Vignir Vatnar Stefánsson vann hið árlega hraðskákmót skákdeildar KR við Selvatn en í öðru sæti varð Jóhanna Björg Jóhannsdóttir. Þau eru hér ásamt formanni skákdeildar, Kristjáni Stefánssyni.
Skáksamband Íslands birti á dögunum lista yfir þá tíu keppendur sem hugðust tefla í landsliðsflokki á Skákþingi Íslands sem hefst í Garðabæ 22. ágúst. Mótið er haldið í Garðabæ í tilefni 40 ára afmælis Taflfélags Garðabæjar. Síðan drógu sig út úr mótinu þeir Jóhann Hjartarson og Héðinn Steingrímsson. Hugsanlegt er að Margeir Pétursson og Þröstur Þórhallsson taki sæti þeirra. En þessir eru skráðir til leiks: Íslandsmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson, Hjörvar Steinn Grétarsson, Guðmundur Kjartansson, Bragi Þorfinnsson, Helgi Áss Grétarsson, Dagur Ragnarsson, Vignir Vatnar Stefánsson og Gauti Páll Jónsson.

Goðsagnir að tafli

Ég var farinn að halda að skipuleggjendur mótaraðarinnar sem kennd er við Magnús Carlsen hefðu gleymt að bjóða til leiks nokkrum af hinum frábæru meisturum sem nýlega skriðu yfir fimmtugt og eru því komnir samkvæmt skilgreiningu Jóns Þorvaldssonar á „viskualdurinn“. En á fjórða mótinu í mótaröðinni sem ber nafnið Goðsagnir skákarinnar – Legends of chess – og hófst 21. júlí tefla nú Anand, Ívantsjúk og Gelfand og einnig Vladimír Kramnik, 45 ára, sem í fyrra kvaðst vera hættur að tefla en vill greinilega vera með á mótum með styttri umhugsnartíma. Fyrirkomulagið er sem fyrr nokkuð flókið, en keppendurnir tíu tefla allir við alla fjögurra skáka einvígi með tímamörkunum 15 10. Sigurvegarinn fær 3 stig. Þegar einvígismótinu lýkur tekur við útsláttarkeppni átta efstu manna. Eftir þriðju umferð sem tefld var á fimmtudaginn var Magnús Carlsen búinn að vinna viðureignir sínar og var með 9 stig en helsti keppinautur hans virðist ætla að verða Nepomniachtchi sem einnig var með 9 stig. Ívantsjúk, sem ekki hefur sést við taflið lengi, vann Ungverjann Leko glæsilega með því að beita kóngsbragði, og Boris Gelfand vann Liren Ding í aðeins 16 leikjum. Það er góð skemmtun að fylgjast með þessum skákum á Chess24.com. Lítum á glæsilegan sigur Nepo úr 2. umferð:

Jan Nepomniachtchi – Liren Ding

Skoski leikurinn

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rxc6 bxc6 6. e5 De7 7. De2 Rd5 8. c4 Ba6 9. h4!?

Skemmtilegur leikur sem sést af og til. Með þessu getur hvítur virkjað hrókinn á h1.

9. …f6 10. Hh3 fxe5 11. Bg5 Rf6 12. He3 d6 13. Df3 e4 14. Dd1 d5?!

Hér sést vel hversu viðkvæm staðan er. Svartur varð að draga biskup sinn til b7 og reyna að hrókera langt.

15. Rc3 Bb7 16. cxd5 cxd5?

Eftir annan ónákvæman leik á svartur sér ekki viðreisnar von. Nokkurt hald var í 16. … O-O-O.

17. Bxf6 Dxf6 18. Rxd5 Bxd5

19. Bb5+!

Nú tekur við ágætis kennslustund í því hvernig menn geta notfært sér leppanir.

19. … Bc6 20. Hxe4+! Be7 21. Dd5!

 

 

 

21. … Hd8

21. … Bxb5 22. Dxa8+ Kf7 23. Dd5+! er alveg vonlaust.

22. Bxc6+ Kf8 23. Dc4 Bd6 24. Hd1 g6 25. Hd3 Kg7 26. Hf3 Dxb2 27. Hf7+ Kh6 28. g4?

Þetta virðist ætla að enda með máti en nákvæmara var samt 28. Kf1! og síðan g4.

28. … Db1+?

Hann gat haldið jöfnu með 28. .. Da2 29. Ke2 og nú 29. … Bb4! Hér munar öllu að d4-reiturinn er valdaður.

29. Ke2 Bb4 30. Hd4! Hhe8+ 31. Kf3

Kóngurinn virðist berskjaldaður en biskupinn skýlir honum.

31. … Dh1+ 32. Kg3 He3+ 33. fxe3 Dxe3+ 34. Bf3

– og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)

Skákþættir Morgunblaðsins birtast viku síðar á Skák.is en í blaðinu sjálfur. Þessi skákþáttur er frá 25. júlí 2020. 

- Auglýsing -