Íslenski hópurinn sem tók þátt í undankeppni HM ungmenna í atskák. — Morgunblaðið/SÍ

Íslendingar áttu 14 keppendur í fimm keppnisflokkum pilta og stúlkna í undankeppni HM ungmenna sem fram fór dagana 7.-9. desember. Alþjóðaskáksambandið FIDE stendur fyrir keppninni og skiptir henni upp í fjögur svæði, Asíu, Ameríku, Afríku og Evrópu, en Ísland tilheyrði Evrópusvæðinu í þessari skiptingu ásamt 45 öðrum þátttökuþjóðum og tæplega 600 keppendum. Mótið var geysilega sterkt því að fulltrúar bestu þjóðanna voru yfirleitt valdir eftir harða undankeppni. Það er komin allgóð reynsla á keppni á netinu og mér telst svo til að þetta hafi verið þriðja alþjóðamót barna og unglinga í haust. Aðeins bar á sambandsleysi í nokkrum skákum og töpuðu Guðrún Fanney Briem og Iðunn Helgadóttir hvor sinni skákinni þegar samband rofnaði. Alla þrjá keppnisdagana sátu íslensku þátttakendurnir fyrir framan tölvur sínar í húsakynnum Skákskólans við Faxafen en tefldar voru sjö umferðir og tímamörk voru 10:3. Það er mikilvægt fyrir krakka að fá svona tækifæri og þótt mótstaðan hafi verið mikil lærðu þau líka heilmargt á svo til hverri einustu skák.

Vignir Vatnar Stefánsson og Guðrún Fanney hlutu bæði 4 vinninga af sjö mögulegum og var það besta vinningshlutfallið innan hópsins. Sitthvað gladdi augað og ekki síst í yngsta aldursflokknum. Hinn sjö ára gamli Birkir Hallmundarson, sem tefldi í flokki 10 ára og yngri, vann snaggaralegan sigur í lokaumferðinni:

Birkir Hallmundarson – Rick Calleja (Malta)

Reti-byrjun

1. Rf3 d5 2. g3 Bg4 3. Bg2 Rc6 4. 0-0 Rf6 5. d3 e5 6. Bg5 Be7 7. Bxf6 Bxf6 8. e4? dxe4 9. dxe4 Rd4?

Svartur hefði getað farið í drottningarkaup og leikið síðan 10. Rd4. En annað tækifæri fær hann ekki.

10. c3 Rxf3+ 11. Bxf3 Bxf3 12. Dxf3 0-0 13. Ra3 c5 14. Had1 Dc7 15. Hd2 a5 16. Hfd1 Bg5 17. Hd7 Dc8 18. Rb5 Dc6 19. a4!

Svartur getur sig nú hvergi hrært.

19. Dc8 20. h4 Bd8 21. Dg4 Bb6 22. H1d6 Ha6 23. h5 h6 24. Kg2 Bd8 25. Hxa6 bxa6 26. Rd6 Dc6 27. Rf5 Bf6

– Sjá stöðumynd 1-

28. Hd6! Dxa4 29. Hxf6 g5 30. hxg6 fxg6 31. Dxg6+ Kh8 32. Dg7 mát.

Á sama tíma fór fram þessi viðureign í flokki stúlkna 10 ára og yngri:

Guðrún Fanney Briem – Harra Saphukhava (Hvíta-Rússland)

Slavnesk vörn

1. d4 d5 2. c4 c6 3. Rc3 Bf5?

Guðrún hafði lært þá lexíu í skák sem hún tefldi í umferðinni á undan að þessi leikur er hæpinn.

4. Db3!

Hótar tveim peðum samtímis. Gott var einnig 4. cxd5 cxd5 5. Db3 o.s.frv.

4. Dd7 5. cxd5 cxd5 6. Dxd5 Dc8?!

Tapar enn meiri tíma. Betra var 6. Rc6 og reyna síðan að koma riddaranum til b4.

7. Bf4 e6 8. Db5+ Rc6 9. d5 exd5 10. Rxd5 a6 11. Db3 Rd4 12. De3+ Re6

13. Rc7+ Kd8 14. Hd1+ Ke7 15. Bd6+ Kf6 16. Be5+ Ke7 17. Da3+! Rc5 18. Dxc5 mát.

Stórmótið í Wijk aan Zee komið á dagskrá

Stórmótið í Wijk aan Zee verður haldið með hefðbundnum hætti í byrjun næsta árs en án áhorfenda og hefst 15. janúar nk. Í fyrsta sinn í langan tíma fer fram stórmót í skákinni en mótshaldarinn hefur fengið öll tilskilin leyfi yfirvalda vegna framkvæmdarinnar og varúðarráðstöfunum vegna Covid verður fylgt í hvívetna. Keppendalistinn samkvæmt stigaröð litur svona út: Magnús Carlsen, Caruana, Nepomniachtchi, Vachier-Lagrave, Mamedyarov, Giri, Firouzja, Duda, Dubov, Esipenko, Guijarro, Foreest, Abdudsattorov og Tari.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 12. desember 2020.

- Auglýsing -