Síðari hluti Íslandsmóts skákfélaga hélt áfram í kvöld þegar 8. umferð úrvalsdeildarinnar fór fram. Fjölnismenn hafa unnið allar sínar viðureignir og viðureign þeirra við Taflfélag Reykjavíkur var nánast síðasta vígið. Fjölnismenn unnu sigur og hafa nú pálmann í höndunum og geta klárað dæmið gegn Víkingaklúbbnum á morgun.

TR – Fjölnir 

Viðureignin varð sannarlega sviptingasöm og allt gat í raun gerst.

Gummi flottur í kvöld (Mynd: HS)

Á efsta borði tefldi landsliðsmaðurinn Guðmundur Kjartansson glimrandi skák og var að yfirspila andstæðing sinn glæsilega en missti þráðinn í flækjum í lokin og svartur náði að bjarga sér, þangað til…

Litháarnir hafa varla stigið feilspor hingað til fyrir Fjölni en hér missteig Pultinevicius sig. Hann þurfti að velja hvort hrókurinn færi á d8 en valdi vitlaust. 47…Hfd8 vinnur á svart en 47…Had8?? var afleikur og fölnaði Fjölnismaðurinn hratt þegar Gummi skellti 48.Hf1! á borðið!

Helgi Áss missti þráðinn á öðru borði eftir að hafa haft fína stöðu en Aleksandr Domalchuk-Jonasson stóð vaktina fyrir TR á þriðja borði og vann sína skák.

Aleksandr Domalchuk-Jonasson í góðum gír (Mynd: HS)

Sasha tefldi þéttingsfastan „pósa“ að vanda en hefði getað stytt sér vinnuna með skemmtilegu skoti.

36.c6! hefði verið flottur hér og svartur tapar liði.

Fjölnismenn bitu frá sér á borðum 5-7 þar sem þeir unnu allar skákinar.

Dagur vann flottan sigur á Þresti.

Vörnin orðin erfið eftir 28.Rxg5! og Dagur kláraði fína sóknarskák vel.

Ingvar og Sigurbjörn að berjast (Mynd: HS)

Sigurbjörn vann sigur gegn Ingvari eftir æsispennandi og taktíska skák í kóngsindverskri vörn. Allt í háalofti á köflum!

 

TG – TV

TG vann stóran sigur á sveit TV. Ekkert gekk upp hjá TV og aðeins tvö jafntefli komu í hús. Línurof Hannesar gegn Filip Boe segir kannski alla söguna um þessa umferð hjá Vestmannaeyingum.

Hannes að tafli (Mynd: HS)

38…He6 rífur valdið á c8 hróknum og hótar Dh1 með máti!

KR – Víkingaklúbburinn

KR-ingar bitu vel frá sér í viðureigninni við Víkingaklúbbinn. Vignir og Arnar unnu góða sigra gegn Jóhanni og Braga og Andrey Prudnikov náði að leggja Davíð Kjartansson að velli.

Andrey Prudnikov (Mynd: HS)

Nokkuð óvæntur sigur Frode Urkedal á þýska landsliðsmanninum Alexander Donchenko vóg hinsvegar þungt og drjúgur afli á neðri borðunum skilaði sigri með minnsta mun til Víkingaklúbbins. Víkingar halda í veika von um að ná í skottið á Fjölnismönnum en til þess að ná því verða þeir að leggja Fjölni og TR að velli og treysta á að Fjölnir missi niður fleiri viðureignir.

Staðan eftir 7 umferðir.

Mótið er í raun tvískipt, ljóst er hvaða klúbbar „ná sér í málm“ en aðrar sveitir eru meira og minna í fallbaráttu. Miðað við úrslit dagsins verður róðurinn líklega þungur hjá Vestmannaeyingum!

Í fyrramálið, er tefld 8. umferð í úrvalsdeild og jafnframt fara neðri deildir af stað. Spenna og skemmtilegheit framundan um helgina.

Myndaalbúm 7. umferðar – Hallfríður Sigurðardóttir

 

- Auglýsing -