Tveir góðir Jón L. Árnason og Hjörvar Steinn Grétarsson. Sá síðarnefndi sigraði á vel skipuðu Netskákmóti Íslands síðastliðinn miðvikudag. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson.

Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir þeim feikna mun sem hefur orðið á undirbúningi fyrir skákmenn nú til dags miðað við það sem áður var. Byrjun sem áður gat leitt af sér mikla baráttu og sigurvon er hægt að sundurgreina í tætlur þannig að eftir standa rústir einar. Og skákin sem hér fer á eftir er gott dæmi um þetta. Jón L. Árnason lagði enska stórmeistarann Michael Adams að velli á Ólympíumótinu í Manila á Filippseyjum árið 1992 og sú skoðun mín hefur lítið breyst að þetta hafi verið ein af bestu skákum Íslendings á Ólympíumóti. Þó að tölvuheilarnir tæti byrjunartaflmennskuna í sig er það nú einu sinni svo að baráttan á borðinu er viðureign tveggja persónuleika. Fyrir skákina hafði Jón af því nokkrar áhyggjur að liðsfélögum hans liði ekki alltof vel að sitja við hlið manns sem legði allt undir strax í 5. leik. Tillitsamur maður – en vogun vinnur, vogun tapar. Adams gat sótt að riddara Jóns, sem hlaut að falla. Í gamla daga þótti það góð og gild vara að gefa riddarann – en ekki lengur. En Adams valdi aðra leið og það gerðu fleiri mótherjar Jóns þetta árið. Íslendingar unnu sterkt lið Englendinga þennan dag, 3:1, og Jón átti stóran þátt í sigrinum. Hann hafði unnið John Nunn í keppni þessara liða á Ólympíumótinu í Novi Sad tveim árum áður og launaði Englendingum lambið gráa frá Ólympíumótinu í Dubai árið 1986:

Ólympíumótið í Manila 1992

Jón L. Árnason – Michael Adams

Vínartafl

1. e4 e5 2. Rc3 Rc6 3. f4

Þessi krókaleið að Kóngsbragði er kennd við Max Lange, sem var kunnur fyrir fleiri gambíta en þennan.

3. … exf4 4. Rf3 g5 5. d4 d6?!

Jón hafði vonast eftir þessum rökrétta leik og lumaði á skemmtilegu leikbragði. Best er 5. … g4! sem hrekur afbrigði Max Lange. Eftir 6. Bxc4 gxf3 7. O-O virðist hvítur hafa sterka sókn eftir f-línunni og gömlu meistararnir Steinitz og fleiri unnu margar skákir á þann hátt:

En svartur getur leikið 7. … Rxd4! með hugmyndinni 8. Dxd4 Dg5 9. Hf2 Bc5 og stendur þá til vinnings.

6. d5! Re5 7. Bb5+! Bd7 8. Bxd7 Rxd7 9. Dd4 f6 10. h4! g4 11. Rg5!

 

 

 

Allt hnitmiðaðir leikir. Svarta staðan er óteflandi.

11. … Rc5 12. Re6! Rxe6 13. dxe6 c6 14. Bxf4 Db6 15. Dd3!

Með hugmyndinni 15. … Dxb2 16. Hb1 og síðan – Hxb7.

15. … O-O-O 16. O-O-O h5 17. Dg3 Dc7 18. Hd3 De7 19. Hhd1 Dxe6 20. Bxd6 Bxd6 21. Hxd6 Hxd6 22. Hxd6 De7 23. Df4 Hh7 24. Re2 Hf7 25. Df5 Kc7 26. He6 Dd7 27. Df4 Kc8 28. Hd6 De7 29. Rg3

Það er athyglisvert að Jón gat leikið þessu í 25. leik – í sömu stöðu. Skemmtileg hringferð.

29. … De5 30. Dxe5 fxe5 31. He6 Kd7 32. Hxe5 Hf2 33. Rxh5 Hxg2 34. Hg5 Rh6 35. Hg7+ Ke8 36. Hg6 Rf7

37. Hxg4!

Þar fór síðasta von svarts. Riddaraendataflið sem kemur upp eftir 37. .. Hxg4 38. Rf6+ ásamt 39. Rxg4 er vonlaust.

37. … Hh2 38. Rg7 Ke7 39. Rf5+ Kf6 40. b3! a5 41. Hg8 Ke5 42. Hf8 Rd6 43. Rxd6 Kxd6 44. Hf4 b5 45. a3 Ke6 46. Hg4 Ke5 47. Hg6 Hxh4 48. Hxc6 Kd4 49. a4!

Þessi peðsleikur gerir útslagið. Ef nú 49. .. b4 þá 50. Hc4+ og síðan Hc5.

49. … bxa4 50. Hc4+ Ke3 51. Hxa4 Hh5 52. Kb2 Hg5 53. Hc4 Hh5 54. Ka3 He5 55. Ka4 Kd2 56. Hc8 Kc1 57. c4 Kb2 58. Hb8 Kc3 59. Hb5

– Svartur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 2. maí 2020. 

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -