Keppnismenn þurfa oft að fara langar leiðir á áfangastað og þá er ekki ónýtt að finna einhverja dægrastyttingu á leiðinni frá A til B. Greinarhöfundur hefur víða þvælst um dagana en það var ekki fyrr en um síðustu aldamót sem ég tók þátt í spurningaleik um kvikmyndir en varð snemma ljóst að meðal ferðafélaga var óumdeildur meistari þessa leiks, Björn Þorfinnsson. Það var rakið til þess að maðurinn hafði um skeið unnið á vídeóleigu og hafði fest í minni sér mikla þekkingu á titlum kvikmynda, leikurum og leikstjórum. Um tíma var talið að greinarhöfundur gæti veitt Birni nokkra keppni í þessari grein en þar kom að hann fann á mér veikleika sem, ef ég man rétt, tengdist hryllingsmyndum fyrir unglinga. Ekki er nokkur leið að útskýra þennan leik frekar en þó vil ég benda á að taki menn nafn Bjössa út úr fyrirsögninni og setji annað í staðinn er komið nafn á frægri kvikmynd.
Þetta rifja ég upp því að á dögunum kom út eintak af tímaritinu Skák sem var að hluta helgað undirrituðum. Björn skrifaði þar vinsamlega grein en staðnæmdist við nokkra sparsemi hrósyrða liðsstjórans þegar hann tefldi fyrir Íslands hönd í Khanty Manyisk í Síberíu haustið 2010. Sem liðsstjóri fékk ég það hlutverk að velja ólympíuliðið og þar sem Björn var valinn taldi ég það nú eitt og sér heilmikið hrós. Það má líka segja um nýliðana þrjá, en val þeirra kom ýmsum á óvart, að þeir voru skákin á Íslandi hvorki meira né minna á þessum tímapunkti fannst mér.
Um daginn var athygli mín vakin á skák sem Björn tefldi á EM taflfélaga á dögunum og lýsir kannski stíl hans þegar honum tekst vel upp. Sessunauturinn í liði Víkingaklúbbsins, Jóhann Hjartarson, lýsti byrjuninni þannig að Björn hefði skotið fyrstu leikjunum hratt út, beint eftir leiðbeiningum Chessable, vinsæls kennslugagns. Síðan negldi hann fram h-peðinu. Hvítur lenti fljótlega í strategískt tapaðri stöðu en úrvinnslan fannst sumum nokkuð stórkarlaleg hjá Birni en var þó þegar öllu var á botninn hvolft býsna góð:
EM taflfélaga 2024; 7. umferð:
Matthew Wadsworth – Björn Þorfinnsson
Katalónsk byrjun
1. Rf3 d5 2. g3 Rf6 3. Bg2 e6 4. O-O Rbd7 5. d4 c6 6. c4 dxc4 7. a4 b6 8. Rfd2 Ba6 9. Bxc6 Hc8 10. Bb5 Bb7 11. Rc3 h5!
12. e4 h4 13. Dc2?!
Skrítin staðsetning. Mun betra var 13. De2! og hvíta staðan er betri.
13. … hxg3 14. hxg3 Bb4 15. Bxc4 Bxc3 16. bxc3 Rxe4
Enn betra var 16. …Rg4!
17. Rxe4 Bxe4 18. Dxe4 Hxc4 19. Df3 Rf6 20. a5 b5 21. a6 Dd5! 22. Dxd5 Rxd5 23. Ba3 Kd7 24. Bc5 Ha8 25. Hfb1 Rxc3 26. Hb3
Staða hvíts er afar aðþrengd og ekki liggur á róttækum aðgerðum. Hér hefðu flestir leikið 26. …. Kc6! sem vinnur létt.
26. … e5!? 27. He1 f6 28. f4 e4 29. f5 Kc6 30. Kg2 Ra4 31. Ba3 Hxd4 32. Hc1 Hc4 33. Hxc4 bxc4 34. Hb4 Rb6 35. Bc1 Kc5 36. Hb1 c3 37. Be3+ Kc4 38. Hd1 c2 39. Hd4 Kc3 40. Hxe4 Hd8 41. He6 Hd2+ 42. Bxd2+ Kxd2 43. Hd6+
Ekki 43. … Kc3 vegna 44. Hxb6 axb6 45. a7 c1(D) 46. a8(D) og hvítur á jafnteflismöguleika.
43. … Ke2 44. He6+ Kd3 45. Hd6 Ke4 46. Hc6 Rd5!
Nákvæmlega þarna. Hvítur getur ekki tekið c2-peðið vegna 47. … Re3+ og nú skýlir riddarinn kónginum.
47. Kf1 Rb4 48. Hc3 Kd4 49. Hc7 Ke3!
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 16. nóvember 2024