Aftur á sigurbraut Áttunda einvígisskákin nýhafin. — Getty Images

Við athugun á lokaþætti skákviðburðarins mikla í Argentínu fyrir 50 árum, lokaeinvígi áskorendakeppninnar milli Fischers og Petrosjans, hafa nokkrar stöður í sjöttu og sjöundu skák orðið sífelld uppspretta bollalegginga um valkosti þá sem kapparnir stóðu frammi fyrir. Greinarhöfundur skildi við einvígið síðast þegar staðan var jöfn, 2½:2½. Fischer steig á svið fölur og fár en kvefpest hafði herjað á hann. Tigran Petrosjan á hinn bóginn virtist sjálfsöruggur og í góðu jafnvægi. En fyrstu fréttir sem bárust til Íslands varðandi skákina sem fór í bið voru á þá leið að líkur stæðu til þess að Fischer myndi vinna peð:

Áskorendakeppnin, Buenos Aires 1971; 6. skák:

Tigran Petrosjan – Bobby Fischer

Upp úr umslaginu kom …

42. Re2

Eðlilegasti leikurinn. Kasparov og fleiri góðir menn stungu síðar upp á óvæntum leik, 42. f4!? með hugmyndinni 42. … gxf4 43. g5!? fxg5 44. Rf3 eða 43. Rf3 strax og fullyrt var að hvítur næði jafntefli. En það var ólíklegt að Petrosjan myndi velja slíkan biðleik.

42. … Ba5 43. Hb2+ Kxa6 44. Hb1 Hc7 45. Hb2 Be1 46. f3 Ka5 47. Hc2 Hb7

48. Ha2+?

48. Rc1 heldur jafntefli með bestu taflmennsku.

48. … Kb5 49. Hb2+ Bb4 50. Ha2 Hc7 51. Ha1 Hc8 52. Ha7 Ba5 53. Hd7 Bb6 54. Hd5+ Bc5 55. Rc1 Ka4 56. Hd7 Bb4 57. Re2 Kb3 58. Hb7 Ha8 59. Hxh7 Ha1 60. Rxd4+ exd4 61. Kxd4 Hd1+ 62. Ke3 Bc5+ 63. Ke2 Hh1 64. h4 Kc4 65. h5 Hh2+ 66. Ke1 Kd3

– og hvítur gafst upp.

Þraut baráttuþrek Petrosjans eftir þessa skák? Rona eiginkona Petrosjans hellti úr skálum reiði sinnar yfir aðstoðarmanninn Alexei Suetin fyrir lélegar biðskákarannsóknir. Til varnar gömlum vini okkar bað ég Daða Örn Jónsson tölvufræðing að þaulkanna framhaldið eftir bið og niðurstaða hans var að eini afleikur Petrosjans hafi verið 48. leikurinn.

Nú var staðan 3½:2½. Í næstu skák lék Fischer einum frægasta leik á ferli sínum:

Áskorendakeppnin, Buenos Aires 1971; 7. skák:

Bobby Fischer – Tigran Petrosjan

22. Rxd7+

Menn urðu agndofa þegar Fischer skipti upp á „góða riddaranum“ án þess að depla auga. Ískaldir útreikningar „vélanna“ leiða í ljós að besti leikurinn, 22. a4, tryggir unnið tafl! En hér er komið ágætt dæmi dæmi um muninn á huglægu mati og því vélræna. Leikurinn ber vitni um praktíska afstöðu Fischers, sem sá og setti í gang tiltölulega einfalda leikáætlun byggða á næmum skilningi á skákstíl og persónuleika andstæðingsins.

22. … Hxd7 23. Hc1 Hd6?

Stóri afleikurinn. Eftir 23. … d4 getur svartur varist þótt staðan sé augljóslega erfið eftir 24. Hc4 eða 24. Kf2. En Petrosjan var ekki líklegur til að „rasa um ráð fram“.

24. Hc7 Rd7 25. He2 g6 26. Kf2 h5 27. f4

„Vélarnar“ eru ekki hrifnar af þessum leik og telja 27. h4 best. Petrosjan mun hafa getað varist með 27. … Rb4 og síðan –Rc4. En hróksendatafl peði undir hvarflaði ekki að honum.

27. … h4 28. Kf3 f5 29. Ke3! d4+ 30. Kd2 Rb6 31. Hee7 Rd5 32. Hf7+ Ke8 33. Hb7 Rxb4 34. Bc4

– og Petrosjan gafst upp.

Næstu skák varð hann að vinna, fórnaði peði en kom fyrir ekki. Fischer vann örugglega í 40 leikjum. Byrjun 9. skákar var ekki góð hjá Petrosjan og enn tapaði hann og niðurstaðan 6½:2½. Fischer hafði unnið réttinn til að skora á heimsmeistarann Boris Spasskí.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 23. október 2021. 

- Auglýsing -