 d5 3. Rc3 Rf6 4. Bg5 Bb4 5. exd5 Dxd5 6. Rf3 Re4 7. Bd2 Rxc3 8. bxc3 Be7 9. Bd3 Rd7 10. c4 Dh5 11. g4!

11. … Dxh5 12. Hg1

Eftir þetta finnur drottningin svarta engan griðastað.

12. … Dh5 13. Hxg7 Bf6 14. Hg3 b6 15. Be4 Hb8 16. Bc6!

Óþægileg leppun því að leiki svartur 16. … Bb7 kemur 17. Bxd7+ Kxd7 18. Re5+! og drottning á h5 fellur.

16. … h6 17. Hb1

Aftur er drottningin í vanda vegna hótunarinnar 18. Hb5.

17. … Df5 18. Hb5 Dh7 19. Hh5 Bg7 20. Rg5!

Þröstur hamast á drottningunni!

20. … Dg8 21. Re4 Df8

Drottningin var enn í bráðri hættu. Ein hótunin var 22. Rf6+.

22. d5 Kd8 23. Dg4 Hh7 24. dxe6 Re5 25. Dh4+ De7

26. Hxe5! Dxh4 27. Hd3+ Ke7 28. Bb4 mát.

Glæsilega teflt hjá Þresti.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 14. mars 2020

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -