Úrslitarimma Magnús Carlsen og Nakamura munu um helgina tefla til úrslita í lokamóti mótasyrpu sem heimsmeistarinn hefur staðið fyrir í sumar. Gott er að fylgjast með einvígi þeirra á Chess24.com. Keppnin hefst kl. 14. — Morgunblaðið/Chessbase

Ef ekki hefði komið til stórkostleg röskun á hefðbundnu skákmótahaldi væri Ólympíumótinu í skák sem átti að fara fram í Moskvu að ljúka þessa dagana. Hugurinn hvarflar til allra þeirra skemmtilegu móta og staðnæmist við þá liðsmenn sem kalla má: Hina taplausu. Að taka þátt í sterkri flokkakeppni án þess að tapa einni einustu skák er gott veganesti fyrir alla aðila. Í sögu Ólympíumótanna koma strax upp í hugann tveir skákmenn sem tefldu á hverju Ólympíumótinu á fætur öðru án þess að tapa. Í svipinn man ég ekki eftir að þeir hafi nokkru sinni lent í alvarlegri taphættu. Ef slíkt gerðist átti liðsstjóri sovésku sveitanna spil uppi í erminni; hann bauð kannski jafntefli á öllum fjórum borðum!

Tigran Petrosjan tefldi fyrst á Ólympíumótinu í München árið 1958 og tuttugu árum síðar tók hann þátt í sínu síðasta Ólympíumóti sem fram fór í Buenos Aires. Á fyrstu sjö Ólympíumótunum tefldi hann 104 skákir án þess að tapa. Á því áttunda sem fram fór í Skopje í Makedóníu haustið 1972 tapaði hann sinni fyrstu og einu skák.

Boris Spasskí hafði teflt á sex Ólympíumótum án þess að tapa en í Buenos Aires 1978 varð hann að láta í minni pokann fyrir Tony Miles.

Tap Petrosjans í Skopje 1972 átti eftir að draga dilk á eftir sér. Hann tefldi við hinn 23 ára gamla Robert Hübner sem síðar hlaut gullverðlaun fyrir bestan árangur fyrstaborðsmanna:

Lítum á þessa viðureign:

ÓL í Skopje 1972; 2. umferð úrslita:

Robert Hübner – Tigran Petrosjan

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 e6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 a6

Þetta afbrigði sikileyjarvarnar kom fyrir í nokkrum frægum skákum Petrosjans á þessum árum.

5. Bd3 Dc7 6. O-O Rf6 7. Kh1 Rc6 8. Rxc6 bxc6 9. f4 d5 10. Rd2 Be7 11. b3 c5 12. Bb2 Bb7 13. De2 O-O 14. e5 Re8 15. c4 d4 16. Re4 Hb8 17. b4 cxb4 18. Bxd4 Hd8 19. Bg1 Dc6 20. Hae1 f5 21. exf6 Rxf6 22. Bb1 Rxe4 23. Bxe4 Dxe4 24. Dxe4 Bxe4 25. Hxe4

Athyglisverð staða. Svartur á í vandræðum með e6-peðið því að 25. … Hd6 má svara með 26. c5 o.s.frv. En best er 25. .. Kf7 því að eftir 26. Hfe1 kemur 26. … a5 27. Hxe6 Bf6 og horfur svarts eru góðar.

25. … a5 26. Hxe6 Bf6 27. Bc5 Hf7?

Mun betra var 27. … Kf7 eða 27. … Hfe8.

28. Bd6!

Góð leiktækni, hvítur lokar á hrókana.

28. … Hb7 29. c5 Hc8 30. g4 Kf7 31. He4?!

Slakar á klónni. Betra var 31. Hfe1 til að hindra næsta leiks svarts. En nú var Petrosjan kominn í bullandi tímahrak.

31. … Be7! 32. Hfe1 Bxd6 33. cxd6 Hd8 34. Hd4 g6 35. Kg2 Hbd7 36. He5 Hxd6 37. Hxd6 Hxd6

Um leið og Petrosjan lék þessum leik féll hann á tíma. Athugun á stöðunni leiðir í ljós að eftir 38. Hxa5 Hb6 eða 38. … Hd3 nær svartur að skipa upp peðunum á drottningarvæng og staðan er fræðilegt jafntefli. Heimsmeistarinn fyrrverandi gjörsamlega trompaðist á sviði skákstaðarins; hann hafði talið sig eiga 2-3 mínútur eftir til að ná tímamörkunum við 40. leik. Og hafði nokkuð til síns máls, því að merkingar í kringum fallvísi skákklukkunnar, virtust gefa villandi upplýsingar. Eftir þetta gaf FIDE út reglugerð þannig að skáklukkur voru lengi á eftir stillar þannig að menn fengu aukalega þrjár mínútur fyrir hverja skák.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)

Skákþættir Morgunblaðsins birtast viku síðar á Skák.is en í blaðinu sjálfur. Þessi skákþáttur er frá 15. ágúst 2020. 

- Auglýsing -