Merkur áfangi Alexandr-Domalchuk Jónasson við taflið í Antalya. — Ljósmynd/EM ungmenna

Alexandr-Domalchuk Jónasson varð í 10. sæti í flokki keppenda 18 ára og yngri á Evrópumóti ungmenna sem lauk í Antalya í Tyrklandi sl. mánudag. Alexandr hlaut sex vinninga af níu mögulegum og náði sínum fyrsta áfanga að alþjóðlegum meistaratitili. Hann er 17 ára gamall og það er gleðilegt að hann hafi náð þessum árangri í för með íslenska hópnum sem stóð vel fyrir sínu á Evrópumótinu.

Matthías Björgvin Kjartansson hækkaði mest allra á stigum eða um 88 Elo-stig en hann hlaut fjóra vinninga af níu mögulegum. Þá hækkaði hinn níu ára gamli Birkir Hallmundarson um 78 Elo-stig, Gunnar Erik Guðmundsson um 45 Elo-stig og Iðunn Helgadóttir um 37 Elo-stig. Matthías og Iðunn byrjuðu bæði illa en unnu síðan þrjár skákir í röð.

Evrópumótið var fyrsta stóra verkefni íslenskra ungmenna í skákinni eftir Covid-faraldurinn. Mótið fór fram við frábærar aðstæður. Á heimsmeistaramóti unglinga 20 ára og yngri á dögunum var Vignir Vatnar Stefánsson rétt eins og Alexandr í toppbaráttunni mótið á enda.

Vel skipað Skákþing Kópavogs – þrír efstir á U 2000-mótinu

Nóvembermánuður ætlar að verða þéttsetinn skákviðburðum og í gær hófst í Fífunni í Kópavogi Skákþing Kópavogs 2022. Meðal 25 þátttakenda sem skráð hafa sig til leiks eru Vignir Vatnar Stefánsson, Dagur Ragnarsson, Halldór G. Einarsson og Lenka Ptacnikova auk margra sterkra skákmanna, m.a. ungmenna sem tóku þátt í EM í Tyrklandi.

Fyrir síðustu umferð á U 2000-mótinu, sem Taflfélag Reykjavikur stendur fyrir, eru efstir Adam Omarsson, Dagur Kjartansson og Sigurjón Þór Friðþjófsson, allir með fimm vinninga af sex mögulegum.

Glæsileg leikflétta Duda

Það hefur varla farið fram hjá skákunnendum að ein aðalástæða þess að Magnús Carlsen hefur ákveðið að afsala sér heimsmeistaratitlinum liggur í óánægju hans með keppnisfyrirkomulagið. Eitt stykki heimsmeistaraeinvígi útheimtir gríðarleg orkuútlát og eftir að hafa háð fimm slík þykir honum nóg komið. Tillögur um að skákir með styttri umhugsunartíma fái ákveðið vægi í heimsmeistarakeppninni hafa verið settar fram því að staðreyndin er sú að keppni í atskák og hraðskák nýtur síaukinna vinsælda og hentar betur í beinum útsendingum í sjónvarpi og á netinu.

Í lokamóti Meltwater-mótaraðarinnar sem fram fer í San Francisco þessa dagana sitja keppendurnir átta andspænis hver öðum – en með tölvu fyrir framan sig í stað tafls. Magnús Carlsen, sem hefur tryggt sér sigur í mótaröðinni, og Pólverjinn Jan-Krzysztof Duda hafa forystu eftir þrjár umferðir. Glæsileg leikflétta Pólverjans hefur vakið feiknaathygli en hún gekk þannig fyrir sig:

Meltwater 2022, 3. umferð:w (STÖÐUMYND 1)
Jan-Krzysztof Duda – Anish Giri

Hvíta staðan er greinilega betri því að kóngsstaða Hollendingsins er afar viðkvæm. Vinningsleiðin sem Pólverjinn fann er stórglæsileg og minnir á leikfléttur 19. aldar meistaranna: hvítur leikur og mátar:

28. Hg7+! Kxg7 29. f6+ Kh6

eða 29. _ Kg8 30. Bh7+! Kh8 31. Rg6+ Kxh7 32. Dh5+ Kg8 33. Dh8+ Kf7 34. Dg7+ Ke8 35 De7 mát.

30. Rg4+ Kg5 (STÖÐUMYND 2)

31. Df5+! Rxf5 32. Hxf5+ Kg6

eða 32. Kxg4 33. h3 mát

33. He5+!

– og svartur gafst upp því að eftir 33. _ Kf7 kemur 34. He7+ Kg8 35. Rh6+! Kh8 36. Hh7 mát!

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 19. nóvember 2022.

- Auglýsing -