Úrtakshópur skákmanna 25 ára og yngri hefur stundað æfingar undanfarið þrátt fyrir samgöngubann. Í raun náði hópurinn aðeins að hittast einu sinni í “raunheimum” áður en kórónuveiran skall á. Síðan þá hafa æfingar farið fram á netinu og ýmsir verið með fyrirlestra fyrir strákana. Í kvöld var svo raunheimahittingur númer tvö en þá fór fram hálfgert lokahóf á önninni.

Efnt var til vináttukeppni við skákmenn sem eru við eða að nálgast “viskualdurinn” og var þar valinn maður í hverju rúmi! Tefldar voru 9 umferðir á milli liðanna á 9 borðum með tímamörkunum 4+2 þ.e. 4 mínútur á skákina og 2 sekúndur í viðbótartíma við hvern leik.  Gömlu kempurnar byrjuðu af miklum krafti og tóku strax mikla forystu en flestar umferðir eftir það urðu nokkuð jafnar og náðu ungu mennirnir að vinna tvær umferðir og gera jafntefli í einni.

Lokatölur urðu 48.5 vinningur hjá 50+ sveitinni gegn 32.5 hjá þeim yngri.

Fyrir 50+ sveitina tefldu: Jóhann Hjartarson, Helgi Ólafsson, Þröstur Þórhallsson, Karl Þorsteins, Guðmundur Gíslason (sem tefldi í gegnum internetið!), Andri Áss Grétarsson, Halldór Grétar Einarsson, Ásgeir Þór Árnason, Þráinn Vigfússon, Pálmi Ragnar Pétursson og Árni Ármann Árnason.

Fyrir U25 ára sveitina tefldu: Dagur Ragnarsson, Vignir Vatnar Stefánsson, Símon Þórhallsson, Aron Þór Mai, Alexander Oliver Mai, Gauti Páll Jónsson, Pétur Pálmi Harðarson, Arnar Milutin Heiðarsson og Benedikt Briem.

Hlutskarpastir hjá 50+ urðu þeir Helgi Ólafsson með 8/8 og Guðmundur Gíslason með 7/9 en hann tefldi á chess.com gegn keppendum sem tefldu þá á fartölvu á 5. borði! Jóhann fékk 6 af 8 og þeir Ásgeir Þór Árnason og Þráinn Vigfússon eru greinilega að stunda harðar “laumustúderingar” en þeir skiluðu báðir 5 vinningum af 8. Dagur Ragnarsson stóð sig best hjá þeim yngri með 7 vinninga af 9 og næstur kom Aron Þór með 5 vinninga af 9.

Veg og vanda að skipulagningunni höfðu þeir Helgi Ólafsson og Halldór Grétar Einarsson en Þröstur Þórhallsson aðstoðaði með húsakynni en teflt var við glæsilegar aðstæður í húsi þar sem t.a.m. atriði í kvikmyndinni Vonarstræti voru tekin upp. Heiðursskákstjóri var Ingvar Þór Jóhannesson sem tók að sér að skrá úrslit og leysa úr deilumálum….sem urðu svo engin!

Að taflmennsku lokinni var boðið upp á veitingar og spjallað um ýmis málefni, skák málefni sem og önnur. Stefnt verður að því að gera þetta að árlegum viðburði!

Benedikt Briem tókst að leggja stórmeistara að velli!
Keppendur á 5. borði þurftu að tefla við Guðmund Gíslason í gegnum netið á chess.com
Ásgeir Þór Árnason stóð sig vel.
Dagur var aflamestur ungu mannana og Gauti var fyrirliði.

 

- Auglýsing -