Fulltrúar Íslands á EM ungmenna í netskák. Mynd: GB

Hjörvar Steinn Grétarsson vann Braga Þorfinnsson í fimmtu umferð Haustmóts TR sem fór fram sl. miðvikudagskvöld. Hann hefur unnið allar fimm skákir sínar og telja verður ólíklegt að Bragi nái að blanda sér í baráttuna um efsta sætið. Það munu Guðmundur Kjartansson og Helgi Áss Grétarsson hinsvegar báðir gera en þeir eru ekki langt undan.

Nokkuð hefur verið um frestanir í A-flokki haustmótsins m.a. vegna Evrópumóts ungmenna sem fram fór um síðustu helgi. En staða efstu manna er þessi: 1. Hjörvar Steinn Grétarsson 5 v . (af 5) 3. Guðmundur Kjartansson 4 v. (af 4) + frestuð skák. 3. Helgi Áss Grétarsson 4 v. (af 5) 4. Bragi Þorfinnsson 2½ v. (af 4) + frestuð skák.

Keppendur í A-riðli eru tíu talsins. Efstu menn munu mætast í lokaumferðum mótsins.

Í B-riðli eru keppendur einnig tíu talsins. Lenka Ptacnikova er efst með 4 vinninga af fimm mögulegum en í 2.-3. sæti koma Pétur Pálmi Harðarson og Þorvarður Ólafsson með 3½ vinning af fimm mögulegum.

Í Opna flokknum hefur Batel Goitom unnið allar fimm skákir sínar. Í 2.-3. sæti koma Jóhann Jónsson og Halldór Kristjánsson með 4½ vinning hvor. Hrósa ber stjórn Taflfélags Reykjavíkur fyrir góða umgjörð um þetta mót.

Hjörvar Steinn er óneitanlega sigurstranglegur eftir hina góðu byrjun. Hann hefur ekki þurft mikið fyrir vinningum að hafa en frá er skilin skák hans í 1. umferð við Sigurbjörn Björnsson. Í fjórðu umferð tefldi Hjörvar við Davíð Kjartansson. Það er dýrt að missa þráðinn í sikileyjarvörn; einn ónákvæmur leikur getur gert útslagið eins og þetta dæmi sannar:

Haustmót TR 2020; A-riðilli, 4. umferð:

Hjörvar Steinn Grétarsson – Davíð Kjartansson

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 e6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rc6 5. Rc3 Dc7 6. f4 a6 7. Rxc6 bxc6 8. Bd3 d5 9. O-O Rf6 10. Df3 Be7 11. Bd2 O-O 12. Hae1 He8 13. Kh1 Hb8?

Ónákvæmni. Nú fara peð hvíts á skrið.

14. e5 Rd7 15. f5! Rc5

Gallinn við 13. … Hb8 kemur í ljós því að 15. … Rxe5 gengur ekki vegna 16. Hxe5! Dxe5 17. Bf4 og hrókurinn á b8 fellur óbættur.

16. f6 Rxd3 17. Dxd3 gxf6 18. exf6 Bd6

19. Re4!

Snarplega leikið og annar skemmtilegur möguleiki er 19. Hf5 sem einnig ætti að vinna.

19. … dxe4 20. Hxe4 Hb5

Kóngsstaða svarts er opin upp á gátt og lítið hald í þessum leik.

21. Hg4+ Kh8 22. Hh4 Hf5 23. Hxf5 exf5 24. Dh3

– og svartur gafst upp.

Vignir Vatnar í toppbaráttunni á EM ungmenna.

18 ungmenni tóku þátt í Evrópumóti einstaklinga 18 ára og yngri á netinu, keppnin fór fram dagana 18. – 20. september og var teflt í átta aldurflokkum pilta og stúlkna. Tímamörk voru 25:5. Keppnin var vel skipulögð í hvívetna og langflestir íslensku þátttakendurnir bættu ætlaðan árangur sinn verulega. Vignir Vatnar Stefánsson var eins og stundum áður í nokkrum sérflokki meðal íslensku keppendanna en hann var í baráttunni um efsta sætið allan tímann og var einn í 2. sæti fyrir síðustu umferð með 6½ vinning af átta mögulegum. Jafntefli í lokaumferðinni hefði að líkindum tryggt honum silfurverðlaun en hann tapaði og hrapaði niður í 5. sæti með nokkrum öðrum. Engu að síður frábær frammistaða, því að 18 ára flokkurinn var skipaður flestum af bestu ungu skákmönnum Evrópu.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 26. september sl.

- Auglýsing -