Taflfélag Reykjavíkur hefur undanfarnar vikur staðið fyrir nokkrum skemmtilegum skákviðburðum, þ. á m. Íslandsmóti skákfélaga í atskák sem lauk á miðvikudaginn með sigri A-sveitar TR sem vann allar níu viðureignir sínar og var skipuð Þresti Þórhallssyni, Margeiri Péturssyni, Jóni Viktori Gunnarssyni, Ingvari Þór Jóhannessyni, Daða Ómarssyni, Alexander Oliver Mai og Gauta Páli Jónssyni. Keppnin dró til sín 14 sveitir og er talið að keppendur hafi verið um 80, sem er auðvitað frábær þátttaka. Þá hefur TR staðið fyrir tveimur stigamótum sem eru skipuð keppendum undir 2.000 Elo-stigum og hins vegar keppendum sem allir eru með 2.000 Elo-stig og meira. Þátttakan þar hefur einnig verið góð en teflt hefur verið einu sinni í viku og eftir fimm umferðir af sjö eru þeir efstir Dagur Ragnarsson og Hilmir Freyr Heimisson, báðir með fjóra vinninga af fimm mögulegum. Í U-2.000-flokknum hefur hinn 15 ára gamli Mikael Bjarki Heiðarsson unnið allar fimm skákir sínar og er einn efstur.
Það hefur einnig verið mikið um að vera á alþjóðavettvangi. Helgi Áss Grétarsson, Alexander Domalchuk og Dagur Ragnarsson tóku í síðasta mánuði þátt í skákhátíð í Palma á Mallorca þar sem Helgi Áss tefldi í stórmeistaraflokki en Domalchuk og Dagur í flokki alþjóðlegra meistara. Þar bar helst til tíðinda að Domalchuk vann glæsilegan sigur í sínum flokki, hlaut 6½ vinning af 9 mögulegum en Dagur varð í 4. sæti. Í stórmeistaraflokknum stóð Helgi Áss sig einnig vel, hafnaði í 2. sæti með 5½ v. af 9 mögulegum.
Nokkru síðar héldu til Hollands félagarnir Dagur Ragnarsson, Gauti Páll Jónsson, Oliver Aron Jóhannesson og Björn Hólm Birkisson og tefldu í A-flokki Opna Amsterdam-mótsins. Tefldar voru sex umferðir á þremur dögum en tímamörk voru 90:30 og er skemmst frá því að segja Dagur Ragnarsson varð efstur ásamt fimm öðrum, hlaut 5 vinninga af 6 mögulegum. Keppendur í flokknum voru 104 talsins. Dagur var harður í horn að taka á lokasprettinum sbr. eftirfarandi skák:
Opna Amsterdam-mótið 2024; 5. umferð:
Dagur Ragnarsson – Khoi Pham (Holland)
Kóngsindversk vörn
1. c4 Rf6 2. Rc3 g6 3. g3 Bg7 4. Bg2 0-0 5. Rf3 d6 6. 0-0 e5 7. d3 Rc6 8. Hb1 a5 9. b3 Bf5 10. Rh4 Be6 11. a3 h6 12. e4
Ákveður að loka miðborðinu. Einn kostur við þá ákvörðun er sú að nú opnast fyrir framrás f-peðsins.
12. … Rd7 13. Re2 Hb8 14. Be3 Rd4?
Það er einungis hvítur sem hagnast á þessum leik. Eftir 14. … b5! er staðan í jafnvægi.
15. Rxd4 exd4 16. Bd2 Kh7 17. f4 Rf6 18. Bxa5 Ha8?
Svartur nær peðinu aftur með þessum leik. Engu að síður voru betri möguleikar fólgnir í 18. … Rg4.
19. Bd2 Hxa3 20. f5 Bc8
21. e5!
Snarplega leikið. Hugmyndin kemur fljótt fram.
21. … dxe5 22. Bb4!
Vinnur skiptamun.
22. … Ha6 23. Bxf8 Bxf8 24. fxg6+ fxg6 25. De2 De7 26. Hbe1 Bg7 27. Dxe5 He6
Hvítur valdar vissulega hrókinn á e1 með 28. Da5 en þá mætti reyna 28. … Rg4. Dagur hefur annað í huga.
28. Dxe6! Bxe6 29. Bd5
Þessi leppun gerir útslagið.
29. … Rg4 30. Hxe6 Dd7 31. Hxg6 Re5 32. He6 c6 33. Be4+ Kg8 34. Bf5 Dd8 35. Rg6 Dg5 36. Hf4 Rxg6 37. Hxg6 Dh5 38. Hfg4 Dxf5 39. Hxg7+ Kf8 40. Hf4!
Einfaldast. Peðsendataflið er vonlaust svo að svartur gafst upp.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 9. nóvember 2024