Adam, Benedikt, Ingvar og Björn Ívar ræða málin. Mynd: Þórir Ben

Uppsala Young Masters hófst í gær og verður teflt næstu daga í Uppsala í Svíþjóð. TR-ingarnir Adam Omarsson (2001) og Benedikt Þórisson (2000) eru meðal keppenda.

Mótið hófst í gær með fyrstu umferð. Báðir fengu þeir erfiða andstæðinga í fyrstu umferðinni.

Adam hafði hvítt gegn FM Adrian Soderstrom (2348). Adam fékk snemma nokkuð götótta peðastöðu og varasama kóngsstöðu. Reyndist það ekki virði peðsins sem Adam fékk í staðinn. Adrian vann eftir snarpa sóknarskák.

Benedikt fékk líka erfiðan andstæðing FM Axel Falkevall (2341). Sá sænski tefldi mjög vel gegn Grunfeldsvörn Benedikts og vann góðan sigur.

Í dag, laugardag voru svo tefldar tvær umferðir.

Benedikt lagði Juliu Ostensson í fyrri umferðinni en sú sænska tefldi biskupaendataflið ekki nægjanlega vel og skildi of mörg peð eftir á hvítum reitum sem kostaði hana jafnteflið. Fínn seiglursigur hjá Benna.

Adam hafði svart í Najdorf-afbrigðinu og yfirspilaði andstæðing sinn bæði stöðulega og loks taktískt í lokastöðunni. Fín skák hjá Adam.

Adam fylgdi þessu eftir með góðum seiglusigri í þriðju umferð þar sem hann stóð lengst af höllum fæti.

Benedikt náði líka góðum vinnusigri í þriðju umferðinni með svörtu.

Fínn dagur í dag, báðir með 2 vinninga af 2 og alls með 2 vinninga af 3 á mótinu. Benedikt og Adam mætast í fjórðu umferð og hefur Benedikt hvítt.

- Auglýsing -