Íslendingar urðu í 6. sæti í 4. riðli á Ólympíumótinu í netskák. Þjóðirnar sendu blönduð lið til keppni. Hér sitja við tölvuna og taflið Batel Goitom, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, Lenka Ptacnikova og Vignir Vatnar Stefánsson. — Morgunblaðið/Heimasíða SÍ
Óvissu um hvort keppni í landsliðsflokki á Skákþingi Íslands 2020 gæti farið fram var eytt í vikunni og mótið hefst í dag í Álftanesskóla í dag kl 14. Áður hafði verið gert ráð fyrir að það færi fram í Sveinatungu í Garðabæ en settar hafa verið hömlur á aðgengi þar og var því mótið flutt. Skráðir keppendur eru Hjörvar Steinn Grétarsson, Margeir Pétursson, Bragi Þorfinnsson, Helgi Áss Grétarsson, Þröstur Þórhallsson, Guðmundur Kjartansson, Björn Þorfinnsson, Dagur Ragnarsson, Vignir Vatnar Stefánsson og Gauti Páll Jónsson. Nokkrar breytingar hafa orðið á keppendalistanum undanfarið og í vikunni hætti Hannes Hlífar Stefánsson við þátttöku. Stórmeistarinn Margeir Pétursson ákvað að slá til þegar honum bauðst að vera með en hann tefldi síðast í landsliðsflokki Íslandsmótsins árið 1996. Keppni í áskorendaflokki hefst einnig í dag en mun fara fram í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur í Faxafeni.

Einvígi Magnúsar Carlsen og Nakamura lauk með „Armageddon-skák“

Sú var tíð að varla þýddi fyrir Hikaru Nakamura að stilla upp gegn Magnúsi Carlsen. Það er liðin tíð. Sjö lotu úrslitaeinvígi þeirra í mótaröð sem kennd er við norska heimsmeistarann lauk á fimmtudaginn með sigri Magnúsar sem náði að merja jafntefli með svörtu í „Armageddon-skák“ og vann því sjöundu og síðustu lotu lokaeinvígisins. Fyrirkomulag keppninnar var með þeim hætti að hver lota gerði ráð fyrir fjórum atskákum, 15 10. Ef jafnt var þá tóku við tvær hraðskákir, 5 3, og ef enn var jafnt var þá var lotan á enda kljáð með þessu sérkennilega bráðabanafyrirkomulagi. Nakamura sem var með hvítt fékk fimm mínútur gegn fjórum – en varð að vinna. Það tókst ekki. Skákirnar sem þeir tefldu urðu 38 talsins. Glæsilegasta skákin var sú fyrsta í sjöttu lotu: Magnús Carlsen – Hikaru Naka-mura Nimzo-indversk vörn 1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rc3 Bb4 4. e3 O-O 5. Bd3 c5 6. Rge2 d5 7. a3 Bxc3 8. bxc3 dxc4 9. Bxc4 Dc7 10. Ba2 b6 11. O-O Ba6 12. Bb2 Rc6 13. Hc1 Hac8 14. c4 cxd4 15. exd4 De7 16. d5!? Framrás d-peðsins liggur beint við en gallinn virðist vera sá að riddarinn á e2 er óvaldaður eftir. 16. …exd5 17. He1! Bxc4 18. Rg3 Dd8 19. Bb1 Hér er hugmyndin komin fram. Léttu menn hvíts stefna á kóngsstöðu svarts. 19. … b5 20. Rf5 d4 21. Dd2 Be6 22. Hc5 a6!? Ekki slæmur leikur en hann hefði betur losað sig við riddarann með 22. … Bxf5 23. Bxf5 Dd6 og ef 24. Hec1 þá 24. … Rd7. 23. Rxg7! Kxg7 24. Dg5+ Kh8 25. Dh4 Hg8? Afleikur. Baneitraður varnarleikur var 25. … He8. Hugmyndin er að svara 26. Hxc6 Hxc6 27. Bxd4 með 27. .. Bf5! og svarta staðan er unnin. „Houdini“ mælir með sérkennilegum leik, 26. g3!?, og hvítur virðist ekki hætta miklu.       26. Hxc6! Hxc6 27. Bxd4 Hótar 28. Dxh7 mát! 27. … Kg7 28. Dxh7+ Kf8 29. Dh6+ Ke8 30. Bxf6 Da5 31. De3 Db6 32. Hd1 Hótar 31. Hd8 mát en nákvæmara var 31. Be4. 32. … Hd6 33. Bd4 Dc6 Með lítinn tíma og ömurlega kóngsstöðu er ekki nokkur leið halda stöðunni saman. Síðasti möguleikinn til að verjast fór með þessum leik en 33. … b4! gaf einhverja von. 34. Be4 Dc4 35. h3 Kd7 36. Hd2 He8 37. Kh2 Bd5 38. Bf5 Be6 39. Bd3 Da4 40. Be5 Hd5 41. Da7+ – og svartur gafst upp. Næst kemur 42. Dc7 mát. Helgi Ólafsson (helol@simnet.is) Skákþættir Morgunblaðsins birtast viku síðar á Skák.is en í blaðinu sjálfur. Þessi skákþáttur er frá 22. ágúst 2020. 
- Auglýsing -