Bandaríkjamaðurinn Hikaru Nakamura er heimsmeistari í Fischerrandom eða Fischer-slembiskák, eins og greinin hefur verið þýdd yfir á íslensku, eftir æsispennandi viðureign við Jan Nepomniactchi í gærkvöldi. Grípa varð til „Armageddon-skákar“ eftir að fjögurra skáka einvígi þeirra um titilinn lauk með jafntefli, 2:2. Úrslitaskákinni lauk laust fyrir kl. 21 í gærkvöldi. Hún fór þannig fram að ákveðið var fyrir fram að sá sem stýrði hvítu mönnunum yrði að vinna skákina til að hreppa heimsmeistaratitilinn en svörtum nægði jafntefli. Á hinn bóginn fengi hvítur lengri tíma, eða 15 mínútur. Síðar máttu Nepo og Nakamura bjóða í umhugsunartíma svarts sem yrði alltaf undir 15 mínútum og var lægsta tilboðinu tekið. Nepo átti það, 13 mínútur á móti tilboði Nakamura sem var upp á 14 mínútur.

Í upphafsstöðunni voru báðir biskupar keppenda staðsettir á hornalínunumm, a1-h8 og h1-a8. Atburðarás fyrstu leikja einkenndist af tilfæringum á þessum löngu skálínum. Nakamura virtist fá mun betri stöðu í byrjun tafls en missti þráðinn og Nepo var skyndilega kominn með vænlega stöðu. Hann flýtti sér þó sennilega um of sem var raunar hans stíll allt þetta mót og gafst vel er hann vann Magnús Carlsen 3:1 í 4-manna úrslitum á laugardaginn. Nakamura vann skiptamun og knúði fram mátsókn með hrókum sínum og vann þar með titilinn. Ekki verður annað sagt en en að hann sé vel að heimsmeistaratitlinum kominn en hann hafði betur gegn Magnúsi Carlsen í undankeppninni, vann síðan Úsbekann Nodirbek Abdusattaorv 3:0 í fjögurra manna úrslitum og síðan Nepo sem mátti ekki tefla undir þjóðfána Rússlands frekar en landi hans Fedoseev.

Magnús Carlsen náði 3. sæti með sannfærandi sigri yfir Abdusattorov, 3:1, en hann tapaði þó slysalega fyrstu skákinni í því einvígi. Í keppni um 5. sætið vann Fedoseev Wesley So, 3:1 og Hjörvar Steinn Grétarsson mátti lúta í lægra haldi í keppni um 7. sæti fyrir Þjóðverjanum Matthias Bluebaum, 1:3. Hjörvar hafði minni reynslu en flestir aðrir keppendur í Fischer-slembiskák. Þetta var hans fyrsta opinbera mót í greininni. Og varla það síðasta því að skákmennirnir voru flestir ef ekki allir hrifnir af keppnisfyrirkomulaginu, ekki síst heimsmeistarinn, Magnús Carlsen. Hann átti óvenjulega slakt mót og lék vænlegri stöðu oft í tap, yfirleitt með einum stórum afleik.

Framkvæmd mótsins, sem fram fór á Hotel BERJAYA, þ.e. gamla Loftleiðahótelinu, tókst vel og var á forræði norska fyrirtækisins DUND og Skáksambands Íslands, sem með sinni aðkomu hélt upp á 50 ára afmæli einvígis Fischers og Spasskís sem fram fór sumarið 1972. Framkvæmdin var fyrst og fremst miðuð við beinar útsendingar hjá RÚV sem voru í höndum Páls Magnússonar, Björns Þorfinnssonar og Ingvars Þ. Jóhannessonar, og norska ríkissjónvarpsins, NRK, sem hefur mikla reynslu af útsendingum frá viðburðum þar sem Magnús Carlsen er meðal keppenda. Margir lögðu leið sína á keppnisstað til að fylgjast með hinum nafntoguðu köppum. Skjáir fyrir áhorfendur sem settir voru upp á keppnisstað reyndust allt of litlir og mótstöflur voru ekki hengdar upp á meðan keppni stóð. Mikil öryggisgæsla var á staðnum til að koma í veg fyrir svindl. Keppendur og aðstoðarmenn voru því skannaðir í bak og fyrir og útsendingum seinkað um 5 mínútur.

Hvort greinin vex og dafnar sem keppnisgrein á framtíðin eftir að leiða í ljós. En með Fischer-slembiskák hefur skáklistin verið gædd nýrri vídd; stöðurnar sem upp komu voru oft geysilega flóknar, torræðar en skemmtilegar.

Póstburður hjálpaði Lenku að sigra mótið

Höfundur: Veronika Steinunn Magnúsdóttir
Lenka Ptacnikova bar sigur úr býtum á Íslandsmóti kvenna sem lauk í gær.

Reyndist það henni til mikillar lukku að hjálpa syni sínum að bera út póst á morgnana á meðan á mótinu stóð.

Þú tefldir af öryggi, hafði það ekki mikið að segja?

„Í mótum fer ég oft á taugum og tefli svakalega illa og oftast hefur það slæm áhrif á skákirnar. En sonur minn bað mig, stuttu fyrir mótið, að hjálpa sér að bera út póst. Við byrjuðum dagana á að fara út að ganga klukkan fimm að morgni,“ segir Lenka. Ákvað hún því að halda áfram að bera út póst á meðan á mótinu stóð.

„Ég held að þetta hafi hjálpað mér mikið, þótt það hafi verið skrýtið að vakna svona snemma,“ segir Lenka og bætir við að svefninn hafi batnað fyrir vikið.

„Auðvitað er maður gríðarlega glaður að vinna mótið. Þótt maður hafi unnið þetta mörgum sinnum áður þá er ekki leiðinlegt að vinna þetta aftur,“ segir Lenka.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 31. október 2022.

- Auglýsing -