Lokaumferðirnar í keppni landsliðsflokks á Skákþingi Íslands á dögunum verða lengi í minnum hafðar. Aðeins tvær umferðir eftir og Hannes Hlífar Stefánsson hafði unnið átta skákir í röð eftir að hafa tapað í fyrstu umferð fyrir Guðmundi Kjartanssyni og sat nú einn í efsta sæti með 8 v. af 9. Guðmundur kom næstur með 7½ vinning, í 3. sæti kom svo Vignir Vatnar Stefánsson með 7 v og í 4. sæti Hilmir Freyr Heimisson með 6½ v. Aðrir áttu ekki möguleika á Íslandsmeistaratitlinum.

Í þessari örlagaríku umferð, þeirri tíundu, tefldi Hannes við Jóhann Hjartarson og hafði hvítt, Guðmundur var með svart gegn Jóhanni Ingvasyni, Vignir Vatnar með svart gegn Braga Þorfinnssyni og Hilmir Freyr hafði hvítt gegn Hjörvari Steini Grétarssyni. Almennt var búist við sigri Guðmundar yfir Jóhanni Ingvasyni og það virtist ætla að ganga eftir þegar hér var komið sögu:

Skákþing Íslands 2023; 10. umferð

Jóhann Ingvason – Guðmundur Kjartansson

Svartur er sælu peði yfir og ætti að geta unnið með því að leika 30. … Db2 því að eftir 31. Hd1 Be8 á hvítur ekkert mótspil. En hann valdi að leika

30. … Db6??

sem Jóhann svaraði með

31. Hxa4! Bxa4 32. Bxf7+! Kh8

Vitaskuld ekki 32. … Kf8 33.Rg6 mát.

33. Dxa4 Kh6 34. Kg2 Dc5 35. Bg6??

Hvítur er sloppinn og hér var best að leika 35. Da1 með jafnri stöðu. Tíminn var af skornum skammti en á góðum degi hefði Guðmundur fundið vinningsleikinn í stöðunni, 35. … Hb2! Eftir 36. Da8 leikur svartur 36. … Hxf2+! 37. Kxf2 Rg4+! og hvítur er óverjandi mát. Guðmundur valdi að leika …

35. … De5

og eftir …

36. Da6

… kom

36. … Hd8?? 37. Bxh5!

… og þar sem 37. … Hd6 má svara með 38. Dc8! er svarta staðan allt í einu töpuð. Jóhann vann eftir 50 leiki.

Víkur þá sögunni að viðureign Hannesar og Jóhanns Hjartarsonar.

Skákþing Íslands 2023; 10. umferð

Hannes Hlífar Stefánsson – Jóhann Hjartarson

Spænskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 a6 4. Ba4 Rf6 5. 0-0 Bc5

Ég man ekki til þess að Jóhann hafi áður teflt spænska leikinn með þessum hætti.

6. c3 0-0 7. d4 Ba7 8. He1 d6 9. h3 b5 10. Bc2 He8 11. Be3 Bb7 2. Rbd2 h6 13. a3 exd4 14. cxd4 Re7 15. b4 Rg6 16. Db1 17. Bd3 Rhf4 18. Bf1 Dd7 19. Kh2 c5 20. g3 Re6 21. d5 Rd4!?

Jóhanni var ljóst að hann myndi tapa peði með þessum leik en það lifnar yfir biskupunum eins og framhaldið leiðir í ljós.

22. Bxd4?!

Hannes hefði betur sleppt því að seilast eftir peðinu. Mun betra var 22. a4!

22. … cxd4 23. Rb3 De7 24. Db2 Df6 25. Rfxd4 Re5

Greinarhöfundur fylgdist með þessari skák í beinni útsendingu á netinu og það lá í loftinu að úrslitin myndu ráðast af næsta leik Hannesar. Vegna hótunarinnar 26. … Rf3+ varð hann að finna góðan leik, 26. He2!, sem heldur ákveðnu jafnvægi.

26. De2 Rc4 27. Had1 Bxd5 28. f3 Rxa3 29. Bg2 Hac8 30. Da2 Bxd4 31. exd5 Hxe1 32. Hxe1 Hc2

– og hvítur gafst upp. 33. Dxa3 er svarað með 33. … Dxf3 og mátar.

Hilmir átti unnið tafl lengi vel gegn Hjörvari en varð að sætta sig við jafntefli og átti því ekki lengur möguleika á Íslandsmeistaratitlinum en þar sem Vignir Vatnar vann Braga Þorfinnsson var hann skyndilega kominn í efsta sætið ásamt Hannesi og Guðmundi. Þeir Hannes gerðu jafntefli í lokaumferðinni og aukakeppni þriggja um Íslandsmeistaratitilinn lauk með sigri Vignis.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 3. júní 2023

- Auglýsing -