Stund milli stríða Jóhanna Björg við taflið. Hún er ritari á gjörgæsludeild Landspítalans og blés til Arena-móts á netinu með landsliðshópi kvenna og nokkrum stúlkum af yngri kynslóðinni. — Morgunblaðið/Edda Sveinsdóttir

Degi eftir að fyrri hluta áskorendakeppninnar í Yekaterinburg lauk tók forseti FIDE, Arkady Dvorkovich, af skarið og tilkynnti að mótinu yrði frestað og að dagsetning framhaldsins yrði tilkynnt síðar. FIDE hafði fyrr í vikunni fylgt í fótspor skipuleggjanda Ólympíuleikanna í Tókýó og frestað Ólympíuskákmótinu fram á næsta ár en það átti hefjast í Rússlandi í ágúst nk. Lengi vel virtist forseti FIDE vera í einhverri afneitun með alvarleika útbreiðslu COVID-19 og í yfirlýsingu sl. fimmtudag vísaði hann fyrst og fremst til þess ófremdarástands sem væri í samgöngumálum í Rússlandi.

En aðstæður á keppnisstað voru alls ekki boðlegar og sá sem snemma náði forystunni, Ian Nepomniachtchi, gekk um sviðið hóstandi þurrum hósta og þó að hann hefði farið a.m.k. tvisvar í læknisskoðun þá lá einhvern veginn í loftinu að gripið yrði inn í atburðarásina. En í „hálfleik“ er staðan þessi:

1.- 2. Nepomniachtchi og Vachier-Lagrave 4 ½ v. (af 7) 3.-6. Giri, Grischuk, Caruana og Wang 3 ½ v. 7.-8. Liren Ding og Alekseenko 2½ v. Nepo var kominn með vinnings forskot eftir sjöttu umferð. En helsti keppinautur hans gaf engin grið:

Áskorendamótið í Yekaterinburg 2020; 7. umferð:

Vachier Lagrave – Ian Nepomniachtchi

Frönsk vörn

1. e4 e6 2. d4 d5 3. Rc3 Bb4 4. e5 c5 5. a3 Bxc3 6. bxc3 Re7 7. h4 Dc7 8. h5

Þessi peðaframrás hefur þann tilgang að veikja varnir svarts og þá einkum peðatöðuna á kóngsvæng.

8…. h6 9. Hb1 b6 10. Dg4 Hg8 11. Bb5 Kf8 12. Bd3 Ba6 13. dxc5 Bxd3 14. cxd3 Rd7 15. d4 bxc5 16. Dd1 Da5 17. Bd2 Hb8 18. Re2 c4 19. 0-0 Hb6 20. Dc2 Hh8 21. a4 Ke8 22. Hb4 Rc6

Reynir að hrekja hrókinn í burtu.

-Sjá stöðumynd-

23. f4!

En Vachier-Lagrave hirðir ekkert um hrókinn. Eftir 23…. Rxb4 24. cxb4 Da6 25. b5 Db7 26. f5 er hvíta sóknin of sterk.

23…. Re7 24. Hfb1 f5 25. Hb5 Da6 26. Bc1!

Lipurlega leikið. Biskupinn er á leið til a3.

26…. Kf7 27. Ba3 Hhb8 28. Bxe7 Kxe7 29. g4!

Nú kemur berlega í ljós hversu slæm peðastaðan svarts er á kóngsvæng. Ef 29…. fxg4 þá 30. Hxb6 Hxb6 31. Hf1 og svartur ræður ekki við hótunina 33. Dg6 eða 33. f5 eftir atvikum.

29…. Hxb5 30. axb5 Hxb5 31. gxf5 Hxb1 32. Dxb1 exf5 33. Rg3 Db6 34. Rxf5+ Kf8 35. Da1 De6 36. Rg3! Dg4 37. Kg2 Dxf4 38. Dxa7 Ke7 39. Da3 Kd8 40. Dd6!

Eins og Magnús Carlsen benti á í útsendingu Chess24.com þá getur svartur ekki losað sig út úr leppuninni, kóngsleik til e8 eða c8 er svarað með 41. De6+ eða 41. Dc6+ og síðan 42. Dxd5 o.s.frv.

40…. g5 41. hxg6 h5 42. g7

– og Nepo gafst upp.

Skákin blómstrar á netinu

Taflmennska á netinu er stunduð grimmt þessa dagana. Iðkendunum á vinsælasta vefnum Chess.com fjölgar um tugi þúsunda á degi hverjum. Fyrir skákáhugamenn hér á landi er ekki slæmt að geta gengið að aðstoð vísri hjá mönnum á borð við Tómas Veigar Sigurðarson, Halldór Grétar Einarsson og Ingvar Þ. Jóhannesson. Stjórnarmenn í Taflfélagi Reykjavíkur, Kristófer Gautason, formaður skákdeildar Blika, og ýmsir fleiri hafa verið duglegir við að skipuleggja stór skákmót. Á dögunum fékk Jóhanna Björg Jóhannsdóttir landsliðshóp kvenna og nokkrar yngri stúlkur til að taka þátt í svonefndu „Arena“-móti á Chess.com en það keppnisform nýtur mikilla vinsælda um þessar mundir.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 28. mars 2020

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -