Heiðursfélagi SÍ Gylfi Þórhallsson við taflið.

Skáksamfélagið á Íslandi missti góðan mann á dögunum þegar Gylfi Þórhallsson féll frá eftir langvarandi veikindi. Hann var 65 ára gamall.

Margir gamlir félagar Gylfa hafa minnst hans með miklum hlýhug undanfarið.

Hann var æði hugmyndaríkur skákmaður og öflugustu stórmeistarar máttu vara sig á honum. En hann lagði ekki fyrir sig taflmennsku á alþjóðavettvangi því að mestur tími hans fór í að sinna félagsmálum skákarinnar nyrðra, skákkennslu barna og unglinga og skipulagi móta og keppnisferða og var sálin í Skákfélagi Akureyrar áratugum saman, tefldi í fyrstu keppni Íslandsmóts skákfélaga haustið 1974 og missti varla úr skák eftir það. Þeir voru margir aðrir sem treystu stoðir þessa ágæta skákfélags en þáttur Gylfa er óumdeildur. Hann var gerður að heiðursfélaga Skáksambands Íslands fyrir nokkrum árum og var það vinsæl ákvörðun.

En hvernig skákmaður var hann?

Það er ekki alveg einfalt að lýsa skákstíl Gylfa. Hann minnti stundum á 19. aldar meistarana og það var engin deyfð né drungi yfir borðinu þegar hann sat að tafli. Flækjur voru í hávegum hafðar. Gamall vinur hans að norðan, Pálmi Pétursson, benti á stórskemmtilega baráttu Gylfa við bandarískan skákmann á opnu alþjóðlegu móti sem haldið var á Egilsstöðum sumarið 1987. Skákin var langt í frá gallalaus og lengi vel var Gylfi með tapað tafl en hann greip tækifærið þegar það gafst:

Max Zavanelli – Gylfi Þórhallsson

Vínartafl

1. e4 e5 2. Bc4 Rf6 3. d4

Tiltölulega sjaldséð afbrigði sem andstæðingur Gylfa virðist hafa kunnað mjög vel.

3. … exd4 4. Rf3 Bc5 5. e5 d5 6. exf6 dxc4 7. De2 Be6 8. fxg7 Hg8 9. Bg5 Dd5 10. Rc3!

Öflugur leikur sem setur svartan í mikinn vanda. Nú er 10. … dxc3 svarað með 11. Hd1!

10. … Df5 11. O-O-O Rc6 12. g4! Dg6 13. Rd5!

Hvítur hefur gert allt rétt og stendur til vinnings.

13. … d3!?

Reynir að loka línum.

14. Rxc7+ Kd7 15. Rxa8 Bd6! 16. cxd3 c3 17. d4 Bxg4

Svartur er enn heilum hrók undir og hvítur hefur nær alltaf hitt á besta leikinn. Nú er einfaldast að leika 18. Re5+ t.d. 18. .. Rxe5 19. dxe5 Bxe2 (eða 19. … Dxg5+ 20. De3! o.s.frv.) 19. Hxd6+ Dxd6 20. exd6 og hvítur á vinningsstöðu.

18. Db5 Kc8 19. Hd3 Rb4 20. Hxc3+ Kb8 21. He1 f6 22. Rc7 Rxa2+ 23. Kd2 Rxc3 24. He8+ Kxc7 25. Dc4+ Kb6 26. Db3+?

Fyrst nú stígur hvítur feilspor. Vinning var að hafa með 26. Dxg8, t.d. 26. … Rb5 27. He1 o.s.frv. )

26. … Rb5! 27. 27. Hxg8 Bxf3 28. Be3 Db1 29. d5+ Ka5

Furðuleg staða.

30. Bb6+

Hvítur er ekki af baki dottinn. Þetta er eina leiðin til að halda baráttunni áfram, 30. … axb6 strandar á 31. Ha8+ og mátar.

30. … Kxb6 31. He8 Bb4+?

Sterkara var 31. … Bf4+ 32. He3 Df1! o.s.frv.

32. Dxb4 Dd1+ 33. Ke3 De2+ 34. Kf4 Dxe8 35. Kxf3 Dh5+ 36. Dg4?

Hann gat varist betur með 36. Kg3. Nú getur svartur unnið með 36. … Rd4+ 37. Kg3 Rf5+ 38. Dxf5 Dxf5 39. g8(D) Dg6+ og peðsendataflið er auðunnið.

36. … Dxd5+ 37. Kg3 Dg8 38. Dd7 a6 39. De7 Rd4 40. Dd6+ Kb5 41. Dxf6

Skárra var 41. Dxd4 en andstæðingi Gylfa gast ekki að erfiðu drottningarendatafli peði undir.

41. … Dxg7+! 42. Dxg7 Rf5+ 43. Kf4 Rxg7 44. Kg5 Kc5 45. Kh6 Rf5 46. Kxh7 Kd5 47. Kg6 Ke5 48. Kg5 a5 49. Kg4 Ke4 50. Kg5 b5

– og hvítur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 18. apríl 2020. 

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -