Tvö borð - ein viðureign. Verður þetta svona í landsliðsflokki á Skákþingi Íslands sem á að hefjast þann 22. ágúst nk? — Morgunblaðið/Chessbase.com
Í vikunni lauk næstsíðasta mótinu í syrpumótaröð sem Magnús Carlsen hefur staðið fyrir á netinu undanfarna mánuði með tímamörkunum 15 10, þ.e. 15 mínútur á alla skákina og 10 sekúndur bætast við eftir hvern leik. Þetta fjórða mót gekk undir nafninu Legends of chess eða Goðsagnir skákarinnar, en meðal keppenda voru þrír sem komnir eru á sextugsaldurinn: Anand, Gelfand og Ivantsjúk. Þeir áttu allir góða spretti en aðalniðurstaða keppninnar var samt sú að í dag ræður enginn við norska heimsmeistarann, Magnús Carlsen! Og ekki virðist skipta neinu máli hvaða tímamörk eru notuð. Á þessu móti tefldi hann ellefu einvígi og vann þau öll. Eitt þeirra, gegn Nepomniachtci, fór í bráðabana og þar sem Magnúsi dugði jafntefli til sigurs gat hann boðið jafntefli með gjörunnið tafl. En þessi voru fórnarlömb í undankeppninni. Þar var keppt um fjögur sæti í úrslitum: MC – Giri 3:1, MC – Anand 2½:1½, MC – Leko 2½:1½, MC – Gelfand 3:0, MC – Ivantsjúk 3:2, MC – Ding Liren 2½:1½, MC – Svidler 2½:1½, MC – Nepomniachtchi 2½:2½ og loks MC – Kramnik 3:1.Í fjögurra manna úrslitunum vann Magnús auðveldan sigur á Peter Svidler í 5:1 og stóð keppni þeirra í tvo daga. Nepomniachtchi hafði meira fyrir hlutunum, háði magnað 16 skáka einvígi við Anish Giri, átti þar síðasta orðið og vann 8½:7½.

Í lokaeinvíginu gekk hins vegar allt á afturfótunum hjá Nepo. Hann kvartaði undan þreytu og þáði glaður jafnteflistilboð Carlsens í níundu skákinni sem hann vann, 6½: 2½. Lokamótið hefst á morgun þann 9. ágúst en þátttökurétt hafa þeir fjórir keppendur sem bestum árangri hafa náð í syrpunni allri, auk Magnúsar, Nakamura, Ding Liren og Daniil Dubov. Magnús teflir við Ding Liren og Nakamura við Dubov. Keppnisfyrirkomulaginu svipar til þess sem þekkist á stórmótum í tennis. Í undanrásunum munu keppendur tefla fimm fjögurra skáka einvígi og í úrslitunum sjö fjögurra skáka og það er einn vinningur í boði fyrir sigur í hverju einvígi.

Garrí Kasparov og Judit Polgar voru meðal gesta á Chess24.com og það var gaman að hlusta á þau og má búast við þeim aftur þegar lokamótið fer fram. Sú spurning vaknar hvaða þættir taflmennsku Magnúsar skýra þennan mun á honum og keppinautunum. Leikgleði, frábært vald á alls kyns stöðutýpum, frábær leiktækni í endatafli, hagsýni varðandi tímanotkun og traust á innsæi varðandi ákvarðanatöku eru nokkur atriði sem nefna má. Því má bæta við að hann virðist hafa lært heilmikið af forritinu fræga, Alpha Zero. Greinarhöfundur fylgdist með fyrstu skákinni í úrslitakeppninni og þá kom þessi staða upp:

Goðsagnir skákarinnar 2020; 7. umferð:

Peter Svidler – Magnús Carlsen

Svartur er peði yfir en staðan er þröng, biskupinn stefnir á g7. Hvað skal nú til bragðs taka?

15. … g5!?

Það þarf mikið sjálfstraust til að leika svona en virðist ganga upp.

16. fxg5 Dxg5 17. Hf5?

„Houdini“ mælir með 17. h4! en eftir 17. … Dc5+ 18. Kh1 Re5 19. Rf5 Kh8 getur svartur varist.

17. … De3+ 18. Kh1 Re5!

Skyndilega er hvítur kominn í bullandi vandræði.

19. Be2 Bb7 20. Dc2 Rc5!

Og nú er hvíta staðan að hruni komin.

21. Bc1 Bxe4+ 22. Rxe4 Dxe4+ 23. Dxe4 Rxe4 24. Bb2 He6 25. Haf1 Hae8 26. g5 Rd2 27. H1f2 Rxc4

– og Svidler gafst upp.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)

Skákþættir Morgunblaðsins birtast viku síðar á Skák.is en í blaðinu sjálfur. Þessi skákþáttur er frá 8. ágúst 2020. 

- Auglýsing -