Spennan á Íslandsmótinu ætlar engan endi að taka! Þeir félagar úr Taflfélagi Reykjavíkur Helgi Áss Grétarsson og Guðmundur Kjartansson leiða mótið með 6 vinninga úr skákunum 8. Ljóst er að úrslit munu þó ekki ráðast fyrr en í síðustu umferð þar sem þeir munu báðir stýra hvítu mönnunum en mæta sterkum andstæðingum sem báðir hafa 5 vinninga. Þeir Bragi Þorfinnsson og Hjörvar Steinn Grétarsson þurfa að treysta á hvorn annan, þeir þurfa báðir að vinna og þá ná þeir inn í aukakeppni þar sem allir fjórir tefla hver við annan hraðskákir.

Rétt er að vekja athygli á grein ritstjóra um hvað gerist ef fleiri en einn verða jafnir á morgun.

Gangur mála í umferð dagsins:

Gauti Páll Jónsson – Þröstur Þórhallsson

Góður sigur hjá Þresti í dag sem fór í reynslubankann í drottningarbragði og sýndi mikla þolinmæði í betri stöðu og tók sinn tíma. Lengsta skák dagsins og Gauti Páll nú á botninum eftir góða byrjun á mótinu.

 

Hjörvar Steinn Grétarsson – Helgi Áss Grétarsson

Gríðalega mikilvæg skák hér á ferðinni. Helgi Áss tefldi slavnesku vörnina nokkuð frumlega en hvítur var með fína stöðu og Hjörvar missti af góðum möguleika í 19. leik með Hg5 sem hefði verið sterkur. Þróun skákarinnar eftir það var mjög spennandi og skákin tvíeggjuð. Líklegast var Bh3 leikur Hjörvar slakur og Helgi fékk stórhættuleg færi. Í miklu tímafæri nýtti Helgi sér svo mátsókn og virtist finna alla bestu leikina í lokin.

Helgi því kominn í dauðafæri í efsta sæti með Guðmundi og hefur eigin örlög í hendi sér. Hann mætir Braga með svörtu í lokaumferðinni. Hjörvar mæti Guðmundi með svörtu og þarf sigur!

 

Dagur Ragnarsson – Guðmundur Kjartansson

Eftir góða byrjun tapaði Dagur sinni þriðju skák í röð og missti jafnframt af möguleikanum á að ná áfanga að alþjóðlegum meistaratitli. Guðmundur tefldi skák dagsins vel, hann beitti Benoni vörn þar sem svartur bíður með að drepa á d5. Fékk hann úr krafsinu vænlega kóngsindverja stöðu og hnýtti jafnt og þétt að hvítu stöðunni þar til hann vann peð með laglegri fléttu.

Gríðarlega mikilvægur sigur með svörtu sem setur Guðmund í góða stöðu til að ná sínum þriðja Íslandsmeistaratitli.

 

Björn Þorfinnsson – Vignir Vatnar Stefánsson

Vignir Vatnar tók að sér að tefla eins og Karpov í þessari skák. Stakt peð Björns varð að veikleika frekar en styrkleika og Vignir skipti upp á mönnum og tók yfir d5 reitinn, allt samkvæmt réttri forskrift. Björn var gerður aftur að lirfu. Laglegt hjá Vigni.

 

Bragi Þorfinnsson – Margeir Pétursson

Byrjun Braga misheppnaðist algjörlega og Margeir fékk mun betri stöðu. Staða Braga var það slæm að riddari hans lenti á h1-reitnum og hafði ekkert betra að gera en fara í ferðalagið Rh1-f2-d1-b2-d1-b2-d1-f2 …..og bjargaði svo skákinni með því að vinna e4 peðið eftir mikla og erfiða baráttu. Mikið seiglu jafntefli hjá Braga en Margeir getur ekki verið ánægður með að klára þessa ekki.

Jafnteflið gefur Braga smá möguleika á að ná í aukakeppni um titilinn en til þess þarf hann að leggja Helga Áss með svörtu í lokaumferðinni og treysta á sigur Hjörvars á Guðmundi.

Útsending 8. umferðar

Skemmtileg útsending þar sem Ingvar Þór Jóhannesson, Sigurbjörn Björnsson, Jón Viktor Gunnarsson og Björn Ívar Karlsson spáðu í stöðu mála.

Úrslit 8. umferðar

Svörtu mennirnir reyndust vel í dag. Á tímabili leit út fyrir 0-5 fyrir svörtu mennina en Bragi náði að hrifsa jafnteflið á ótrúlegan hátt.

Staðan eftir átta umferðir

Helgi og Guðmundur leiða með 6 vinninga. Hjörvar og Bragi koma næstir með 5 vinninga. Vignir, Björn og Dagur í miðjumoðinu með fjóra vinninga og aðrir minna.

Pörun í síðustu umferð

Lokaumferðin ætti að vera mögnuð! Forystusauðirnir hafa báðir hvítt og verður spennandi að sjá hvernig skákir þeirra þróast. Andstæiðngar þeirr ameð svörtu þurfa báðir að leggja allt undir og verður gaman að sjá hvernig menn nálgast skákirnar á morgun.

Stefnt er að útsending hefjist um 13:30 á morgun og hægt að lofa spennu og átökum!

Skákir í PGN

Fyrstu átta umferðir: Icechamps_first_8

Svipmyndir

Aðrir tenglar:

- Auglýsing -