Fyrsti sigurinn Magnús Carlsen hóf mótið með því að vinna Rússann Fedoseev glæsilega í 1. umferð. — Morgunblaðið/Hákon

Nokkuð var um óvænt úrslit á fyrsta keppnisdegi heimsmeistaramótsins í Fischer-random eða Chess 959, eins og Magnús Carlsen orðaði keppnisgreinina og vísaði til þess að tekinn hefur verið frá sá valkostur er varðar hefðbundna upphafsstöðu sem menn hafa notast við öldum saman. Það var einkum 2:0-sigur hins 18 ára gamla Úsbeka, Abdusattorovs, yfir Jan Nepomniachtchi sem kom á óvart. Þá tapaði Magnús Carlsen seinni skákinni fyrir Nakamura, sem komst við það í efsta sæti B-riðils. Mótið fer þannig fram að því er skipt upp í tvo fjögurra manna riðla og komast tveir efstu menn í útsláttarkeppni og eftir það er heimsmeistaratitillinn undir. Hinir fjórir munu tefla um 5.-8. sætið. Tímamörk eru 25:5 en viðbótartíminn, þ.e. fimm sekúndurnar, byrjar fyrst að tifa eftir 30 leiki.

Staðan í A-riðli eftir gærdaginn er þessi:

1. Abdusattorov 3½ v. (af 4). 2.-3. Wesley So og Nepomniatchchi 2 v. 4. Hjörvar Steinn ½ v.

Í B-riðli er staðan þessi:

1. Nakamura 3 v. 2.-3. Magnús Carlsen og Fedoseev 2 v. 4. Bluebaum ½ v. Hjörvar Steinn Grétarsson gerði jafntefli við Wesley So eftir æsispennadi baráttu og 100 leiki. Hann tapaði seinni skákinni og síðan báðum fyrir Nepo. Hann mun tefla fjórar skákir samtals við félaga sína í A-riðli.

Magnús Carlsen í sviðsljósinu

Þó að mál heimsmeistarans gagnvart Banndaríkjamanninum Hans Niemans séu á allra vörum er talið ólíklegt að þau muni hafa mikil áhrif á Norðmanninn, sem er gríðarlegur keppnismaður og á auðvelt með að tengja frá ytri aðstæðum. Hann hefur ekkert tjáð sig um þau mál en örlítið um þá ákvörðun sína að afsala sér heimsmeistaratitlinum sem þýðir að áhorfendur á Hotel Berjaya gætu verið að fylgjast með næsta heimsmeistara en Rússinn Jan Nepomniachtchi mun á næsta ári tefla um titilinn við Kínverjann Liren Ding. Norðmaðurinn á auðvitað þann kost að taka upp annan „titil“ sem fyrirrennari hans, þrettándi heimsmeistarinn Garrí Kasparov, skreytti sig gjarnan með eftir að hafa tapað heimsmeistaraeinvíginu fyrir Vladimír Kramnik í London árið 2000; upp á ensku var það: World nr. 1.

Wesley So hefur áður reynst Magnúsi Carlsen erfiður viðfangs

Fyrir fram var því spáð að núverandi heimsmeistari í „Fischer random“, Filippseyingurinn Wesley So sem teflir fyrir Bandaríkin þar sem hann er búsettur, gæti reynst Magnúsi erfiður viðfangs ef svo fer að þeir mætist í úrslitaeinvíginu. Þeir tefldu um titilinn árið 2019 og So vann með yfirburðum, 13½:2½, en fyrirkomulag þeirrar keppni var með allt öðrum hætti en nú. Hikaru Nakamura er einnig til alls vís en hann hefur alltaf átt afar erfitt uppdráttar gegn Magnúsi þótt breyting hafi orðið þar á í gær. Þá er lítið vitað um hæfni heimsmeistaraefnis Rússa, Jans Nepomniachtchis, en hann tefldi hratt og flausturslega í fyrri umferðinni og tapaði báðum skákunum verðskuldað. Þó að Magnús, Nakamura, Nepo og So séu í meiri metum nú um stundir en aðrir keppendur skyldi enginn vanmeta Úsbekann Nodirbek Abdusattorov. Þótt hann sé fyrirfram óskrifað blað þarf ekki að efast um það að hann er eins vel undir þessa keppni búinn og hugsast getur. Í fyrra varð hann, þá 17 ára gamall, heimsmeistari í atskák og vann innbyrðis viðureign sína við Magnús Carlsen. Íslandsmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson er fulltrúi Íslands á mótinu. Hann hefur ekki mikla reynslu af keppni í Fischer-random en það er merkilegt að hann lítur á mótið sem skemmtilega áskorun.

Áhrifavaldar

Koma Magnúsar Carlsens, sem tefldi hér fyrst árið 2004, er auðvitað stórviðburður og alls ekki úr vegi að líta á arfleifð hans frá fyrstu komu hans hingað til lands. Fyrir meira en 25 árum var skákin vissulega nokkuð vinsæl keppnisgrein á netinu, t.d. á vefnum ICC, en þar voru þó möguleikar greinarinnar vannýttir. Enn meiri vinsældir komu með kynslóð norska heimsmeistarans og vefsvæða á borð við Chess.com sem milljónir manns um heim allan nýta sér á hverjum degi. Magnús og Hikaru Nakamura hafa hvor með sínum hætti lagt margt til sem gert hefur taflmennsku á netinu gríðarlega vinsæla og gerbreytt ímynd skákarinnar. Nakamura með ótrúlega vinsælu „streymi“ og dálæti á keppnisgrein sem nýtur mikilla vinsælda og kallast Bullit. Þar hafa keppendur eina mínútu til að ljúka hverri skák. Nakamura hefur skrifað bók um efnið, þ.e. helstu brögð og brellur, þó að viðureignir í Bullit séu yfirleitt algjört rugl og snúist aðallega um að fella andstæðinginn á tíma. En Magnús Carlsen er hinn stóri persónuleiki skákarinnar í dag. Áhrifa hans gætir víða; í tískuheiminum, hann er skrafhreifinn á samfélagsmiðlum, mikill áhugamaður um knattspyrnu og stuðningsmaður Real Madrid, hefur náð efsta sæti í tölvuleikjum Fantasy football sem sjö milljón manns spila og verið meðal þátttakenda á stórum pókermótum. Hann er í dag frægasti keppnismaður Noregs ásamt knattspyrnumanninum Erling Haaland og golfleikaranum Viktor Hovland.

Í sögulegri nánd

Gististaður keppenda, gamla Loftleiðahótelið sem nú heitir Berjaya, gæti við fyrst sýn verið komið út úr skipulagi; það er þrengt að þessari byggingu úr öllum áttum. Erlendu keppendurnir hljóta þó að vita að þarna eru þeir komnir í „sögulega nánd“. Eftirminnileg Reykjavíkurskákmót voru haldin þarna frá 1978-1988, einvígi Spasskís og Horts árið 1977, heimsbikarmótið 1991 en sterkasta tengingin verður þó alltaf við „Einvígi aldarinnar“ 1972. Einn alfrægasti gestur Hótels Loftleiða, Bobby Fischer, var nýkominn til landsins og steig út úr dyrum hótelsins og hélt út í þokuna á leið til sjávar þegar einvígið var við það að leysast upp í fullkominn farsa. Hann bjó á herbergi 470 og þar fór fram undirbúningur hans fyrir skákir einvígisins en tíu þeirra fóru í bið. Slíkar sögur og aðrar um það sem gerðist innan veggja hótelsins þetta sumar hafa margar fengið á sig goðsagnakenndan blæ.

Skáksamband Íslands er samstarfsaðili aðalskipuleggjanda mótsins, norska fyrirtækisins DUND, sem sérhæfir sig í skákmótahaldi og stóð fyrir heimsmeistarakeppninni árið 2019. Mótið, sem öðrum þræði er haldið í tilefni 50 ára afmælis einvígis Fischers og Spasskís, fer fram í gamla Kristalsalnum. Meðal gesta voru forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og forseti FIDE, Arkady Dvokovich. Þeir fengu m.a. það hlutverk að leika fyrsta leik sinnar umferðarinnar hvor.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 26. október 2022.

- Auglýsing -