Út er komin bókin Friðrik Ólafsson sem Helgi Ólafsson hefur útbúið til listilegrar frásagnar, byggðri á samræðum og samvinnu við Friðrik. Bókin er gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi í samstarfi við Skáksögufélagið, sem naut styrks frá Alþingi til að láta rita hana og steypa brjóstmynd Friðriks í eir.  Glæsileg bók í stóru broti, 530 blaðsíður, með fjölda mynda, gefin út í tilefni af 85 ára afmæli hans á þessu ári.  Þar er afrekssaga meistarans sett upp í stuttum en skýrum köflum þar sem skákum hans eru gerð góð skil. Ennfremur er tækni nútímans nýtt í bókinni þar sem lesendur geta farið inn á sérstakt app í snjallsíma. Þetta er byltingarkennd nýjung, skákirnar sem birtar eru í bókinni spretta upp ljóslifandi með rafrænum hætti. Þá er hægt að skoða skákirnar með hliðsjón af hinum ítarlegu skýringum sem fylgja í bókinni. Þarna er í boði grunn-, framhalds- og háskólamenntun fyrir alla skákunnendur.

Uppvaxtarár Friðriks.

Friðrik segir frá þeirri Reykjavík sem hann fæddist inn í og skrautlegu mannlífi þess tíma. Friðrik var ekki fæddur með silfurskeið í munninum, harður heimur og erfiðleikar og fátækt sóttu að æskuheimili hans, sem auðveldlega hefðu getað fært honum grýtta göngu á lífsins slóð. Friðrik er hinsvegar vel gerður með sérgáfu og það er eins og vakað sé yfir honum og hann leiddur áfram af góðu fólki og viljans mætti. Þetta kemur skýrt fram í bókinni og kaflanum um barnsaldurinn og æskuna. Svo mikið undrabarn er Friðrik í skák að hann er farinn að keppa við allra bestu skákmenn hérlendis aðeins ellefu ára gamall. En magnað var það þegar Friðrik sat í kennslustund meðal skólasystkina sinna í Austurbæjarskólanum og hjúkrunarkona gekk inn í skólastofuna og sagði hátt og skýrt yfir bekkinn svo allir máttu heyra: „Friðrik, þú kemur með mér, þú ert vannærður og fölur og það þarf að flytja þig í annan skóla. Þú átt að fara í Laugarnesskólann og í heimavistina þar.“ Þarna urðu kaflaskil í lífi Friðriks Ólafssonar, svona er gæfan oft nærri undrabörnum sínum. Friðrik segir: „Nú var ég kominn í annað umhverfi, eignaðist nýja vini og skólafélaga. Allt í einu voru komnar nýjar víddir í tilveruna, sem gáfu fyrirheit um gæfuríkt líf. Í heimavistinni í Laugarnesskóla var lífið allt í fastari skorðum, laust við þá óvissu, sem hafði verið við að etja í daglegu lífi.“

Skákferillinn

Skákferill Friðriks á alþjóðavettvangi hófst þegar hann var fimmtán ára gamall. Grannur drengur stendur með koffort sín á bryggjunni í Reykjavík og er að fara um borð í togarann Egil Skallagrímsson sem er að sigla út með fiskfarm til Grimsby. Það var vel við hæfi að togarinn Egill Skallagrímsson færi með skákvíkinginn í sína fyrstu ferð, í haugasjó sem herti hann. Á bryggjunni í Grimsby áttaði strákurinn sig á að hann hafði engan farareyri. En hann bar vandræði sín upp við skipstjórann sem greiddi götu hans með þessum orðum: „Peningalausir komast menn ekki langt í ókunnu landi.“ Heim flaug svo Friðrik með Gullfaxa og vermdi fjórða sætið á þessu fyrsta stórmóti erlendis. Sautján ára verður Friðrik Íslandsmeistari. Þá mælti Lárus Johnsen, sem tapaði titlinum til Friðriks þessi fleygu orð: „Nú stöðvar enginn Frikkann úr þessu.“ Og satt að segja stöðvaði enginn Friðrik eftir þetta.

Helgi segir í formála bókarinnar: „Kostirnir við að slá upp í gömlum fréttum frá skákviðburðum, sem Friðrik tók þátt í, blasa við; fréttir dagblaðanna fanga einstök augnablik í sögu þjóðarinnar og Friðriks. Íslenskt samfélag var þrátt fyrir fámennið og einangrunina ríkt af ungum afreksmönnum og glæsilegu fólki sem veitti hinu nýstofnaða lýðveldi byr í seglin. Nafn Friðriks hefur stundum verið nefnt í sömu andrá og Gunnars Huseby, Clausens-bræðra, Torfa Bryngeirssonar, Ríkharðs Jónsonar, Alberts Guðmundssonar, Vilhjálms Einarssonar og Halldórs Laxness. En Friðrik slær þeim öllum við ef við teljum upp hversu oft nafn hans birtist á útsíðum dagblaðanna á sjötta áratug síðustu aldar.“

Óskabarn Íslands

Friðrik var óskabarn Íslands og aðdáendur hans komu jöfnum höndum úr röðum þeirra sem kunnu mannganginn eða ekki. Hann var þjóðhetja. Þegar Friðrik vann þá vann Ísland. Friðrik varð stórmeistari rúmlega tvítugur og einn af tíu bestu skákmönnum heimsins meðan hann stóð á stjörnutindi sínum. Það var sprengikraftur skákanna sem gaf honum frægð. Sóknin var eins og Heklugos eða strókur úr Geysi. Hann dró að sér athyglina. Rússarnir og fleiri sögðu að hefði Friðrik fengið alla þá aðstoð sem stórveldin í skák létu sínum meisturum í té hefði hann orðið heimsmeistari.

Friðrik var Ísland. Hann kynnti landið okkar fyrir umheiminum og hingað drógust stærstu viðburðir heimsins. Einvígi aldarinnar milli Fischers og Spasskys og Höfðafundurinn á milli stórveldanna þar sem Reagan og Gorbatsjov tefldu frægustu pólitísku skák allra tíma. Enn er Friðrik á meðal vor og mönnum hlýnar um hjartarætur þegar nafn hans er nefnt. Hann hefur öðlast þann sess að vera  goðsögn í lifanda lífi. Eiginkona hans, Auður Júlíusdóttir, á mikinn þátt í velgengni hans. Hún hafði alla tíð sína hljóðlátu en gefandi nærveru í glæstum sigrum. Ung var hún Friðriki gefin og það var gæfuspor beggja og þjóðarinnar einnig. Bókin er afbragð og þjóðargersemi.

Grein í Morgunblaðinu, 12. desember, en birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar, Guðna Ágústssonar.  

- Auglýsing -