Spennandi lokaumferð Vignir Vatnar Stefánsson (t.v.) og Helgi Áss Grétarsson mættust í síðustu umferð mótsins. Vignir vann eftir harða baráttu og varð í 2. sæti. — Ljósmynd/Guðný Sigurðardóttir

Hannes Hlífar Stefánsson sigraði á minningarmótinu um Ottó Árnason og Hrafn Jökulsson sem haldið var í Ólafsvík sl. laugardag. Mótið, sem haldið var við glæsilegar aðstæður í félagsheimilinu Klifi, er eitt fjölmennasta einstaklingsmót sem haldið hefur verið á landsbyggðinni en keppendur voru 98 talsins. Ekki vantaði mikið upp á að metið frá 1981 yrði slegið er Jóhann Þórir Jónsson stóð þá fyrir einu af sínum frægu helgarmótum í Vík í Mýrdal með 102 þátttakendum. Í Ólafsvík stefna menn á að slá þetta met næst þegar mótið verður haldið.

Hannes Hlífar hlaut 7½ vinning af átta mögulegum og gerði einungis jafntefli við Vigni Vatnar Stefánsson sem varð í 2. sæti með 7 vinninga. Í 3. sæti varð greinarhöfundur með 6½ vinning og hlaut auk þess öldungaverðlaunin. Í 4.-8. sæti urðu svo Helgi Áss Grétarsson, Jóhann Hjartarson, Ingvar Þ. Jóhannesson, Lenka Ptacnikova og Davíð Kolka með 6 vinninga. Fyrirkomulagið var með þeim hætti að fyrst voru tefldar fjórar hraðskákir, 7 0, og síðan fjórar at-skákir, 15 0.

Veitt voru fjölmörg aukaverðlaun. Lenka Ptacnikova hlaut verðlaun fyrir bestan árangur kvenna og einnig fyrir bestan árangur keppenda undir 2.200 elo-stigum. Davíð Kolka hlaut verðlaun fyrir bestan árangur keppenda undir 1.900 elo-stigum, Ingvar Wu náði bestum árangri keppenda 16 ára og yngri og Sigurður Páll Guðnýjarson fékk verðlaun fyrir bestan árangur keppenda undir 1.600 elo-stigum. Þá hlaut Birgir Þorsteinsson verðlaun fyrir bestan árangur stigalausra en bestum árangri heimamanna náði Sigurður Scheving.

Árið 2002 markaði nýtt upphaf í afskiptum Hrafns Jökulssonar og Hróksins af skákmótahaldi og skipulagning sannkallaðrar skákhátíðar var eitt af fyrstu verkefnunum. Mótið í ár var það áttunda í röðinni. Fjölmörg fyrirtæki í Ólafsvík og grennd studdu við framkvæmd þess.

Við setningu mótsins fjallaði Tryggvi Óttarsson um framlag þeirra beggja, Hrafns og Ottós. Þar kom fram að Ottó var aðsópsmikill í félagsmálum í Ólafsvík, hvatamaður að stofnun ýmissa félaga og sálin í taflfélaginu í Ólafsvík um langt skeið.

Við verðlaunaafhendingu var Gunnar Gunnarsson sæmdur gullmerki Taflfélags Snæfellsbæjar. Hann gat ekki verið viðstaddur en sonur hans, Þorsteinn Gunnarsson, tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd.

Novotny-þemað og Sam Loyd

Novotny-þemað, kennt við tékkneskan skákdæmahöfund, er skemmtilegt leikbragð sem hefur komið upp í frægum viðureignum og lýsir sér þannig að taflmanni er leikið beint í opinn dauðann – fórnað. Mótherjinn getur hirt manninn af borðinu á fleiri en einn hátt en hindrar þá í hvert skipti aðgang annarra taflmanna að varnaraðgerðum. Af frásögnum má þó ráða að fleiri hafi komið við sögu við sköpun þessa, m.a. einn þekktasti skákdæmahöfundur sem um getur, Bandaríkjamaðurinn Sam Loyd. Í grein sem ég rakst á um daginn er rakin skák sem Lloyd tefldi árið 1853 og þá kom þessi staða upp:

Sam Lloyd – Charles Caldwell

Hvítur virðist eiga nokkra góða kosti en langbesti leikurinn er …

24. De6!

Hér er Novotny-þemað komið fram. Taki svartur drottninguna, 24. … Bxe6, kemur 25. Rf5+ Kg8 26. Re7 mát. Ef 24. … Hxe6 þá 25. Rg6+ Kg8 26. Hh8 mát. Að lokum 24. … Rxe6 25. Rg6+ og 26. Hh8 mát.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 13. maí 2023

- Auglýsing -