Verðlaunahafar á NM Alexander Domalchuk-Jonasson, Vignir Vatnar Stefánsson og Ingvar Wu Skarphéðinsson. — Morgunblaðið/Kjartan Briem

Vignir Vatnar Stefánsson vann glæsilegan sigur í A-flokki Norðurlandamóts ungmenna sem fram fór í Helsingborg í Svíþjóð um síðustu helgi. Vignir vann allar sex skákir sínar í mótinu og er þetta þriðji Norðurlandameistaratitillinn sem hann vinnur. Í B-flokki hreppti Alexander Domalchuk-Jonasson silfrið en hann teflir nú fyrir Íslands hönd og það gerði einnig Ingvar Wu Skarphéðinsson í C-flokki. Ingvar tefldi af miklum krafti og var í efsta sæti fyrir síðasta keppnisdag.

Horft um öxl

Víða um heim hafa menn minnst 50 ára afmælis „einvígis aldarinnar“ sem lauk 1. september 1972. Ég var dálítið hissa þegar yfirdómarinn Lothar Schmid taldi aðspurður á ráðstefnu sem SÍ stóð fyrir í Þjóðmenningarhúsinu sumarið 2002 á 30 ára afmæli einvígisins að 140 bækur hefðu verið ritaðar um viðburðinn. Þetta fannst mér ansi há tala en Schmid hlaut að vita hvað hann var að tala um; hann rak stórt bókaforlag í Þýskalandi, átti stærra skákbókasafn en nokkur annar og safnaði líka ýmsu öðru, t.d. skorblöðum keppenda, sem hann skilaði með allmiklum semingi við þetta tækifæri. Hollenski stórmeistarinn Jan Timman ritaði eina af þessum bókum í samstarfi við dr. Max Euwe forseta FIDE. Í aðdraganda 50 ára afmælis einvígisins velti Timman því upp við útgefanda sinn hvort ástæða væri til að skrifa aðra bók um einvígið en sú hlyti einungis að byggjast á einhvers konar endurskoðun, því að helstu niðurstöður rannsókna á einstökum skákum, sem enn þann dag í dag fara fram út um allan heim, eru í raun síbreytilegar jafnvel þó svo að öflugur hugbúnaður sé notaður.

Í nýjasta eintaki hollenska skáktímaritsins „New in chess“ leggur Timman á djúpið – með aðstoð vélanna! Hann fullyrðir að 10. einvígisskákin hafi verið besta skák einvígisins, og ráða má af skrifum hans að þrettánda skákin, sem réð endanlega úrslitum, hafi haft algera sérstöðu hvað varðar dramatík í einvíginu og kannski skáksögunni allri. En lítum á vangaveltur Timmans:

Heimsmeistaraeinvígið í Reykjavík 1972; 10. einvígisskák:

Bobby Fischer – Boris Spasskí

38. … h5

Tapleikurinn, en það fór fram hjá flestum. Það var Júgóslavinn Janosevic sem benti á að eftir 38. … Be5 39. f4 Bd4 40. g4 (eða 40. Hbe7 b3 41. g4 Ha6 og staðan er jöfn) Ha2+ 41. Kf1 Hh2 er svartur ekki í taphættu. Jafnvel 38. … Ha6 heldur jafnvægi.

39. Hb6

Liggur í augum uppi en er rangur leikur. Eftir 39. g4!, sem tekur f5-reitinn af kónginum, vinnur hvítur.

39. … Hd1

Spasskí missir af besta tækifærinu, 39. … Kf5! Eftir 40. Kf3 Ha3+ 41. He3 Hxe3+ 42. fxe3 Ke5 hefur hvítur enga vinningsmöguleika.

40. Kf3

„Nákvæmur allt til enda,“ skrifar Kasparov. En þetta er samt afleikur! Aftur var 40. g4 rétti leikurinn. Eftir 40. … hxg4 41. hxg4 Hd2 42. Kf3 g5 43. Ke3 Hd5 44. Ke2! er svartur í leikþröng.

40. … Kf7

Afvegaleiddur í 40. leik. Eftir 40. … Hd3+ 41. Ke2 Hd5 ætti svartur að sleppa. Næstu leikir voru …

41. Ke2 Hd5 42. f4 g6 43. g4

Með vinningsstöðu.

43. … hxg4 44. hxg4 g5 45. f5 Be5 46. Hb5 Kf6 47. Hexd4 Bd4 48. Hb6+ Ke5 49. Kf3 !

Hótar 50. He6 mát.

49. … Hd8 50. Hb8 Hd7 51. H4b7 Hd6 52. Hb6 Hd7 53. Hg6 Kd5 54. Hxg5 Be5 55. f6 Kd4 56. Hb1

– og svartur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 3. september 2022.

- Auglýsing -