Alþjóðlegi meistarinn Himir Freyr Heimisson hefur ákveðið að ganga til liðs við Skákdeild Breiðabliks. Hilmir Freyr bætist í breiðan hóp sterkra ungra skákmanna í deildinni.
Þetta er mikið fagnaðarefni fyrir Skákdeild Breiðabliks og félagsmenn hennar. Síðan að Skákdeildin var stofnuð hefur verið rekin öflug þjálfun fyrir unga skákmenn á grunnskólaaldri. En núna eru margir efnilegir skákmenn útskrifaðir og komnir á meistaraflokksaldur og þurfa verkefni við hæfi.
Hilmir Freyr ólst upp í Salahverfinu í Kópavogi og tefldi á sínum grunnskólaárum fyrir Salaskóla hjá Tómasi Rasmus sem dreif skákstarfið áfram. Á sama tíma stundaði hann æfingar við Skákakademíu Kópavogs í stúkunni við Kópavogsvöll þar sem Helgi Ólafsson hefur þjálfað mörg ungmennin með góðum árangri. Hilmir Freyr spilaði einnig fótbolta í Breiðablik. Hann er því mjög tengdur bæði Breiðabliki og Kópavogi.
Hilmir Freyr hefur verið vaxandi á undanförnum árum og kláraði síðasta áfanga sinn að alþjóðlegum titli í Serbíu í febrúar. Aðrir sigrar sem rétt er að nefna er sigur á alþjóðlega unglingaskákmótinu í Uppsala árið 2018, Norðurlandameistari U20 í skólaskák árið 2020 og sigur á alþjóðlega Kaupmannahafnar áskorendamótinu árið 2020.
Skákdeild Breiðabliks býður Hilmi Frey velkominn í félagið og stefnir að því að standa myndarlega við bakið honum!