Íslenska liðið í opna flokknum vann góðan sigur í dag, 3-1 gegn Belgum. Kominn var tími á að hlutinir féllu með okkur og enga heppni þurfti til í dag! Kvennaliðið fékk skell 0,5-3,5 gegn Englendingum.

Hjörvar fékk hvítt gegn hinum efnilega Daniel Dardha. Sá er aðeins 16 ára og nýorðinn stórmeistari. Gríðarlegt efni! Sjáið hvernig hann slátrar Veselin Topalov hér að neðan, fyrr í þessum mánuði!

En að skák dagsins. Líklegast verða Hjörvari á mistök í byrjuninni. Riddarinn á a4 var í erfiðleikum og varð þess valdandi að hvítur varð að valda e3 peðið með kóng sem leiddi til erfiðra vandamála. Dardha tefldi þessa skák vel.

Hannes lenti í smá vandræðum að því er virtist eftir byrjunina. Smátt og smátt lagaði okkar maður þó stöðuna og þegar a- og b- peðið var komið af stað var Hannes kominn í gamla góða “Róbot” gírinn og vann örugglega.

Á þriðja borði stimplaði Helgi Áss sig vel inn með þéttum sigri á alþjóðlegum meistara.

Guðmundur Kjartansson heldur áfram að halda inn vinningum. Hann vann enn og aftur í dag og hefur nú 6 vinninga af 7 mögulegum. Lokahnykkurinn var skemmtilegur!

Enska liðið reyndist of erfitt fyrir kvennaliðið. Þriðja 0,5-3,5 tapið í röð. Hallgerður náði að bjarga jafntefli eftir að hafa haft líklega tapað tafl.

Lenka virtist fá smá frumkvæði en erfitt var að vinna eitthvað úr því. Líklega var h4 leikurinn snemma í miðtaflinu óþarfi. Sá leikur bjó til veikleika sem á endanum kostuðu líklega skákina.

Hallgerður tapaði peði og fljótlega öðru. Bætur svarts virtust ekki nægar en hvítur fór kannski að reyna að vera full “fancy” í úrvinnslunni og Hallgerður náði sér í mótspil og náði jafnteflinu.

Jóhanna ýtti líklega full snemma á “panic-takkann” þegar hún fórnaði skiptamun. Eftir að skiptamunurinn tapaðist virtist hvítur aldrei fá nægjanlegt spil fyrir liðið.

Hrund fékk ekki nægjanlegt mótspil til að vega upp á móti kóngssókn hvíts. Sóknin varð og þung og hvítur braust í gegn.

Kvennaliðið fær Belgíu á morgun en karlaliðið fær sveit Tékka.

Umferðir hefjast klukkan 14:00 að íslenskum tíma.

Opinn flokkur á Chess-results

Kvennaflokkur á Chess-results

Skákvarpið má finna hér og hefjast útsendingar 15:30-16:00

- Auglýsing -