Efstur Hjörvar Steinn Grétarsson við taflið. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Hjörvar Steinn Grétarsson var með ½ vinnings forskot á Helga Áss Grétarsson þegar síðasta umferð Haustmóts Taflfélags Reykjavíkur hófst í gærkvöldi. Svo skemmtilega vildi að þeir mættust í lokaumferðinni en úrslit þeirrar viðureignar lágu ekki fyrir þegar þessi pistill var ritaður. Staðan í A-riðli var þessi: 1. Hjörvar Steinn Grétarsson 7½ v. (af 8) 2. Helgi Áss Grétarsson 7 v. 3. Guðmundur Kjartansson 6½ v. 4. Bragi Þorfinnsson 4 ½ v. 5. Sigurður Daði Sigfússon 4 v. 6. – 7. Davíð Kjartansson og Vignir Vatnar Stefánsson 3 v. 8. Símon Þórhallsson 2 v. 9. Sigurbjörn Björnsson 1 ½ v. 10. Halldór Grétar Einarsson 1 v.

Í B- riðli var Þorvarður Ólafsson efstur með 6 vinninga af átta mögulegum, Lenka Ptacnikova var í 2. sæti með 5½ vinning og Alexander Oliver í 3. sæti með 5 vinninga.

Í C-riðli, þ.e. Opna flokknum, voru efstir Benedikt Þórisson, Elvar Már Sigurðsson og Jóhann Jónsson , allir með 6½ vinning af átta mögulegum.

Þremenningarnir í efstu sætum hafa verið í nokkrum sérflokki á haustmótinu. Efsti maður, Hjörvar Steinn, gæti verið með 100% vinningshlutfall hefði hann hitt á besta leikinn í þessari stöðu:

Haustmót TR 2020; 7. umferð:

Guðmundur Kjartansson – Hjörvar Steinn

Hvítur hafði valdað d-hrókinn með c4-c5 og Hjörvar gat í tvígang gripið til þeirra aðgerða sem hefðu tryggt vinningsstöðu. Hjörvar lék nú 31. … Hf8 en missti af bráðsnjöllum leik, 31. … Dxd6! Eftir 32. cxd6 Bxe4 á hvítur vart annað en 33. Dc1, en þá kemur 33. … Bxg2+ 34. Kg1 Hg3! – nákvæmast. Riddarinn á c3 fellur og varnir hvíts hrynja.

Íslandsmeistarinn Guðmundur Kjartansson hefur um nokkurt skeið sótt að því marki að ná 2.500 elo- stigum sem er skilyrði fyrir því að hann hljóti útnefningu stórmeistara. Hann er nálægt því marki og í áttundu umferð hefði sigur yfir Helga Áss dugað til. Þessir tveir hafa átt góða samvinnu undanfarið en henni eru auðvitað ákveðin takmörk sett. Mér sýnist að í skákum Guðmundar við Hjörvar og Helga Áss hafi hann sótt of fast fram þegar rólegri leiðir hefðu tryggt betri færi:

Haustmót TR 2020; 7. umferð:

Guðmundur Kjartansson – Helgi Áss Grétarsson

Drottningarbragð

1. d4 d5 2. c4 dxc4 3. Rf3 Rf6 4. e3 Bg4 5. Bxc4 e6 6. Db3 Bxf3 7. gxf3 Dc8 8. Rc3 a6 9. d5 b5 10. Be2 b4?!

Djarflega teflt. Helgi vildi með þessu knýja fram mannsfórn sem er óhjákvæmileg en lofar vissulega góðu fyrir hvítan.

11. dxe6! bxc3 12. exf7+ Kd8 13. e4 Rbd7 14. bxc3

Hvítur hefur þrjú peð fyrir manninn og hættuleg færi.

14. … Rc5 15. Dc4 De6 16. Be3 Dxc4 17. bxc4 Rfd7 18. O-O-O Kc8 19. Hhg1 Kb7

 

 

20. Bd5+?

Það er á þessu augnabliki sem hvítur missir þráðinn. Bein atlaga er ekki tímabær og hvítur gat byggt upp stöðu sína með 20. Kc2, sem opnar fyrir hróksskák á b1, eða 20. f4. Í báðum tilvikum er staða svarts afar erfið viðfangs.

20. … c6 21. Be6?

Enn verri leikur. Hann átti hiklaust að draga biskupinn til baka og hefur þá enn ágæt færi.

21. … Rxe6 22. Hxd7+ Kc8 23. Hgd1 Ba3+ 24. Kc2 Hd8!

Atlaga hvíts hefur siglt í strand og svartur stendur með pálmann í höndunum.

25. Hxd8+ Rxd8 26. e5 Hb8 27. Bc1 Bf8 28. f4 Hb7 29. Hxd8+ Kxd8 30. e6 Hb5 31. Kd3 Hf5 32. Ke4 g6 33. c4 c5 35. Bb2 Ke7

– og hvítur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 3. október 2020.

- Auglýsing -