Norðurlandameistarar Sveit Lindaskóla úr Kópavogi vann NM grunnskólasveita yngri, í Danmörku á dögunum. F.v.: Engilbert Viðar Eyþórsson, Örvar Hóm Brynjarsson, Sigurður Páll Guðnýjarson, Birkir Hallmundarson og Nökkvi Hólm Brynjarsson. — Ljósmynd/Guðný Sigurðardóttir

Vignir Vatnar Stefánsson vann Jóhann Hjartarson í 4. umferð A-riðils á skákhátíð Fulltingis í Garðabæ og er einn í efsta sæti með fullt hús. Helgi Áss Grétarsson í 2. sæti með 3½ vinning og síðan koma þeir Örn Leó Jóhannsson og Hjörvar Steinn Grétarsson, báðir með 3 vinninga. Í B-flokki eru Lenka Ptacnikova og Sæberg Sigurðsson í efsta sæti með 3½ v.

Það er alls ekki loku fyrir það skotið að Vignir nái að vinna bæði stóru mótin nú í ársbyrjun; hann er einn í efsta sæti á Skákþingi Reykjavíkur fyrir lokaumferðina á morgun með 6½ vinning af átta en í 2.-5. sæti koma Alexander Domalchuk-Jónasson, Benedikt Briem, Jóhann Ingvason og Alexander Oliver Mai, allir með 6 vinninga.

Feðgarnir Jóhann Ingvason og Örn Leó Jóhannsson hafa báðir blandað sér í toppbaráttuna, hvor í sínu mótinu þó. Sá síðarnefndi náði að byggja upp mikla sókn með hinni sívinsælu London-uppbyggingu gegn mótherja sem alla jafna teflir nokkuð traust:

Skákhátíð Fulltingis 2023
A – riðill; 4. umferð: ( STÖÐUMYND 1 )

Örn Leó Jóhannsson – Þorsteinn Þorsteinsson

Síðasti leikur svarts var 14. …c5-c4 . Honum var mikið í mun að loka drottningarvængnum. En nú kom 15. a6! Svartur verður trúlega að bakka með biskupinn til a8 en þá getur hvítur hirt c4-peðið með vinningsstöðu. En hann lék því … 15. … cxd3? en eftir 16. axb7+ Kxb7 17. Hxa7+! – gafst svartur upp því að drottningin fellur eftir 17. …Kxa7 18. Rc6+.

Giri einn efstur í Wijk aan Zee

Hollendingurinn Anish Giri varð einn efstur á stórmótinu í Wijk aan Zee eftir dramtíska lokaumferð síðastliðinn sunnudag. Landi hans Van Foreest átti stóran þátt í sigri hans því honum tókst að leggja forystusauðinn Abdusattorov í lokaumferðinni og þar sem Giri náði að vinna sína skák seig hann fram úr Usbekanum. Magnús Carlsen hefði með hagstæðari úrslitum í lokaumferðinni getað náð efsta sæti. En taflmennska hans var í slöku meðallagi að þessu sinni og einbeitninni á stundum ábótavant sem sást vel í næstsíðustu umferð:

WAZ 2023; 12. umferð: (STÖÐUM 2)
Carlsen – Pragnanandhaa

Staða kom upp eftir 21. leik Indverjans, He8 . Hér gat hvítur leikið 22. Rxf7! með hugmyndinni 22. … Kxf7 23. Hf3 með vinningsstöðu; þar sem hvítur fær biskupinn til baka. En Magnús lék 22. Hfe1 tefldi framhaldið eilítið ónákvæmt og varð að sætta sig við skiptan hlut.

Í lokaumferðinni varð snemma ljóst hvert stefndi í skák Abdusattorovs en staðan hjá Giri í jafnvægi:

WAZ 2023; 13. umferð: (STÖÐUM 3)
Giri – Rapport

Síðasti Giris var 34. Rf4-h5+ . Eftir 34. … Kg8 er staðan fremur jafnteflisleg. En Rapport er mikill flækjumeistari og lék nú 34. …Kg6 Hugmyndin var að svara 35. gxf5+ með 35. … Kh7. En leikur Giris kom honum strax niður á jörðina, 35. Hxd6! og svarta staðan er vonlaus því að 35. … Dxd6 er svarað með 36. Dxh5 mát. Framhaldið varð 35. …Kg5 36. Hd5 De1+ 37. Kg2 Be7 38. Hxf5+ Kh4 39. Dg3+ – og Rapport gafst upp.

Lokaniðurstaðan varð þessi: 1. Giri 8½ v . (af 13) 2.-3. Abdusattorov og Magnús Carlsen 8 v. 4. So 7½ v. 5.-6. Caruana og Magsoodloo 7 v. 7.-8. Aronjan og Rapport 6½ v. 9.-10. Pragnanandhaa og Van Foreest 6 v. 11.-12. Liren Ding og Gukesh 5½ v. 13. Keymer 5 v. 14. Erigaisi 4 v.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 4. febrúar 2023

- Auglýsing -