Íslandsmeistari í þriðja sinn Guðmundur Kjartansson við taflið. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Fyrir síðustu umferð í landsliðsflokki á Skákþingi Íslands voru Guðmundur Kjartansson og Helgi Áss Grétarsson með vinnings forskot á næstu menn og undir venjulegum kringum allt útlit fyrir það að annar þeirra myndi hampa Íslandsmeistaratitlinum í ár. Helgi Áss hafði unnið Hjörvar Stein í næstsíðustu umferð og Guðmundur hafði unnið Dag Ragnarsson. Vandi forystusauðanna var sá að næstu menn í röðinni, Hjörvar Steinn og Bragi Þorfinnsson, gátu með sigri knúið fram aukakeppni fjögurra efstu um titilinn. Það munaði sáralitlu að svo færi því að Bragi vann Helga Áss og Hjörvar stóð til vinnings gegn Guðmundi:

Skákþing Íslands 2020, 9. umferð: Guðmundur – Hjörvar Guðmundur hafði lagt allt of mikið á stöðuna í byrjun tafls, fékk þokkalegustu færi en hér er fokið í flest skjól. Báðir keppendur voru tímanaumir og Hjörvar lék 31. … De7? Hann gat unnið með 31. … Hxe2! 32. Kxe2 Dxc4+, t.d. 33. Ke1 Dc5! og vinnur eða 33. Ke3 Db5! 34. Kxe4 De2+ og vinnur. Það kann að vera að Hjörvar hafi hætt við þessa leið vegna 32. Df6 með hugmyndinni 32. … Hxe5 33. Hd8+! og hvítur snýr taflinu við. En eftir 32. … Bg2+! 33. Kxe2 Db2+! fellur biskupinn á e5. Nokkrum leikjum síðar kom þessi staða upp: Þó að svartur sé skiptamun yfir getur hann ekki losað kónginn og hrókinn á h7. Eftir 78 leiki sættist Hjörvar á skiptan hlut. Það þýddi að Guðmundur varð Íslandsmeistari í þriðja sinn. Bragi Þorfinnsson náði jafntefli úr tapaðri stöðu í skák sinni við Margeir í 8. umferð. Það gaf honum nýtt tækifæri og í lokaumferðinni tefldi hann sína bestu skák:

Skákþing Íslands 2010; 9. umferð: Helgi Áss Grétarsson – Bragi Þorfinnsson Nimzo-indversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rc3 Bb4 4. Dc2 0-0 5. a3 Bxc3 6. Dxc3 Rc6 7. Rf3 d6 8. b3 He8 9. Bb2 e5 10. d5 Re7 11. Rd2 Rf5 12. b4 c6 13. e4 Rd4 14. Dd3 cxd5 15. cxd5 15. … Rxd5! Tiltölulega óljós fórn en samt rétt ákvörðun. Bragi sá fram á að fá upp stöðu með hrók og peð gegn tveim léttum. 16. exd5 Bf5 17. Dg3 17. Re4 strandaði á 17. … Dh4! og riddarinn á e4 fellur. 17. … Rc2+ 18. Kd1 Rxa1 19. Bxa1 Dd7 20. Bc4 Hac8 21. Ke2 b5 22. Bb3 Bc2 23. He1 f5 24. Kf1 Dc7 25. Ba2 Kh8 26. h3 a5 27. Kg1 axb4 28. axb4 Da7 29. Bb3 Da3! Svartur hefur náð að hrifsa til sín frumkvæðið. Helgi Áss var auk þess í miklu tímahraki. 30. f4 Bxb3 31. Dxb3 Da7 32. Kh1 Df2 33. Dd1? Hann átti innan við mínútu eftir. Með meiri tíma hefði hann fundið besta leikinn, 33. Rf3!, með hugmyndinni 33. … e4 34. Bd4 Dg3 35. De3! og hvítur nær að halda stöðunni saman. 33. … Dxf4 34. Rf3 h6 35. Dd3 Hc1 36. Dxb5 Hec8 37. Bb2 Hxe1 38. Rxe1 Df2 39. Dd7 Dxe1+ 40. Kh2 Hb8 41. Dxd6 Dxb4 42. Dxb4 Hxb4 43. Bxe5 Hb5 44. Kg3 Hxd5 45. Kf4 Hd2 46. Kxf5 Hxg2 47. h4 Kg8 48. Bf4 g6+ 49. Ke6 Kh7 50. Be5 Hf2 51. Bf6 g5 52. hxg5 Kg6 – og hvítur gafst upp.

Lokastaðan varð þessi: 1. Guðmundur Kjartansson 6½ v . (af 9) 2.-3. Bragi Þorfinnsson og Helgi Áss Þorfinnsson 6 v. 4. Hjörvar Steinn Grétarsson 5½ v. 5.-7. Vignir Vatnar Stefánsson, Björn Þorfinnsson og Dagur Ragnarsson 4½ v. 8. Margeir Pétursson 3 v. 9. Þröstur Þórhallsson 2½ v. 10. Gauti Páll Jónsson 2 v.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)

Skákþættir Morgunblaðsins birtast viku síðar á Skák.is en í blaðinu sjálfur. Þessi skákþáttur er frá 5. september 2020. 

- Auglýsing -