Við setningu Stórveldaslagsins 1990. Fremsta í röðinni má þekkja f.v. Nigel Short sem tefldi á 1. borði fyrir Englendinga, Ólaf Ásgrímsson skákstjóra, Jóhann Hjartarson, aðalskákdómarann Arnold Eikrem, Einar S. Einarsson, forstjóra VISA, Ríkharð Sveinsson skákdómara, Þorstein Þorsteinsson skákdómara, Artur Jusupov sem tefldi á 1. borði fyrir Sovétmenn og Simen Agdestein sem tefldi á 1. borði úrvalsliðs Norðurlanda.

Í mars sl. voru 30 ár liðin frá því að skákhreyfingin, Taflfélag Reykjavíkur og Skáksamband Íslands fluttust í nýtt húsnæði í Faxafeni 12 í Reykjavík. Haft var á orði við opnunina að sennilega væri þarna kominn einn stærsti skákklúbbur í heimi í fermetrum talinn og viðburðirnir sem haldnir voru í tilefni þessarar opnunar voru ekki af verri endanum. Sá fyrri var Stórveldaslagur VISA international með þátttöku Sovétríkjanna, Bandaríkjanna, Englands og úrvalsliðs Norðurlanda. Strax á eftir hófst svo 14. Reykjavíkurskákmótið og var skipað flestum þeim sem tóku þátt í Stórveldaslagnum, þar af voru margir af fremstu skákmeisturum Sovétríkjanna.

Á meðan Einars S. Einarssonar naut við hjá VISA sáu menn þar á bæ ekkert því til fyrirstöðu að láta hluta fjármuna sem ráðstafa átti til kynningarmála renna til menningartengdra viðburða. Áður hafði fyrirtækið staðið fyrir keppni milli liðs Norðurlanda og Bandaríkjanna og síðar var á dagskrá mótaröð fyrir norræna skákmenn.

Kínverjar harðir í netskákinni

Það er enginn hörgull á skákviðburðum á netinu þó að ýmsa sé nú farið að lengja eftir skákkeppnum með hefðbundnu sniði. Sl. fimmtudag tilkynnti heimsmeistarinn Magnús Carlsen um fjögur mót til viðbótar í nýrri mótaröð sem ber nafn hans. Það næsta hefst þriðjudaginn 19. maí og lokamótið hefst 9. ágúst nk. Magnús vann fyrsta mótið sem fór fram í apríl.

En á dögunum lauk líka óopinberri heimsmeistarakeppni FIDE á netinu en 6 öflug lið tefldu tvöfalda umferð á fjórum borðum með tímamörkunum 25 10. Tvö þau efstu komust í sérstaka úrslitakeppni. Kínverjar höfðu talsverða yfirburði í undankeppninni og var sæti þeirra í úrslitakeppninni aldrei í hættu. Þeir hlutu 25 ½ vinning af 40 mögulegum en Bandaríkjamenn rétt mörðu 2. sæti með 22 vinninga. Þar á eftir kom lið Evrópu, þá Rússar og heimsliðið rak svo lestina.

Í úrslitakeppni Kínverja og Bandaríkjamanna gekk á ýmsu. Tefld var einföld umferð á fjórum borðum og lauk viðureigninni með jafntefli, 2:2. Þar sem Kínverjar höfðu unnið undankeppnina dugði þeim jafntefli til sigurs. Einn besti Kínverjinn nú um stundir, Yangyi Yu, hlaut 7½ vinning úr 10 skákum og tók hinn bráðsnjalla andstæðing sinn í karphúsið með eftirminnilegum hætti:

Liðakeppni FIDE á netinu, úrslit:

Yangyi Yu – Wesley So

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rc3 Bb4 4. Rf3 d5 5. Db3 c5 6. dxc5 Ra6 7. cxd5 Rxd5 8. c6!

Það er vel til fundið að losa sig við c-peðið með þessum hætti.

8. … Da5 9. Bd2 bxc6 10. g3 Rxc3 11. bxc3 Be7 12. Bg2 O-O 13. O-O e5 14. Dc2 Dc7 15. De4 f6 16. Dc4 Kh8 17. Be3 Rb8 18. Hfd1 Ba6 19. De6 Bxe2 20. Hd2 Ba6 21. Rh4 Bc8 22. Dc4 f5 23. Rf3 h6 24. Had1 Kh7 25. h4 Hf6

Það er erfitt að finna betri leik en þennan. En nú kemur sleggjan.

26. Rg5+! hxg5 27. hxg5 Hg6

27. … Ba6 er svarað með 28. Db3! Hf8 29. f4 og vinnur samkvæmt „vélunum“ og 27. … He6 er svarað með 28. Bh3!

28. Bd5!

Magnaður biskupsleikur. Nú virðist hægt að leika 28. … Bxg5 en þá kemur 29. Bxg5 Hxg5 30. Dh4+ Kg6 31. Bg8! og vinnur.

28. … f4 31. Be4!

Með hugmyndinni 31. … fxe3 32. Df7! og vinnur.

31. … Bxg5 32. Hd6! Bf6 33. Kg2! f3+ 34. Kxf3! Bg4+ 35. Kg2 Bxd1 36. Hxd1

– og svartur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 16. maí 2020. 

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -