Skákdeild Fjölnis í samstarfi við Austur þjónustumiðstöð bauð grunnskólakrökkum upp á glæsilegt skákmót í Hlöðunni Gufunesbæ. Hlaðan er sannkölluð skákhöll því aðstaðan býður upp á allt það besta.
Um 30 krakkar skráðu sig til leiks, tefldu 5 keppnisskákir og þáðu ljúffengar veitingar í lok mótsins.
Skákhátíðinni lauk með mikilli verðlaunahátíð. Allir þátttakendur voru leystir út með verðlaunapeningi, efstu krakkar í hvorum keppnisflokki fengu eingarbikara og loks voru 5 þátttakendur valdir og verðlaunaðir með frammistöðuverðlaunum. Bikarhafar í yngri flokki urðu þau Emilía Embla . B. Berglindardóttir, Walter Robert Clarksson og Tristan Fannar Jónsson og í eldri flokki Fannar Smári, Sigurður Páll og Jón Bragi.
Skákmótið naut styrks frá Hverfissjóði. Miðað við hversu vel tókst til nú á þjóðhátíðardegi þá er að sjálfsögðu stefnt að árlegum þjóðhátíðarviðburði. Skipulag skákmótsins var í höndum Helga Árnasonar frá Fjölni og Ragnars Harðarsonar frá Austur þjónustumiðstöð.