Gengi íslensku liðanna var eins og skákborðið, svart og hvítt í annarri umferð á EM landsliða í Budva, Svartfjallalandi. Liðið í opnum flokki vann góðan 3-1 sigur á Kósóvó en kvennaliðið tapaði með sömu vinningatölu gegn Ítölum á afar ósanngjarnan hátt miðað við gang mála á borðunum.

Vindum okkur í skákirnar…

Opinn flokkur

Einhvern veginn virðumst við hafa áskrift á þessum Evrópumótum að því að mæta Kósóvóbúum. Ég læt öðrum eftir að telja en greinarhöfundi finnst við alltaf fá þá! Sem er svosem ágætt þar sem við höfum gott tak á þeim.

Hjörvar mætti þeirra besta manni, hinum sívaxandi Nderim Saraci (2466) sem vafalítið stefnir á að verða fyrsti stórmeistari Kósóvó. Á boðstólnum var hið klassíska drottningarbragð. Hjörvar fékk klassískt aðeins betra tafl en það getur oft verið erfitt að finna náðarhöggið byrjunin mjög traust á svart. Saraci náði að stríða Hjörvari vel fram yfir 30. leik en þá fór að skilja á milli.

43.Dxg7! og Saraci gafst upp.

Hannes átti ekki góða skák í dag að eigin sögn. Byrjunin sem hvítur valdi, skoski gambíturinn yfirleitt ekki talinn merkilegur pappír á þessum stigum skákarinnar. Hannes fékk jú auðveldlega jafnt tafl og í raun aðeins betra eftir byrjunina en fylgdi því ekki vel eftir og missti eiginlega alveg tökin á stöðunni.

Fall hefur verið fararheill undanfarið hjá Hannesi. Hann tapaði fyrstu skák á HM 50+ og vann svo fjórar í röð og á Íslandsmótinu fyrir ekki allslöngu tapaði hann í fyrstu umferð en vann svo heilar átta skákir í röð!

Sem betur fer var Guðmundur Kjartansson GJÖRSAMLEGA búinn að slátra sínum andstæðingi þegar Hannes tapaði. Guðmundur var snemma kominn með +1 úr byrjuninni og það virist aukast um einn til viðbótar hverja 2-3 leiki þar til svartur tapaði manni. Plús einn tveir þrír fjórir fimm og mát…

Hilmir Freyr vann sinn fyrsta sigur með landsliðinu. Hilmir er bara með einn gír eins og við þekkjum og svo túrbó takka sem hann notar óspart. Korab Saraci, frændi fyrsta borðs mannsins hélt að honum væri óhætt að hróka eftir að Hilmir lék 6…g6. Öllum vonum um rólega stöðubaráttu var svo hafnað eftir 7.0-0 g5!

Hilmir vann í hressilegri sóknarskák sem er týpísk fyrir hans skemmtilega skákstíl.

Niðurstaðan 3-1 sigur og verðlaunin ekki af verri endanum. Á morgun í þriðju umferð mætum við Norðmönnum og sjálfum Magnus Carlsen! Það er von okkar allra að Mangi sé ekki í fýlu og hvíli.

Skák í viðureign Svía og Finna vakti athygli. Riddari svarts virðist strand á miðborðinu en svartur gefur riddarann til að opna e-línuna og fórnar svo fljótlega skiptamun til að opna á hvíta kónginn. Svartur teflir sóknina lengst af hrók og undir og nær að klára skemmtilega skák!

Kvennaflokkur

Ítalir voru andstæðingarnir í annarri umferð. Sveit sem er skör ofar en okkar sveit í stigaröðinni, númer 20 á meðan við erum númer 27.  Ítalir stigahærri á öllum borðum.

Á efsta borði tefldi Olga af miklum krafti gegn Íslandsvininum Marinu Brunello. Hugmynd Olgu í byrjuninni með b3 er nánast ný af nálinni. Hvítur fær mjög athyglisverða sóknarstöðu. Olga fórnaði peði fyrir skemmtilegt spil

Hér lék Olga 18.Hd3 sem heldur athyglisverðum sóknarmöguleikum. Svekkelsið er kannski að Olga sá alveg 18.h4 en miklaði fyrir sér varnarmöguleika svarts eftir 18…Dg3 sem var óþarfi. Eftir 19.g5 hxg5 20.hxg5 Dxg5+ 21.Kb1 er hvíta sóknin nánast óstöðvandi. Svartur er tveimur peðum yfir en líka á eftir í liðsskipan og allir hvítu mennirnir munu sækja á kónginn innan skamms. Tölvan gefur +2 og í mannlegum stúderingum var mjög erfitt að verja svörtu stöðuna.

Hvítur fékk aftur færi á að leika h4 í næsta leik og staðan er enn mjög dýnamísk. Þess í stað komu mistök og sóknin missti skriðþungann hratt.

Lenka kom vel undirbúinn gegn Elenu Sedinu sem er alþjóðlegur meistari. Við bjuggumst með réttu við Alapin sikileyjarvörn en þó með smá töf eða eftir 2…e6 hjá svörtum. Skynsöm og traust lína varð fyrir valinu sem Carlsen tefldi gegn Aronian nýlega. Lenka hafði mjög trausta stöðu og notaði tímann mjög vel og hafði mikið tímaforskot.

Smátt og smátt sneri Lenka tafilnu sér í hag og breytti skákinni í umsátur um stakt d-peð hvíts. Peðið vannst en líklegast hefði verið vænlegra að drepa með biskup á d4 þegar það vannst þó taflið hafi enn verið unnið. 49. leikur svarts veikti líklega kóngsstöðuna óþarflega mikið en veikar kóngsstöður kostuðu okkur í þessari viðureign!

Eftir að hafa teflt frábær skák lék Lenka sig í tap með 52…Bh6??

Sem betur fer var sú ítalska föst í jafnteflishugmyndum og lék 53.Bxh6?? Kxh6 54.Hxg6+ og jafntefli með þráskák stuttu síðar. 53.Hc8! hefði hinsvegar kostað drottninguna og skákina vegna mátsins á g8…jafnteflið var nægur stuldur í þetta skiptið!

Jóhönnu var komið vel á óvart í byrjuninni með Caro-Kann vörn. Tea Gueci eiginlega alltaf teflt sikileyjarvörn og hefði ekki komið að tómum kofanum þar. Vorum líka tilbúin í 1.e4 e5 en andstæðingarnir mega líka koma á óvart.

Jóhanna slapp vel úr byrjuninni þrátt fyrir að þekkja hana ekki mjög vel. Fljótlega fékk hvítur fínasta tafl og Jóhanna tefldi miðtaflið vel og hafði betri stöðu. Líklega sneri þetta allt um einn „nuance“ í 28. leik sem hefði haldið pressu fyrir hvítan. Þess í stað fjaraði frumkvæðið út og sú ítalska með síst verra þegar hún bauð en jafntefli líklegast rökrétt niðurstaða á þeim tímapunkti.

Hallgerður tefldi langa, erfiða og svekkjandi skák á fjórða borði. Ungur andstæðingur hennar virtist þokkalega klár í slaginn í Caro-kann en þurfti þó að rifja upp hvað hún hafði teflt áður enda kom Hallgerður á óvart með að skipta um varíant í byrjuninni. Hvítur fékk aðeins betra og náði smá leiðindapressu á svörtu reitunum í miðtaflinu.

Vörn og barátta hefur oft verið aðalsmerki Hallgerðar á þessum mótum og hún varðist gríðarlega vel í miðtaflinu og tók svo yfir. Vann peð og tók yfir stjórn á skákinni, mótspil hvíts var í kæfingu.

Hér tók Hallgerður peð með 34…Bxa3 sem er alveg í lagi en skynsamlegra er að leika 34…Rf6 og tölvunum hugnast það og gefa -4 í mat. Erfiðlega gekk að láta umframpeðin telja. Einhverjir möguleikar voru enn til að sigla sanngjörnum vinningi heim en sú ítalska hélt áfram að sprikla.

53.h5 var leikið með örfáar sekúndur á klukkunni í hálfgerðri örvæntingu. Hér er 53…gxh5 betra á svart þó vinningurinn sé ennþá torsóttur. 53…a3?? var hinsvegar tapleikurinn og 54.Bg5 Kg7 55.h6 kláraði dæmið. Algjör stuldur hjá þeirri ítölsku.

Gríðarlega svekkjandi 1-3 tap þar sem viðureignin stefndi í 2,5-1,5 sigur hjá okkur þar sem Lenka og Hallgerður voru tveimur og einu peði yfir og staðan 0,5-1,5. 2-2 jafntefli hefði verið svekkjandi en tapið nánast óhugsandi eins og skákirnar þróuðust.

Kvennasveitin mætir Tékklandi í þriðju umferðinni.

Liðsstjóri tekur oft eftir athyglisverðum skákum á vappi um salinn. Skákin hér að neðan úr viðureign Armeníu og Serbíu var svo sannarlega rússíbanaviðureign dagsins í kvennaflokki!

Stóra spurningin á morgun er hinsvegar að sjálfsögðu hvort að Magnus Carlsen mæti til leiks gegn Íslendingum

- Auglýsing -